Færsluflokkur: Bloggar

Hugleiðingar Lindu: 3 atriði sem fá sambönd til að virka

hús sambandsSambandshús Gottmans er algjörlega brilliant tæki til að meta ástarsambönd útfrá strax í byrjun þeirra.

Þær þrjár stoðir sem allt húsið byggist á segir afar mikið til um það hvernig til tekst að búa til samband sem endist ævina á enda. 

Fyrsta atriði hússins er grunnurinn sem er vináttan:

Eruð þið vinir? getið þið talað við hvort annað endalaust? skiljið þið hvort annað? eigið þið til samhygð og velvild til hvors annars eða eruð þið í sífelldri togstreitu þar sem annað ykkar þarf að standa uppi sem sigurvegari en hinn að tapa? Hlustið þið á hvort annað eða upplifið þið eins og annar eða báðir aðilar séu ekki tilbúnir til að hlusta og taka eftir því sem sagt er? rífist þið mikið eða talið þið saman í virðingu og umhyggju fyrir skoðunum og lífsgildum hvors annars?

Vináttan skiptir afar miklu máli og þegar hún er ekki til staðar þá er enginn grunnur fyrir einhverju meiru. 

 

Næst kemur útveggurinn sem táknar traustið:

Er erfitt að treysta makanum í sambandinu?, Er sannleikurinn ekki uppi á borðum, er verið að fela hluti?  fara á bak við þig varðandi ýmsa hluti eins og viðveru á einkamálum eða samfélagsmiðlum, eru samskipti við hitt kynið falin, er verið að laumast við drykkju eða aðra neyslu? er erfitt að fá aðilann til að tala um fyrra líf sitt og eru mörg leyndarmál í kringum hann? Inni í sambandi þar sem þetta er raunin er erfitt að skapa traust og nánd. Og þegar nándin er ekki til staðar þá dafna ekki tilfinningar ástarinnar og óöryggi og tortryggni taka völdin þess í stað. Báðum aðilum líður illa í þannig umhverfi og öll atlot og kynlífsathafnir verða fjarlægari og nándarminni ef þau eru til staðar á annað borð. Samskiptin verða yfirleitt afar skökk inni í sambandi sem byggt er upp með þessum hætti og ætti enginn að vera að gefa líf sitt inn í samband þar sem ekki ríkir traust og heiðarleiki.

 

Þriðja atriðið útveggur skuldbindindingar: 

Er tilvonandi eða núverandi maki þinn að fullu skuldbundinn þér eða dregur hann lappirnar þar? Er þér hótað að hann fari í hvert sinn sem eitthvað gengur ekki eins og hann vill að það gangi? Að hóta skilnaði í tíma og ótíma er ekki í boði í heilbrigðum samböndum þar sem skuldbindingin er innsigluð.

Eða líður þér eins og þú getir verið algjörlega örugg í sambandi ykkar og að ekkert í veröldinni geti komið upp á milli ykkar og orðið til þess að þið farið í sundur? Þannig ætti þér að líða inni í sambandi þar sem skuldbindingin ríkir og þar skapast svo sannarlega rými fyrir plön ykkar varðandi framtíðina.

Því að þak hússins hjá Gottman er einmitt framtíðarsýnin sem ekki er hægt að byggja upp ef grunnstoðir sambandsins eru ekki í lagi.

Svo metum vel þessa húsbyggingu og gerum kröfu til þess að þessi bygging sé traust og haldi í öllum veðrum og skjálftum sem inn í líf okkar gætu komið. Ef hún stenst ekki gæðavottun okkar þá þarf ýmist að bæta hana eða finna sér annan grunn til að byggja nýja byggingu á.

Gerum amk sömu kröfu til þessarar byggingar og við mundum gera til húss sem við værum að smíða til að búa í næstu árin eða áratugina...Og þegar rétta húsið er tilbúið þá fegrum við það með öllum litlu smáatriðunum sem gera ástarhreiðrið okkar fallegt og hlýlegt.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda


Hugleiðingar Lindu: Áramótatiltekt

fólkUm áramót erum við dugleg að heita því að lifa nú aðeins betra lífi en á árinu sem er að líða, við ætlum í ræktina, létta okkur, vinna minna, borða rétt, sinna allt og öllu miklu betur en áður og markmiðalistinn verður oft langur.

Allt gott og blessað og vonandi náum við sem flest öllum þeim fyrirætlunum sem árið 2016 á að færa okkur. 

En ef svo á að verða eru nokkur atriði sem við þurfum að huga að.

Það er ekki nóg að vera með fögur fyrirheit en ætla samt að gera hlutina á nákvæmlega sama hátt og áður. Við þurfum að taka til og það í öllum skúmaskotum. Þurfum jafnvel að losa okkur við ýmsa hluti sem okkur þykir í raun óhugsandi að þurfa að gera.

En því miður er það oft þannig að við eigum í erfiðleikum með það að losa okkur við það gamla, breyta hugsunum okkar, viðhorfum og framkvæma með nýjum hætti. Erfitt en þarf þó oft að gerast ef við ætlum að standa með uppfyllt áramótaheit að ári liðnu.

Svo ég spyr þig, hvað í þínu lífi þarf að fara til að þú náir á þann stað sem þú vilt vera á að ári?

 

Er það gamli makinn sem þú átt erfitt með að sleppa tökum á? Vinir sem þurfa að hverfa? Starf sem þarf að yfirgefa? Einhver fíkn sem þarf að vinna á? Hugsanamynstur sem þarf að breyta? Meðvirkni? Ótti? Samskipti? "Ég get ekki" tilfinningin? "Mér tekst aldrei neitt" tilfinningin? "Allir eru betri en ég í þessu" tilfinningin og svo framvegis...

Hvað svo sem það er þá hvet ég þig til að taka til í öllum skúmaskotum, leita þér aðstoðar ef þú þarft (það er ekkert að því að kunna og vita ekki allt sjálfur), gerðu bara það sem þú þarft að gera af því að það er svo miklu skemmtilegra að standa með yfir-rissaðan markmiðalistann að ári, uppbústað egó og finnast að heimurinn hafi bara verið skapaður fyrir mann sjálfan og engan annan...

 

Gleðilegt glimmerár fullt af kærleika, gleði og náðum markmiðum elskurnar og takk fyrir árið sem er að líða. En farið nú rosalega varlega með flugeldana á gamlárskvöld..

Xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is

 

 


Hugleiðingar Lindu: Hvað skiptir máli?

lífið myndAð undanförnu höfum við verið minnt allt of oft á það hversu hverfult lífið er, hversu stutt og svo óskaplega brothætt.

Svo stutt og stundirnar fáar til að breyta því sem við viljum breyta til þess að skapa okkur þann lífsveg sem við teljum farsælastan. Treystum ekki á morgundaginn til þeirra breytinga sem við viljum sjá gerast heldur hefjumst handa í dag.

Ef ég spyr mig hverju ég þyrfti að breyta í dag til að ég gæti kvatt lífið sátt við mig og mína vegferð hér yrðu svörin nokkuð mörg verð ég að játa.

En merkilegt nokk væru fæst þeirra tengd veraldlegum hlutum eins og húsum, bílum, peningum eða glingri af öllu tagi. Frekar að það kæmi upp í huga minn að leyfa mér að dreyma stærri drauma, elska meira, hlæja oftar, njóta lífsins og gleðistunda þess, heillast oftar að sköpunarverkinu og kraftaverkum þess, og ég væri allskostar óhrædd við tilfinningar mínar, upplifanir og álit annarra á vegferð minni.

Ég eins og svo margir aðrir er kannski ekki nógu dugleg að sinna þeim sem mér þykir vænst um, læt veraldarvafstrið trufla mig þar. Ég gæti gert svo miklu meira af því að segja þeim sem ég elska hversu mikils virði líf þeirra er mínu lífi, hversu snautlegt það væri án þeirra. Ég gæti sagt þeim oftar að ég elskaði þá og eins gæti ég verið duglegri að segja þeim hversu dýrmætar og einstakar mannverur þeir eru. Ég gæti umfaðmað lífsveg þeirra og samþykkt hann oftar án skilgreininga og jafnvel tekið þátt í þeirra brölti hvort sem það samræmdist mínum skoðunum og áliti eða ekki...Bara notið samvistanna, hlátursins og gleðinnar af því að finna nánd við mannveru sem á kærleika minn.

Ef ég ætlaði að bæta lífsgæði mín og vegferð færi ég líklega oftar að finna þá sem eru mér kærir, ég hringdi líklega oftar, léti ekki leiðindi og fúlheit ráða ríkjum en hefði oftar matarboð, kaffiboð eða kallaði á fólkið án nokkurs tilefnis annars en þess að ég hefði löngun til þess að hitta það. 

Eins gæti ég teygt mig meira í áttina að því að sýna auðmýkt og umburðalyndi. Ég gæti gert það að markmiði mínu að elska aðeins meira í dag en í gær.

En er það ekki oft þannig að við erum ekki alveg tilbúin að láta af okkar stóra og mikilvæga egoi?

Okkar skoðanir eru þær sem gilda, okkar álit, okkar upplifanir, okkar langanir og óskir sem sitja í fyrirrúmi í allt of mörgum tilfellum, Þannig er því a.m.k farið með mig allt of oft þó að ég telji mig þó komna langt á veg með að breyta því. Verð betri og betri með hverju árinu sem líður. Vonast hreinlega til þess að vera búin að ná þessu áður en kallið mikla kemur :)

Ég þarf líka að læra að hlusta betur án þess að vera alltaf tilbúin með svar á móti, bara hlusta...ekkert annað.

Ég held að við gætum lært heilmikið um heim og skoðanir samferðamanna okkar á veröldinni og málefnum hennar með því einu að leggja okkur fram við að hlusta gagnrýnislaust og opin fyrir því að læra eitthvað nýtt. Gefum þannig þeim sem við eigum í samræðum við tækifæri á því að vera þeir sjálfir, opnir og berskjaldaðir án ótta við dóm og lítillækkun þeirra sem þeir opna sig fyrir.

Stærri gjöf er líklega ekki hægt að gefa en þá að leyfa annarri mannveru að vaxa og þroskast í andrúmi kærleikans og því umburðalyndi sem honum fylgir, það er gjöf sem gefur bæði gefanda og þiggjanda. Það væri sá lífsfarvegur sem ég væri sátt við að hafa farið að loknu þessu lífi og gæti mætt örlögum mínum glöð og sátt.

Njótum þess elskurnar að bæta okkur dag hvern og geta þannig staðið nær því sem við værum sátt við á þeim degi er lúðurinn gellur og kallar okkur heim. Látum ekkert veraldarvafstur stela frá okkur því sem skiptir okkur mestu máli í lífinu.

Mínar hugheilustu jólakveðjur til ykkar allra með ósk um að líf ykkar verði fyllt gleði og glimmeri yfir hátíðina.

Xoxo

Ykkar Linda


Hugleiðingar Lindu: Lífið er gjöf

lífið er þittLíf okkar er stundum erfitt og stundum sárt, en samt svo óendanlega dýrmætt þegar við skoðum það nánar.

Okkur var gefið líf til að við gætum gert við það allt sem við viljum við það gera. Við erum frjáls. Og eins og ég sé það, var hverju og einu okkar úthlutað ólíkum hæfileikum og getu. Ekkert okkar er með sama fingrafar, ekkert okkar er með sama lit á lithimnu augna okkar, ekkert okkar er eins þrátt fyrir sjö milljarða núlifandi manna.

Að mínu mati er það þannig að við erum einstök hvert og eitt okkar. Einstök og dýrmæt, og líf okkar allra skiptir svo miklu máli í einingu lífsins,  og saman gerum við heiminn að því sem hann er. 

Það sem ég tel okkur hinsvegar skorta stundum er að við metum það líf sem okkur var gefið, og tökum því sem sjálfsögðum hlut að eiga morgundaginn. En svo er ekki, það er svo sannarlega meiri eftirspurn eftir aldri en framboð. Svo förum vel með það líf sem okkur er úthlutað og sköpum okkur gleði og hamingju með ákvörðunum okkar og framkvæmdum. 

 

Hver og einn dagur er gjöf sem gefur okkur tækifæri á því að stíga upp frá því sem heldur okkur frá því besta í lífinu. Á hverjum einasta morgni höfum við val um það að dvelja í eymd og volæði eða að stíga í fæturna og leggja af stað í átt að draumunum okkar.

Ákvörðunin er alltaf okkar og enginn getur breytt því hvorki aðstæður né tálsýnd lífsins.

Við höfum val, en ekkert alltaf svo auðvelt val, og hver og einn einasti maður sem hefur farið braut drauma sinna getur líklega vitnað um baráttu, blóð, svita og tár á þeirri göngu. "Vonleysi", "kjarkleysi", "ég er ekki nógu góður" tilfinninguna, "skömmina" vegna einhvers, sama hvers, öll "nei-in", "úrtölurnar", jafnvel andlegt og veraldlegt gjaldþrot. 

En þeir sem sigra og ná að sigra eru þeir sem hafa þolað þessa vosbúð alla, þeir hafa þroskast á leiðinni að settu marki, farið í gegnum tilfinningrússíbana, blankheit, gagnrýni og jafnvel vonsku frá meðbræðrum sínum en ekki gefist upp. 

En það sem þeir hafa að öllum líkindum lært á leiðinni er að, lífið er eins og nokkurskonar hjartalínurit. Það koma dagar þar sem allt virðist ganga upp (topparnir), en einnig dagar í lægð. Verstir eru þó þeir dagar sem ekkert er að gerast og ekkert hreinlega gengur upp, eins og flatt línurit og við vitum öll hvað það táknar (Dauða eða stöðnun).

Toppdagarnir eru þó þeir sem gera þetta allt einhvers virði og gera það þess virði að fara í gegnum þá vondu.

 

Þeir sem sækja drauma sína og gefast ekki upp á miðjum vegi hafa lært að þekkja sjálfa sig á leiðinni, bæði styrk sinn og veikleika. Þeir hafa breytt úreltum hugsunum og gildum, hafa lært að sjá aðra sem jafningja sína og losnuðu líklega við hrokann og falska egó-ið að stórum hluta. Vita líklega hversu dýrmætir þeir eru og hversu dýrmætt það líf er sem þeim er gefið. Þeir hafa kennt okkur sem á eftir þeim komu svo margt og þar á meðal það að alla drauma okkar getum við látið rætast ef við höfum nægan viljastyrk og leitum lausna í öllum aðstæðum sem uppá koma. Eins hafa þeir kennt okkur að þakka fyrir lífið í öllum aðstæðum og að gera sem mest úr því alla daga.

En skoðaðu hjarta þitt og sjáðu hvort þér finnist þú eiga skilið að eiga fallegt og gott líf, og ef þú finnur að þar skorti á, breyttu þá þeirri hugsun.

Þú átt bara það góða, fagra og fullkomna skilið, hver svo sem þú hefur verið í fortíðinni og hvað svo sem þú hefur gert í lífinu.. Stígðu upp til nýrra tíma og lífs. Dagurinn er þinn og lífið er svo sannarlega gjöf til þín, njóttu þess!

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

 


Hugleiðingar Lindu: Sálin öskrar af einmannaleika

ópiðBörn, fullorðnir og gamalmenni nútímans eru einmanna, eða a.m.k allt of margir. 

Við eigum allt til alls og skortir í raun ekki neitt nema nánd, kærleika og fullvissu þess að einhverjum þyki vænt um okkur. Og í þeim sporum eru allt of margir, og þá meina ég allt of margir!

Við heyrum jafnvel fréttir af fólki sem finnst látið eftir langan tíma vegna þess að enginn fór til að athuga með það, sorglegt að svona skuli gerast...

 

Í dag eru fjölskyldur margar hverjar sundraðar með tilheyrandi vandræðum og skorti á félagsskap og nánd. Mömmur og pabbar, afar og ömmur eru jafnvel í tugatali í kringum börnin okkar og barnabörn.

Við erum fráskilin, misskilin, vinnum eins og skepnur til að sleppa við og horfast ekki í augu við að okkur skortir þessa nánd sem nútíminn neitar allt of mörgum um. Við aukum svo á streituna með öllum tiltækum ráðum, og förum jafnvel í nám samhliða 150% vinnu og barnauppeldi. Þjóðfélagið krefur okkur um eilífðar fræðslu um allt og ekkert. En þó krefur það okkur ekki um fræðsluna sem við þurfum helst á að halda. Menntun í hugsunum, kærleika, virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum. Eins þyrfti líklega að kenna okkur að taka lífinu með ró, "vera í núinu" eins og það er kallað, og eiga samræður hvert við annað á kvöldin og um helgar.

Við erum mörg úttauguð og stressuð fyrir allan peninginn, og kunnum varla lengur á lífið að mínu mati. Sjónvarpsfjölskyldan hefur tekið við af þeirri raunverulegu samanber Kardashian fjölskylduna sem talað er um í kringum mig eins og þetta fólk væri inni á gafli hjá minni fjölskyldu. En ég hefði nú meiri áhuga á því að þekkja mitt raunverulega fólk betur og sinna því betur. Það krefst tíma, tíma sem hvorki ég né fólkið mitt að undanskilinni aldraðri móður minni hefur. Og ég verð að segja...mér finnst þetta ekki smart, hvort sem ég er að tala um sjálfa mig eða alla hina. 

Börnin okkar líða fyrir skort á samskiptum við okkur, á því er enginn vafi. Við höfum að meðaltali líklega um 4-5 tíma á dag með þeim, og megnið af þeim tíma fer í það að láta þau læra, fara í búðir og elda mat. Ekki margar gæðastundir þar. Foreldrar okkar fá okkur sjaldan í heimsókn þótt aldraðir og einmanna séu, og við gefum okkur varla tíma til þess að hitta bestu vini okkar nema endrum og sinnum og þá yfirleitt yfir matardiskum á veitingastöðum. (Við þurfum jú víst að borða)

Við keppumst alla daga við að afla okkur meira af mammons gæðum, merkjavöru, stórum húsum, glæsikerrum og innbúi sem slær innbú nágrannana gjörsamlega út.

En keppumst ekki eftir raunverulegum gæðum lífsins.

Helstu áhyggjur okkar eru líklega af því að einhver finni nú út að MK  veskið okkar sé fake (Fyrir þá sem ekki eru að kveikja, erum við að tala um Michael Kors, hver sem hann nú er!).Og svo þurfum við að ná árangri á öllum sviðum, sérstaklega úti í hinum harða heimi viðskipta og fyrirtækjareksturs. Það telst ekki árangur að vera heima og hugsa um börnin sín og koma þeim til manns lengur, núna þarf mamman að vera forstjóri stórfyrirtækist til að teljast marktækur þjóðfélagsþegn og fólk sýpur hveljur yfir því að lengja eigi fæðingarorlof.

Og hvað græðum við svo á öllum þessum herlegheitum?

Jú afleiðingarnar eru oftar en ekki streituvaldandi sjúkdómar eins og hjartaáföll, blóðtappar, hár blóðþrýstingur, lélegt ónæmiskerfi, magasár, kvíði, þunglyndi og fleira og fleira. Og við erum mörg skelfilega einmanna og ófullnægð í sálinni okkar. 

 

En hvar fáum við svo útrás fyrir félagsþörf okkar?  jú, á netmiðlum.

Netmiðlarnir loga vegna einmannaleika okkar. Þú finnur næstum því lyktina af honum á facebook, einkamálum, tinder og öðrum samskiptasíðum. Þar reyna hinir einmanna, yfirgefnu og fráskildu að finna sér félagsskap með mis miklum árangri. Tölvuleikir hafa hertekið börnin okkar vegna þess að þau nenna ekki að reyna að ná sambandi við önnum kafna foreldra í lífsgæðakapphlaupi. Símarnir eru samskiptamáti fjölskyldunnar og allir hanga endalaust þar. (ég er engin undantekning þar) Svo skilur enginn neitt í neinu, afhverju við erum með óþekk og ofgreind börn allt um kring, nú eða kvíðin, þunglynd börn sem sjá ekki tilgang lífsins.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er harðorð hér en tel mig vera komna á nægjanlega virðulegan aldur til að segja bara það sem mér finnst,  og þetta er það sem ég sé þegar ég lít á þjóðfélagið í heild sinni og ég fyllist sorg. 

Skoðum endilega öll hvar við getum tekið til í kringum okkur, hvar við getum sinnt öðrum meira, hvar gildin okkar liggja, hver þarfnast kærleika okkar og nándar, hvernig við getum átt betri og aukin samskipti við fólkið okkar, hvar við þurfum að byggja aðra upp með hvatningu og með því að taka þátt í lífum þeirra, að hafa áhuga á því sem þeir eru að gera.

Ég hugsa að til lengdar yrðum við öll hamingjusamari og glaðari ef við gæfum af okkur meiri nánd og kærleika, og gætum þá kannski séð að við þurfum ekki alla þessa fermetra, parket,merkjavöru og neyslu af öllu tagi. Vegna þess að við ættum annað sem er svo miklu dýrmætara að eiga...Hjarta sem væri fullt af kærleika, gleði, samveru og nánd...

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

 

 


Hugleiðingar Lindu: Á ég að bjarga barninu þínu?

migrant-child-dead-beach-turkeyÉg á satt að segja til fá orð yfir fréttum síðustu daga.

Fréttum af hörmungum flóttamanna sem eru í nokkurra klukkustunda flugfjarlægð frá okkur (eins og að keyra frá Reykjavík til Akureyrar)

Við sjáum lík lítilla yndislegra barna fljótandi um í sjónum og eða liggjandi í fjörum landa sem foreldrar þeirra reyna að flýja til vegna ástandsins heima fyrir.

Og hvað tekur svo við hjá þeim sem þetta reyna? Þeirra sem sjá það sem illskárri möguleika að fara á hriplekum bátum út í óvissuna frekar en að láta myrða börnin sín af öfgasinnuðum brjálæðingum?

Jú ofdekraðar þjóðir vesturlandanna herða hjörtu sín, og huga fyrst og fremst að því hvað í pyngjunni leynist. Hvort hægt sé að gefa þessum börnum að borða þegar til lengri tíma er litið, eða hvort hægt sé að sjá þeim fyrir atvinnu og húsnæði í framtíðinni. Og það sem verst er, þá eru þjóðfélagsþegnar vesturlandanna að huga að því hverju þeir gætu tapað úr eigin spónum við að koma samlöndum sínum á hótel jörðu til aðstoðar.

Ég fyllist reiði, sorg og depurð þegar ég les sumt af því sem fólk setur hér inn á netið, og get ekki varist þeirri hugsun að kærleikur okkar og samhygð sé á hröðu undanhaldi í gnægtum okkar (já ég segi gnægtum) ...

Að við séum að verða svo ofdekruð og vanþakklát að við eigum ekki lengur hjarta af holdi og blóði.

Ef ég sæi barnið þitt á harðahlaupum fyrir bíl sem væri á 100 kílómetra hraða og hefði gott tækifæri á að bjarga því frá bílnum, ætti ég að setja mig í grjótharðar stellingar hagkvæmnissjónarmiða íslenska ríkisins og huga að því hvort það væri efnahagslega hagkvæmt þegar til lengri tíma er litið að bjarga barninu þínu frá bráðum dauða?

Ætti ég að setja mig í stöðu tilfinningalausra kerfa sem meta allt útfrá þjóðarhagsmunum þegar barnið þitt væri í bráðri lífshættu? Ætti ég að hugsa útí það hvaða skoðanir barnið þitt hefði miðað við mínar, og láta það ráða vali mínu?

Eða vildir þú kannski heldur að ég ætti hjarta af holdi og blóði sem einfaldlega ætti þessar hugsanir ekki til, heldur hugsaði einungis um að bjarga litlu barni frá dauða og veita því von um gæfuríka framtíð, sama hverra manna það væri, sama hvort það væri hagkvæmt eða ekki, og sama hvort að ég græddi eða tapaði á því ?

Mér verður hreinlega illt við tilhugsunina um það hvert við erum komin, og finnst þetta óneitanlega minna á kulda þann sem til varð í seinni heimstyrjöldinni, í hinu óvægna nasistaríki þjóðverja.

Í mínum huga er þetta svo einfalt, það er neyð, við komum til bjargar!

Viltu að ég bjargi barninu þínu frá bílnum?

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi

Einstaklingsþjónusta, fyrirtækjaþjónusta.

linda@manngildi.is


Hugleiðingar Lindu: Béin 3

bréneÉg dró fram gamlan pistil sem ég skrifaði fyrir löngu síðan og breytti honum aðeins, en það er aðallega vegna þess að ég er að fara á GLS ráðstefnu í Chigaco þar sem þessi frábæri fræðimaður og mannvinur verður með fyrirlestur. Hlakka mikið til að hlusta á hana og fleiri stórkostlega spekinga þar.

En hún Brene Brown Ph. D er bandarískur fræðimaður, rithöfundur og opinber ræðumaður sem ég hef fengið mikið dálæti á, og ég verð að segja að ég hreinlega elska verkin hennar… Hún starfar í dag sem rannsóknarprófessor við Háskólann í Houston Graduate College við félagsráðgjöf.

Í meira en áratug hefur hún tekið þátt í rannsóknum á viðkvæmni (vulnarability) hugrekki, áræðanleika, samúð og skömm. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli og nú síðast hjá ekki ómerkari manneskju en sjálfri Oprah Winfrey!

Bé-in þrjú… Be loved… Belong… Be brave (Að vera elskaður, að tilheyra og að vera hugrakkur) er það sem BrenE segir að séu grunnþarfir okkar varðandi félagslega vellíðan.

Hún talar um að við ættum að leyfa okkur að dvelja í viðkvæmninni eða berskjöldun og leyfa okkur það að vera ekki alltaf fullkomin, að það sé allt í lagi að við séum stundum viðkvæm og svolítið hrædd… En svo segir hún líka: En við erum líka hugrökk oft á tíðum og eigum alltaf skilið að vera elskuð og að fá að tilheyra.

Við þörfnumst þess öll að vera elskuð og að tilheyra minni og stærri einingum í samfélaginu… og við þörfnumst fallegra tenginga við annað fólk, það eru þessi tengsl sem gefa okkur tilgang í líf okkar og tilveru en skortur á þeim valda okkur undantekningalaust vanlíðan og eða sorg.

Það virðist vera að við mennirnir skiptumst lauslega í tvo hópa samkvæmt rannsóknum Brené.

Fyrri hópurinn telur sig þurfa að vinna sér inn kærleikann með einhverjum hætti á meðan seinni hópurinn telur að hann eigi bara skilið ást og umhyggju og að fá að tilheyra (ég tilheyri greinilega þessum seinni) Þessi seinni hópur á ekkert betra eða farsælla líf en hinir sem telja sig þurfa að vinna sér inn ástina og tilheyrsluna, en þeim tekst með einhverjum hætti að halda í sjáfvirðið í gegnum öldudali lífsins.

En hvað er það sem gerir það að verkum að þessum seinni hóp tekst að halda í sjálfsvirðið og finnst þeir bara eiga skilið að fá kærleika og að tilheyra?

Þetta viðhorf er áunnið, og verður til vegna þess að þessi hópur skilur að það eru ákveðnir hlutir sem þurfa að hafa forgang hvern dag. Þeir sem teljast til þess hóps sem Brené talar um vita að það eru atriði eins og það að lifa í hugrekki, samhyggð og sambandi við annað fólk sem gefur lífinu gildi sitt. Þeir vita einnig að þeir þurfa að fá að dvelja í viðkvæmni sinni og eða að koma til dyranna nákvæmlega eins og þeir eru klæddir hverju sinni.

Öllum þessum kenningum Brené er ég svo gjörsamlega sammála og ég upplifi að eftir því sem ég er tilbúnari til að deila með öðrum því hversu afar ófullkomin mannvera ég er, og hversu mörg og mikil mistök ég geri á lærdómsleið minni um lífið, þá finnst mér fólk tilbúnara til að tengjast mér, treysta, og ég upplifi sterkar kærleika þeirra, samhygð og velvilja  til mín, og ég til þeirra…

Ég veit ekki hvernig það er með þig sem þetta lest en… Ég elska fólk, það er bara þannig. Ég elska að vita sem mest um annað fólk, hvernig því líður, hvað það er að framkvæma, hvað er gott og hvað er slæmt í lífum þeirra. Ég elska að hlæja, hugga, borða og eiga samfélag með öðrum mannverum. Við erum nefnilega flest bara svo yndisleg þrátt fyrir alla gallana okkar.

Sumir eiga erfitt með að skilja þetta í fari mínu sem er í fínu lagi, ég veit hvað drífur mig áfram.  Ég elska fólk.  Og ég eins og aðrir þarf að fá kærleika frá öðrum mannverum, það finn ég að gefur mér vellíðan og tilgang. Auðvitað er yndislegt þegar ég fæ kærleikann til baka frá þeim sem ég gef hann til en það skiptir þó ekki alltaf máli.. Og ég þrái auðvita meiri kærleika frá sumum en öðrum, eins og gefur að skilja.

Við þráum öll að þeir sem við elskum heitt eins og, maki, börn, barnabörn og vinir eigi það sama í hjarta sér og það sem við eigum til þeirra, og það er bara eðlilegt. En hvort sem ég fæ kærleika á sama hátt frá þessum aðilum eða ekki, þá á eiga þeir minn kærleika, og það að mestu skilyrðislausan í dag.

því að hjarta mitt er einfaldlega þakklátt fyrir að upplifa þann kærleika sem þar er til að miðla. Svo verum nú dugleg að leyfa okkur sjálfum og þeim sem við umgöngumst að finna vel fyrir þessum þremur B-um, að finna að þeir tilheyri okkur, að þeir séu elskaðir og látum þá finna fyrir stuðningi okkar þegar þeir taka skrefin inn í hugrekkið.

Þar til næst elskurnar

xoxo

ykkar Linda

linda@manngildi.is


Hugleiðingar Lindu: Speki Bangsimons

BangsimonBangsimon og hans vinir eru ótrúleg uppspretta visku. Visku sem er samt svo afar einföld í sjálfri sér.

Kærleikurinn streymir fram í einföldum setningum sem þó gefa svo mikið. Hér í lokin fylgir listi af setningum Bangsimon og félaga hans sem ég þýddi af netinu.

Bara ef lífið gæti verið svona einfalt og fallegt eins og í ævintýrunum :)

Og kannski væri það þannig ef við leyfðum okkur að skoða það frá því sjónarhorni. Ef við gætum hugsað okkur að sleppa öllum merkimiðum á fólk og aðstæður lífsins.

Ef allt sem við upplifðum og fengjum til úrlausnar væri liður í að fullmóta hina stóru mynd eilífðarinnar og ef við tryðum því að allt samverkaði okkur hvort sem er til góðs á endanum, held ég að við ættum að geta sleppt merkingunum auðveldlega.

Ef við gætum svo bara óskað öllum góðs í öllum aðstæðum þar að auki, reydnum síðan jafnvel að sjá að allir sem snert hafa líf okkar með góðum eða slæmum hætti höfðu og hafa hlutverki að gegna í að búa til okkar fullkomnu fallegu heildarmynd væri lífið svo miklu léttara og táradalirnir sem við færum í gegnum mun færri.

Yndisleg tilhugsun að ná þessum stað. Ekki vænti ég þess að það sé auðvelt, þekki sjálfa mig að minnsta kosti það vel að ég veit að það er það ekki þannig fyrir mig. En held samt að það sé þess virði að gera tilraun með þetta. 

Brostnar vonir, biturleiki og hatur yrðu líklega á bak og burtu í lífum okkar ef við næðum þessu, jákvæðnin og kærleikurinn streymdi líklega frekar frá okkur í allar áttir og jákvæðnin væri yfirflæðandi með tilheyrandi boðefnaframleiðslu sem gerir öll þunglyndis og kvíðalyf ónauðsynleg.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig heimurinn allur væri öðruvísi ef við gætum litið á lífið í gegnum þessi gleraugu.

Væru styrjaldir og valdagræðgi enn til staðar?  væri ill meðferð enn til staðar á samferðafólki okkar? Væri til hungur, fíknir, fangelsi, gerendur,fórnarlömb?

Leyfum okkur að velta þessu aðeins fyrir okkur...

Mín skoðun er sú að ekkert af þessu væri til.

Ég trúi því hins vegar að það yrði loksins til paradís á jörðu og að allir yrðu sáttir og glaðir eins og í ævintýrunum.

Kannski er þetta barnalegt viðhorf hjá mér og rökhyggjuleysið algjört, en ég trúi því samt af einlægni hjarta míns að þetta gæti verið með þessum hætti, og dæmi mig svo hver sem vill. 

Held að það gerði okkur ekkert annað en gott að taka stundum þessi ævintýri og sakleysið sem þar finnst okkur til fyrirmyndar.

Skoðum aðeins lífsspeki Bangsimons og félaga hans aðeins hér í lokin :)

1. Grislingur: "Hvernig stafar þú ást"? Bangsimon: "Þú stafar hana ekki, þú finnur hana".

2. "Þú ert hugrakkari en þú heldur. Sterkari en þú lítur út fyrir að vera, og gáfaðari en þú heldur".

3."Þau atriði sem gera mig öðruvísi eru þau atriði sem gera mig að mér"

4. "Ef að persónan sem þú ert að tala við virðist ekki vera að hlusta sýndu þá þolinmæði. Það gæti einfaldlega verið að hún væri með kusk í eyranu"

5. "Ef sá dagur kemur einhverntíman að við getum ekki verið saman, haltu mér þá samt í hjarta þínu, og ég mun dvelja þar um eilífð"

6. "Um leið og ég sá þig vissi ég að ég væri að fara að upplifa ævintýri"!

7 "Stundum eru það litlu atriðin sem taka mesta rýmið í hjartanu"

8. "Sumu fólki þykir of vænt um aðra. Ég held að það kallist ást"

9."Árnar vita þetta: Það liggur ekkert á, við náum þangað einn daginn"

10."Ef þú lifir í hundrað ár vil ég lifa í hundrað ár mínus einn dag, svo að ég þurfi aldrei að lifa án þín"

11. "Illgresin eru líka blóm, þegar þú ferð að skoða þau"

12. "Ég held að okkur dreymi svo að við þurfum ekki að vera aðskilin mjög lengi. Ef við erum í draumum hvors annars getum við verið saman öllum stundum"

13. "Þú getur ekki staðið úti í horni í skóginum og beðið eftir því að aðrir nálgist þig. Stundum þarft þú líka að fara til þeirra".

14. Lofaðu mér því að gleyma mér aldrei, því að ef ég héldi að þú gleymdir mér færi ég aldrei í burtu"

15. "Smá tillitsemi, smá umhugsun um aðra, breytir öllu".

16. "Dagur án vinar er eins og pottur sem inniheldur ekki dropa af hunangi"

17. "Ástin kallar á að þú takir nokkur skref til baka, jafnvel mörg. Til að rýma fyrir veg hamingjunnar fyrir þá persónu sem þú elskar"

18. "Dagur sem ég ver með þér er minn uppáhaldsdagur. Þannig að í dag er minn uppáhaldsdagur.

19. "Hversu heppinn er ég að eiga eitthvað sem gerir það svo erfitt að kveðja og segja bless"

Með þessum orðum A.A.Milner segi ég bless í bili, bið ykkur blessunar og glimmerstunda alla daga lífs ykkar. Þakka öllum sem hafa snert við lífi mínu á góðan og slæman hátt, þið eruð dýrmæt í samhengi stóru myndarinnar minnar.

Þar til næst

xoxo

Ykkar Linda

 

 

 


Hugleiðingar Lindu: þekking og viska

viska 1Oft finnst mér við vera á svolitlum villigötum hvað varðar lífið og tilveruna almennt, og gefum stundum of mikið vægi því sem skiptir minna máli en margt annað.

 

Þekking og kunnátta eru á meðal þeirra atriða sem ég tel að hafi fengið of mikið vægi í heiminum á kostnað viskunnar. 

Ekki heyra það sem ég er ekki að segja, þekking er æðisleg í alla staði, rannsóknir eru góðar og nýtar til ýmissa verka, og menntun nauðsynleg. 

En þekkingin. ef við notum hana ekki viskulega getur valdið meiri skaða en gæfu. Þegar þú veist en framkvæmir ekki samkvæmt þekkingu þinni í þinum málum ertu ekki að nýta þér visku þekkingarinnar. 

Rannsóknir eru góðar en geta þó aldrei gefið fulla og heila mynd af neinu nema þeim spurningum sem teknar eru fyrir í þessum tilteknu rannsóknum. Enda sjáum við að það sem var óhollt og eitrað í gær er orðið að súperfæðu í dag, samanber beikonið góða og fleira.

En rannsóknir hafa líka bætt verulega heilbrigðiskerfið okkar og fleiri hliðar lífsins, svo ekki heyra það sem ég er ekki að segja. Þekking er góð, en hún er ekki allt.

Innsæinu okkar og tilfinningum hefur verið gefið of lítið pláss í heimi þekkingarinnar. Það sem við höfum ekki getað sannað með rannsóknum álítum við vera rugl og bull, en mín trú er sú að við eigum bara eftir að finna upp tæki og tól sem geta sannað tilvist þekkingar hjartans og sálarinnar. Trú á Guð. að draumar geti táknað eitthvað og það "að hafa eitthvað á tilfinningunni" er álitið rugl í klikkuðum kerlingum sem hafa ekkert betra við tíma sinn að gera af mörgum, allt of mörgum reyndar, og vísindahyggja okkar blindar sýn á þessa hluti tilverunnar.

Ég reyndar elska vísindin, því að vísindin eru alltaf að færast nær því að sjá það að þekking okkar er í raun í molum, og að það er mjög margt sem við skiljum bara alls ekki. Þau hafa sýnt okkur fram á ótrúlegan alheim sem virðist þenjast út og vera í stöðugri sköpun og þróun, þau hafa sýnt okkur fram á tilvist atóma, frumna og fl.. Þau hafa fundið vírusa og bakteríur, og ekki bara það heldur fundið upp lækningu við mörgum sjúkdómum sem fyrir ekki svo löngu síðan urðu mörgum að aldurtila. Vísindin hafa líka komist að því að trúin flytur fjöll samanber placibo áhrifin alþekktu. 

Vísindin eru í stöðugri spennandi þróun sem vera ber, og munu líklega komast á þann stað að vita að ekki aðeins er líkami, andi og sál tengdur órjúfanlegum böndum heldur erum við öll tengd hvort öðru og Guði sjálfum. Ég las merkilega grein um það hvernig frumbyggjar Ástralíu flytja fréttir á milli sín huglægt og einnig grein sem fjallaði um að núna væru vísindin að uppgötva að hjartað væri líklega stöð tilfinninganna en ekki heilinn, og þriðja greinin talar mikið um orkuna á milli frumnanna sem virðist vera aflið sem stjórnar starseminni..Hvaða afl skildi það nú geta verið ;) Ég horfði á myndband um þekkingu versus visku sem fangaði huga minn, og gaf ég mér leyfi til að þýða það sem þar kom fram.

"Þekking er að safna gögnum og rannsaka upplýsingar, viskunnar er að greina, skilja og nýta sér gögnin.

þekking er að vita hvað hlutirnir eru, en viskunnar að vita þýðingu þeirra.

þekkingin er ein vídd, en viskan margar.

þekkingin er textinn, en viskan er innihald textans.

þekkingin leitar að púslbrotunum, en viskan er sú sem raðar þeim saman.

þekkingin er lærð og er í stöðugri þróun, en viskan er upplifunin og staðfæringin.

þegar þú leitar að þekkingunni spyrðu spurninga eins og "eru þessar upplýsingar gildar?

en viskan segir, "ég vissi þetta allan tímann"

þekking er án tilfinningatengsla, viskan er hinsvegar full af ástríðu og tilfinningum.

þekkingin talar, en viskan hlustar.

þekkingin efast um spurninguna, en viskan um spyrjandann, 

þeir segja að þekking sé vald, en ég segi, viskan er kærleikur

þekking örvar hugann, en viskan hjarta okkar og sál ( tekið og þýtt frá "seeds of wisdom")

Eins og sést á píramídanum hér fyrir neðan eru það gögnin og upplýsingarnar sem koma fyrstar, síðan skilningurinn og að lokum viskan sem nýtir sér þekkinguna til gangs fyrir mannkynið.

Ég vona að þessi ræða mín hvetji okkur öll til að nýta okkur viskuna betur með þekkingunni í framtíðinni, sleppum hrokanum og munum að við höfum aðeins fundið sannleika, en ekki allan sannleikann. Eigum víst langt í land með það að hafa öll púslin í þeirri leit :)

                                         viskupíramídinn

xoxo

Ykkar Linda


Hugleiðingar Lindu: Sköpum okkur líf í gleði og hamingju

hamingjanÉg sá myndband á youtube um daginn sem fjallaði um hamingjuna.

Þar var sagt að hamingjan fælist í hundruðum augnablika sem við þyrftum að njóta og mynda þannig heildarmynd góðs lífs. Það tel ég vera afar mikilvægt, því að lífinu er bara lifað með einni stund í einu, og það er eina stundin sem við eigum. Hvað morgundagurinn ber í skauti sér er einfaldlega ekki vitað, né heldur hvort við eigum hann yfir höfuð.

Þessi lífsmynd sem við byggjum smá saman upp, samanstendur af árangrinum sem við höfum náð í lífinu, samskiptum okkar við aðra, og allri lífsreynslunni sem við berum í bakpokanum okkar.

Það sem mér þótti hinsvegar áhugavert í myndbandinu var nálgunin sem þar var sett fram. Þar var sagt að hamingjan fælist helst í því að lifa góðu, fallegu og innihaldsríku lífi þar sem þrír þættir skipa öndvegið.

Þeir þættir eru, sköpun, samskipti og samhygð.

Mikið er ég sammála þessu, því að þessir þættir ef þeir eru í jafnvægi, gefa okkur virði okkar og gleði.

Sköpunin kemur okkur í blússandi flæði þar sem við gleymum yfirleitt stund og stað, og við dveljum í gleði ímyndarheims okkar. Að búa til gleðistundir með sjálfum sér og öðrum er ómetanlegt, og skilur eftir sig dýrmætar sætar minningar, hlátur og gleði (taktu myndir)

Samskiptin eða sambönd þau sem við eigum við maka, börn, vini og samstarfsfélaga veita okkur fullnægju og næringu ef þau eru góð, en óhamingju ef þau eru slæm.

Eins ef við eigum ekki góð og heilbrigð samskipti við aðra erum við einmanna og ófullnægð, og okkur finnst lífið þá afar snautlegt og lítils virði oft á tíðum.

Svo erum við líka 30 sinnum líklegri til að hlæja í félagsskap með öðrum en ein, og hláturinn lengir víst lífið :) 

Síðast en ekki síst býr hamingjan helst í hjarta sem er fullt af hlýju og umhyggju fyrir sjálfum sér og öðrum, og merkilegt nokk, koma bestu stundir lífsins frá þeirri athöfn að gefa af sér. Og það er svo sannarlega margt sem við getum gefið af okkur. Peninga, tíma, hlustun, umhyggju, kærleika og uppbyggingu svo eitthvað sé nefnt.

En það dýrmætasta sem við getum þó gefið öðrum að mínu mati er að gefa þeim tækifæri á því að uppgötva og finna virði sitt og sérstöðu hér í heimi.

Bjútíið við það að gefa af sér með þessum hætti er að við fáum það svo margfalt til baka í boðefnaflæði sem býr til hamingju, gleði og hækkar sjálfsmat okkar um mörg prósent. Vel þess virði ekki satt? :)

En helsti óvinurinn sem heldur okkur frá þessu öllu er óttinn...

Óttinn við höfnun,óttinn við skort, og óttinn við tap af einhverju tagi. En tökum skrefin inn í óttann okkar, það er mikils virði og er í raun það sem byggir helst upp góða sjálfsmynd. Svo látum óttann ekki halda okkur frá því besta sem lífið hefur að bjóða.

 

Verum bara góð hvert við annað, og finnum hvernig hamingjan fer af stað og streymir um æðar okkar. Byggjum hvert annað upp með fallegum orðum og gjörðum, því að við erum svo nauðsynleg hvert öðru, en gleymum því gjarnan í streitusamfélagi nútímans...

Ást og friður

xoxo

Ykkar Linda

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband