Færsluflokkur: Bloggar

Hugleiðingar Lindu: Örlagasaga

11106465_10206816146148630_1062775390_nLengi hefur mig langað að skrifa sögu ömmu minnar og afa eins og ég þekki hana. Saga þeirra er sérstök og dramatísk ástarsaga, saga sem mér þykir svo falleg.

Falleg vegna þess að hún er ekki þessi einfalda saga þar sem þau hittast, eiga börn og buru og lifa hamingjusöm til æviloka.

Sagan þeirra fékk ekki góðan endi, en líf þeirra saman skilur þó eftir sig stóran ættboga sem ber ást þeirra vitni.

Ung varð amma vinnukona manns sem var miklu eldri en hún. Þetta var algengt í þann tíma og þótti ekkert sérstakt tiltökumál. Ekki leið þó á löngu þar til að hún varð ófrísk eftir hann. Tvö fyrstu börn sín átti hún með þessum manni, dreng og stúlku.

Hann reyndist henni afar góður og var að sögn föður míns mikið gæðablóð.

En svo gripu örlögin inn í og hún hitti afa minn, og ekkert varð eins og fyrr.

Afi var af góðum ættum og dugnaðarforkur mikill, sjómaður að atvinnu. Auk þess þandi hann fiðlu á dansleikjum og hefur þar án efa heillað ófáar konurnar. Hann afi minn þótti glæsimenni og heimsborgari að sjá. Gjarnan glerfínn í jakkafötum og vesti með vasaúr. Heldri maður með montprik og hvað eina. Hávaxinn ,svipsterkur, hláturmildur og karlmenni mikið. Gleðimaður talsverður og óábyrgur um margt.

Honum þótti sopinn góður og þegar hann undir lok ævinnar bjó á elliheimili var fátt sem gerði honum meiri gleði en peli endrum og sinnum. Fluggáfaður var hann eins og hann átti kyn til. Móðir hans sjálfmenntuð tungumálamanneskja en það var fátítt á þessum tímum. Afi sjálfur með frönskuna á takteinum reiprennandi enda túlkaði hann seinna fyrir frönsku sjómennina sem rak til austfjarða.Tungumálið nam hann reyndar af þeim hinum sömu sjómönnunum. Hann afi var félagslyndur og skemmtilegur maður og kallaði mig aldrei neitt annað en, Lindubarnið sitt. Litríkur karakter sem engan undraði að amma hafi fallið fyrir.

11146156_10206816133588316_12349588_nAmma þótti yndisleg kona sem góð var við menn og málleysingja. Hún var hæglát enhörkudugleg og gáfuð góð kona. Hún var heiðarleg, einlæg kona sem átti kærleika handa öllum.Pabbi sagði mér oft frá hennar milda og blíða eðli. Hversu góð hún var bæði honum sjálfum og vinum hans líka. Hún amma mín var sko þekkt fyrir mannkosti sína.

Þá að ástar og örlagasögunni.

Daginn sem þau fundust fyrst kviknaði ást í brjóstum þeirra. Logandi ástarbál sem þau hvorki gátu né vildu slökkva þrátt fyrir vonlausa stöðuna. Hún einstæð kona með tvö börn, og hann sonur hreppstjórans.

Ekkert gat stöðvað tilfinningar þeirra og þau eignuðust algera ást. Þaðan varð þeirra fyrsta barn til. Ég get vel ímyndað mér skelfingu hennar og vanlíðan. Hún sem ekkert aumt mátti sjá og vildi lifa lífinu fallega og rétt. Sú skömm að koma með enn eitt barnið utan hjónabands í veröld fulla af dómhörku hlýtur að hafa verið yfirþyrmandi.

Að þremur árum liðnum fæddist elsku pabbi minn, annar ávöxtur þessa óviðeigandi sambands. Amma var þarna orðin einstæð móðir með fjögur börn utan hjónabands. 

Afa skorti kannski manndóm til að rísa gegn fjölskyldu sinni. Að rugga bátnum var ekki hans tebolli. Hann fékk ekki leyfi til að giftast ástinni sinni, hún þótti ekki nógu fín fyrir heppstjórasoninn. En ástarbálið varð ekki slökkt. Þau elskuðu hvort annað heitt og létu kjaftasögur og önnur óþægindi ekki trufla sig.

Ást þeirra var svo sterk að afi gifti sig aldrei úr því hann fékk ekki ástina sína. Hann elskaði ömmu allt til dauða.

Raunir ömmu voru miklar. Hún fékk ekki manninn sem hún elskaði, ást þeirra var skömm. Ofan á þessa óhamingju missti hún einkadóttur sína. Fallega stúlku með sítt og mikið ljóst hár, allra hugljúfi. Barnaveiki tók hana kornunga og varð það harmdauði þeirra sem henni kynntust. Hún skildi eftir lokk úr hári sínu á koddanum þegar hún skildi við. Sá lokkur var fjársjóður alla tíð.

Sorg ömmu var mikil og sár. Kannski upplifði hún þetta sem gjaldið fyrir leiðina sem lífið hafði valið henni. En harm sinn bar hún ávallt í hljóði.

Þeir sem búa í litlum samfélögum þekkja slúðrið og amma fór ekki varhluta þar.Ég hef sannfrétt það frá þeim sem hana þekktu að enginn gat lagt henni ömmu minni til slæmt orð. Þrátt fyrir að þessi tími fordæmdi aðstæður hennar og barna hennar fóru mannkostir hennar ekki einu sinni framhjá slúðurberunum.

Ömmu kynntist ég því miður ekki en nýt þess að heyra sögur sögur af eðliskostum hennar og gæsku.

Amma lést svo þegar pabbi minn var aðeins fimm ára drenghnokki.

Hún fékk lungnabólgu en á þeim tíma voru engin lyf við lungnabólgu komin til sögunnar Amma var bara þrjátíu og átta ára gömul þegar hún sofnaði. Pabbi sat við sóttarsæng móður sinnar þar til að hún kvaddi hann og sagði honum að fara til systur hennar og bróður og vera þar.

Fimm ára drengur skildi lítið hvað um var að vera. Hann gleymdi þó móður sinni aldrei enda átti hann minningar um hana sem ég veit að honum þótti vænt um. Hann sagði mér af því þegar hann var að sandskúra gólfin fyrir hana, og hvernig hún launaði honum það. Hann deildi minningum sínum um hana með mér. Þau áttu einstaklega fallegan kærleika og ég þykist viss um að söknuður pabba yfirgaf hann og bræður hans aldrei alveg.

Við dauða mömmu sinnar fóru drengirnir hver í sína átt. Albróðir pabba fór yfir í næsta fjörð til ættingja afa og var þar til dauðadags, en hálfbróðir þeirra fór fljótlega til sjós í millilandasiglingar.

Varla hefur það verið afa mínum auðvelt verandi sjómaður að sinna börnunum og þess vegna þurfti hann að treysta á móðursystkini þeirra og frændfólk sitt með umönnun þeirra. Ég veit að það olli afa miklum sársauka hversu lítið hann gat verið með strákunum sínum, og grét hann einu sinni í fangi pabba vegna þess.

Afi varð níræður. Hann var mikill gleðimaður og heimsborgari allt til enda. Og þegar afi fékk sér í tánna talaði hann um ástina í lífi sínu. Enginn vafi er í mínum huga að þau voru hjarta og sál hvors annars. Hún var hans og hann hennar.....

Tungumálakunnátta afa varð svo til þess að Vigdís Finnbogadóttir gerði sér ferð að hitta hann á elliheimilið í þeim erindagjörðum einum að tala við hann frönsku. Þetta þótti fréttnæmt á þeim tíma. Snillingurinn Jónas Árnason samdi lag um afa og vini hans. Þetta lag þekkja trúlega margir. Lagið heitir Riggarobb og ég er talsvert upp með mér af því tilefni.

Ég geri mér grein fyrir að ég þekki bara örfá brot þessarar gullfallegu örlagasögu og ekki alveg öruggt að þau hafi upplifað þann ævintýraljóma yfir lífinu sem afkomandinn hún Linda sér af þeim brotum sem hún þekkir.

Líklega er saga þeirra lituð af sárum tilfinningum, brostnum hjörtum og orðum sem hafa stundum meitt. Og kannski gjörðum sem hafa valdið vanlíðan. Og varla hafa þau sloppið við lægðirnar umfram annað fólk.

En ekkert breytir því að þau völdu að elska hvort annað, "þrátt fyrir" en ekki "vegna". Það er það sem mér finnst svo fallegt og einstakt. 

Ég trúi þvi að í dag séu amma mín og afi sameinuð á öðrum og betri stað. Þar eru drengirnir þeirra líka. Ég vel að hugsa mér að ást þeirra sé enn til staðar, að þau fái að notið þess að elska hvort annað sem aldrei fyrr. Ég sé fyrir mér sameinaða fjölskyldu. Pabba og bræður hans ásamt fallegu hárprúðu systur þeirra. Ég heyri næstum hlátur þeirra og gleði í bland við kærleiksríkar samræður ömmu minnar og afa....

Það sem þessi örlagaríka fjölskyldusaga hefur kennt mér er að standa með sjálfri mér og mínu lífi og hafa ekki áhyggjur af áliti annarra. Hún kennir mér líka að ástin er sterkasta afl undir sólinni.

Þegar ástin kallar þá mun ég fylgja henni, óháð því hverjar afleiðingar það kann að hafa á aðra hluti lífsins sem standa fyrir utan ástina.

Þegar ég sit og skrifa þetta finn ég að ég verð ömmu og afa ævinlega þakklát fyrir þeirra vitnisburð . Vitnisburð um ódauðlega ást og mannlegan breiskleika.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda


Hugleiðingar Lindu: Að hafa vitni að lífi sínu.

11118444_10205704953435632_2020475193_nÍ gær fékk ég þær fréttir að æskuvinkona mín sem er mér afar hjartkær hefði greinst með æxli í nýra. Hún fer undir hnífinn á næstu dögum þar sem nýrað verður fjarlægt.

Mér brá hrikalega,fann bara fyrir doða fyrst, en svo helltist sorgartilfinningin yfir mig og tárin læddust niður kinnarnar.

Lífið minnir okkur svo ótal oft á það hversu hverfult og skammvinnt það er, og þetta var vissulega ein af þeim aðvörunum. 

Ég vona svo sannarlega að Guð verði góður og gefi þessari elskuðu vinkonu minni fullan bata á sínu meini. Að hún geti lifað hamingjusöm til hundrað ára aldurs, og ætla ég svo sannarlega að biðja Hann um bænheyrslu þar. Hún er mér svo dýrmæt þessi vinkona og í raun get ég ekki hugsað lífið án þess að vita af henni í kringum mig.

En þessar fréttir fengu mig til að hugsa um hversu mikils virði það er að hafa vini og ættingja í kringum sig sem eru vitni að lífi manns. 

Ég og vinkona mín höfum gengið í gegnum lífið saman. Kynntumst þegar við vorum að byrja í skóla, og höfum verið góðar vinkonur síðan.

Brölluðum margt saman þegar við vorum yngri, og eigum óteljandi margar minningar frá misgáfuðum stundum. Vorum í skóla saman, unnum saman í fiskinum öll unglingsárin, hörkuduglegar báðar tvær. Fermdumst saman, hlógum þessi lifandis ósköp í þeirri athöfn og urðum foreldrum okkar líklega til skammar. Fórum saman í útilegurnar í Atlavík, Reykjavíkurferðirnar og vorum saman öllum stundum. Rifumst og töluðumst ekki við í einhverja daga, en alltaf fundum við lausn á þeim málum. Ekki hefur þetta breyst eftir að við fullorðnuðumst, eigum ennþá fallega vináttu sem ekkert fær haggað.

Ég var viðstödd tvær fæðingar hjá henni, var skírnarvottur barna hennar, og fylgdi því miður öðru þessara barna hennar til grafar með henni. Við höfum grátið saman, hlegið saman, setið saman heilu kvöldstundirnar án þess að segja orð, nærveran okkur nægjanleg. Hún veit mín leyndarmál og ég hennar, hún veit oft hvernig mér líður án þess að ég þurfi að segja orð, og ég veit líka ef eitthvað er ekki eins og það á að vera hjá henni. Hún veit hvað mér þykir gott að borða góðan mat og dekrar mig oft þar. Hún veit líka að vöðvabólgan er oft að drepa mig, og hún nuddar háls minn og herðar og þekkir öll mín aumustu svæði án þess að ég þurfi að segja henni hvar þau eru.  

Hún hefur verið vitni að mínu lífi og ég að hennar. Vinátta sem mun aldrei slitna og við erum til staðar fyrir hvor aðra í gleði og sorg.

Sorgin sem ég fann fyrir er einmitt vegna þess að það er svo sárt að vera minntur á að þeir sem við höfum haft sem vitni að lífum okkar og við höfum elskað verða kannski ekki alltaf til staðar til að vitna það. Dauðleiki okkar sjálfra verður einnig svo raunverulegur á þessum stundum. 

Einmannaleiki okkar tíma stafar því miður allt of oft af því að við höfum fáa eða engan til að verða vitni að lífi okkar. Við erum fráskilin og jafnvel margfráskilin, börnin þurfa að skipta sér á milli foreldra, og minna verður um gæðastundir þar. Jafnvel á mínum virðulega aldri eru barnabörnin einnig lítið í kringum okkur vegna skilnaða foreldra þeirra, eða tímaleysis og anna nútímans. 

Þannig að vitnin að lífi okkar eru fá, speglunin lítil sem engin hjá mörgum. Ég held að það sé það sem gerir lífið vonlausara og gleðisnauðara hjá svo allt of mörgum í dag. 

Það væri yndislegt að sjá breytingu á þessu, að við færum að gefa okkur tíma til að verða vitni að stórum sem litlum stundum í lífum hvers annars. Að gleðjast saman, gráta saman, vera saman og vefja þannig kaðal minninga sem verður svo dýrmætur að ekkert fær hann rofið, ekki einu sinni dauðleikinn sjálfur.

Ég þakka þessari vinkonu minni og öllum þeim öðrum sem ég hef haft sem vitni að lífi mínu fyrir að vefja kaðal minninga með mér, það er dýrmætara en allt annað. Kærleikur ykkar er það sem gefur lífi mínu gildi sitt.

Njótið samverustunda við þá sem þið elskið elskurnar og vefjið sterkan kaðal á meðan dagur er.

Þar til næst elskurnar,

Ykkar Linda 


Hugleiðingar Lindu: Sunnudagspæling

IMG_0067Ég sit hér uppi í rúmi og við hlið mér er eitt af mínum yndum, Teddinn minn.

Eitt af þremur barnabörnum sem Guð gaf mér og ég elska hvert og eitt þeirra af öllu hjarta mínu. Kraftaverk eru þau hvert og eitt. Dýrmæt og einstök.

En þar sem ömmustrákurinn minn liggur við hlið mér verður mér hugsað til þess hversu breyttir tímarnir eru í dag. Fjölskylduböndin eru á undanhaldi og lítill tími er til að sinna því sem kannski skiptir mestu máli þegar allt kemur til alls. Ég finn hvernig tárin ætla að brjótast fram þegar ég hugsa um hverju við erum að missa af.

Ömmur og afar dagsins í dag eru oft svo hrikalega upptekin við vinnu, félagslíf og fleira,(þar er ég engin undantekning)  að lítill afgangstími er fyrir fjölskylduna. Börnin oftast farin að heiman, vinahópurinn mikilvægur hjá þeim sem engan maka eiga amk, og helmingi erfiðara er að sjá sér fyrir nauðþurftum en oft áður.

Fjölskylduböndin hafa víða veikst. Minna er um gæðastundir.

Ekki eru foreldrarnir í betri málum en ömmur og afar þessa lands hvað þetta varðar. Þeir eru á fullu alla daga, koma dauðþreyttir hein eftir vinnu og eða nám. Lítill tími til heimsókna, kaffiboða, matarboða, spilakvölda og svo fr. 

 

Afleiðingin af þessum önnum öllum er sú að það er oftast sest fyrir framan sjónvarpið, tölvuna og eða símana þegar heim er komið. Dottið inn í heim óraunveruleikans, doðans.

En það er svo ótal margt sem við glötum þegar við gleymum að sinna hvert öðru, og það getum við ekki fengið til baka. Þetta lífsmunstur mun ekki veita okkar hamingju þegar til lengri tíma er litið. Miklu frekar að við fyllumst sorg yfir glötuðu tækifærunum til að búa til fallegar og góðar minningar.

Í dag eru mjög margir einmanna, afskiptir og jafnvel svo afskiptir að það uppgötvast ekki fyrr en eftir einhvern tíma ef þeir deyja Drottni sínum.

Sorglegt...

En getum við breytt þessu? Já, að mínu mati er það auðvelt ef við bara viljum hafa það auðvelt. Finnum gömlu göturnar, hendum ekki því gamla og góða fyrir það sem minna máli skiptir.

Í stað þess að kveikja á sjónvarpinu og eða tölvunni þegar við komum heim, tölum þá saman. Spilum, föndrum, eldum saman, hringjum í ættingja okkar eða vini.

Sýnum þeim sem okkur þykir vænt um athygli og umhyggju. Lærum að þekkja hvert annað.

Eigum gæðastundir sem gefa lífinu gleði, samskipti sem sýna að okkur þyki vænt um hvert annað. Og síðast en ekki síst, hlustum á væntingar, vonir og drauma þeirra sem í kærleikshring okkar eru.

Elskum, önnumst, hlustum.

Eigið góðan og fallegan sunnudag í faðmi þeirra sem ykkur þykir vænt um elskurnar.

Þar til næst.

xoxo

Ykkar Linda

 


Hugleiðingar Lindu: Er öllu lokið eftir 45 ára aldurinn?

konur yfir 50Ég las nú nýverið grein hér á mbl um rannsókn sem gerð var um atvinnumöguleika þeirra sem voru komnir yfir fertugt að mig minnir.

Út úr þeirri rannsókn kom að konur ættu helst að sækja um bætur eftir fjörutíu og fimm ára aldurinn, þar sem þær væru ekki teknar gildar á vinnumarkaðnum. Karlarnir áttu víst aðeins meiri möguleika þar, eða til 55 ára aldurs!

En ég hef ekki nokkra trú á því að við hér á landi séum á sama stað með þetta og nágrannar okkar í UK. (skýrsla þessi var gerð á veg­um eft­ir­launa -og vinnu­mála­deild­ar breska rík­is­ins)

Í skýrslunni kom fram að fjölmiðlar eiga stóran þátt í því að búa til þetta aldurseinelti, og það þykir mér afar leitt að heyra. Ef einhverjir þurfa á fullþroskuðum viskufullum einstaklingum að halda, þá eru það einmitt fjölmiðlar á þessum síðustu og bestu/verstu tímum.  

Ég bara fann hvernig ég gerði uppreisn í huga mér þegar ég las þessa grein, og réttlát reiðin (að mér fannst) tók öll völd.yell

Síðan kom hugsunin, "ekki nema von að allt sé á heljarþröm í heiminum"!

Því að það er fyrst á þessu aldursskeiði sem bæði kynin eru komin með ákveðinn þroska. Þroska og ákveðna þekkingu á hinum ýmsu mannlegu þáttum sem gagnast vel þegar stórar og merkilegar ákvarðanir eru teknar.

Hvatvísi sú og það netta kæruleysi sem einkenndi okkur flest fram að fertugu er á hröðu undanhaldi, og við hefur nú tekið yfirveguð ábyrgðarkennd í flestum tilfellum. 

Eins er fólk yfir fjörutíu og fimm , að ég tali nú ekki yfir fimmtugu, yfirleitt bestu starfskraftarnir. 

Þeir fimmtugu mæta oftast mjög vel til vinnu, börnin ekki fyrirstaða, enda flest farin að heiman. Og svo eru þeir yfirleitt á besta hugsanlega sköpunartímabili lífs síns.

Ég tala nú bara fyrir sjálfa mig þegar ég segi að það var ekki fyrr en eftir að ég varð fimmtug sem ég fór að blómstra.

Hef gert meira á þessum tæpum fimm árum sem síðan hafa liðið en öll fimmtíu árin þar á undan.

Ég veit hver ég er í dag, hvert ég stefni, hvað ég vill í lífinu og veit að lífið er ekki svona alvarlegt eins og ég hélt að það væri. Er nákvæmlega sama hvað fólki finnst um minn lífsstíl, er nokk sama um fræga fólkið, en er forvitin um allt og ekkert sem viðkemur lífinu sjálfu, sköpuninni og dauðanum.

Kynni mér vel málavexti áður en ég felli dóma þegar kjaftsögurnar koma inn á borð til mín (og finnst ég bara mjög sjaldan þurfa að fella dóma, á nóg með mig og mitt líf) Veit að við erum öll hér á okkar eigin ferðalagi og ekkert ferðalag er eins.

Vona svo að þessi heimur verði kannski örlítið betri vegna veru minnar hér, þ.e. ef ég vanda mig vel.innocent

Geri mér samt á sama tíma vel grein fyrir því að ég er bara manneskja sem á eftir að gera helling af misgáfuðum vitleysum. Næ reyndar líklega aldrei að verða fullkomin þrátt fyrir mikinn og einbeittan vilja til þess.

Ég geri mér grein fyrir því að það mikilvægasta í lífinu er að við séum samstíga sem mannkyn á ferðalaginu. Geri mér líka grein fyrir því að við ættum að vinna saman í heilbrigði, kærleika, virðingu, umburðalyndi og góðum samskiptum. Og að við ættum að gera okkar besta hverju sinni svo að enginn skaðist af veru okkar hér.

Og við þurfum að skilja að það sem við gerum okkar minnsta bróður erum við að gera okkur sjálfum.

Erfið ganga, en þó svo létt ef við bara beitum visku okkar inn í aðstæður.

En það er nú þannig með viskuna að hún kemur í allt of fáum tilfellum af miklum krafti fyrr en eftir fertugt, því að viskan er ekkert annað en samansafn af lexíum þeim sem við getum einungis fengið í gegnum reynslu og hita lífsins (kolamolinn verður ekki að demanti nema vegna mikils þrýstings í langan tíma).

Og ég neita að trúa því að atvinnurekendur Íslands séu á sama stað og nágrannar okkar í Bretlandi hvað varðar ráðningu, eða ekki ráðningu á þessu flotta viskumikla fólki. Er alveg viss um að þeir gera sér grein fyrir því að við sem erum komin yfir hálfa öld í aldri, erum yfirleitt viskumiklir topp starfskraftar sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Og í raun ef eitthvað er, bara eins og gott rauðvín...verðum bara betri með hverju reynsluárinu sem líður.

Usss...45 hvað...Lífið er rétt að byrja hér!

 

Ég ætla bara rétt að vona að ég sé rétt að byrja starfsferilinn minn amk og verði ekki fyrir aldurseinelti því sem viðgengst í Bretlandi!

Stefni bara áfram á að verða komin á toppinn með alla mína starfstengdu drauma uppfyllta þegar eftirlaunaaldurinn skellur á. (eftir svona ca 20 ár) smile

Þannig að ef þú atvinnurekandi góður vilt fá góðan starskraft, sendu mér þá bara línu. Ég skoða vel öll tilboð sem gætu gefið lífi mínu gleði, spennu og nýja skemmtilega hluti til að kljást við, og get bent þér á nokkra hæfileikaríka starfskrafta á mínum aldri sem að þú yrðir ekki svikinn af að fá til liðs við þitt fyrirtæki wink 

    

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda 


Hugleiðingar Lindu: Gallar okkar og kostir

Að undanförnu hef ég verið að skoða þá lesti sem mest áberandi eru í fari okkar viskamannanna og eins dyggðirnar sem prýða okkur, og eru svo miklu skemmtilegra umfjöllunarefni.

Mér sýnist á öllu að það sé margt sem ég, og líklega við flest eigum eftir að sniðla af okkur. En það þurfum við líklega að gera til að ná fullkomnum friði og sátt við okkur sjálf.

Það er stundum talað um hinar "sjö dauðasyndir" sem Marteinn Lúther taldi vera birtingmyndir lasta okkar, en þær eru að hans mati, hroki, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúðlífi.

En á móti voru "höfðudyggðir mannsins" einnig sjö talsins eða viska, hófstilling, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleikur.

Til gamans má geta að árið 2000 gerði Gallup könnun á því hvað Íslendingum þyki vænst um í eigin fari og annarra. Í Tímariti Máls og menningar (2. tbl. 2000) eru niðurstöður hennar túlkaðar svo að nýju íslensku höfuðdyggðirnar séu: Hreinskilni, dugnaður, heilsa, heiðarleiki, jákvæðni, traust, fjölskyldu- og vináttubönd.

Þegar við sjáum upptalninguna á þessum göllum og kostum, sýnist mér að þeir lestir sem taldir eru upp séu þeir sem varna okkur helst frá góðu og gjöfulu lífi.

Hrokafull manneskja á mjög erfitt í samskiptum og getur í raun aldrei byggt upp falleg samskipti í kringum sig vegna þess að skoðanir og gildi annarra skipta hrokann litlu máli.

Öfundin á erfitt með að samgleðjast velgengni annarra, og étur okkur smá saman upp með gremjunni og reiðinni sem fylgir henni. Það eyðileggur síðan að við getum átt heilbrigð og gjöful samskipti við þá sem við öfundumst útí.

Reiðin étur okkur líka upp, og hatursfull manneskja á hvorki til frið við sjálfa sig né samferðamenn sína, og finnur seint leið fyrirgefningarinnar sem nauðsynleg er til að eiga frið í sálinni.

Letin er afar eyðileggjandi afl og gerir það líklega að verkum að lífsins veraldlegu gæði öðlumst við ekki. En það versta við letina er að við fáum sjaldan að finna fyrir sigurtilfinningunni sem fylgir dugnaðinum og því að sigra áskoranir lífsins. Tap á sjálfsmynd fylgir oft, ásamt sjúkdómum eins og kvíða og þunglyndi.

Ágirndin í fjármuni hefur oft gert menn að öpumn eins og máltækið segir, og ég vil bæta við að hún hefur margsinnis eyðilagt fjölskyldur, samskipti og sálarfrið þess sem haldinn er ágirnd  þessari og öðrum ágirndum.

Öll vitum við hvað ofátið hefur í för með sér, og við pössum bara einfaldlega ekki í kjólinn fyrir jólin :) En alvarlegri birtingamynd ofátsins er léleg heilsa og ótímabær dauði.

Munúðarlífið getur svo víst kostað okkur ýmislegt, og margir hafa þurft að leita sér lækninga og leiða til að koma sér út úr þeim vítahringjum sem fylgt geta líferni af þessu tagi. Það er oft erfitt að rata hinn gullna meðalveg og því ættum við að vera vakandi fyrir því að láta ekkert ná tökum á okkur sem eyðilagt getur gleði og hamingju lífsins.

En tölum núna um kostina, það er svo miklu skemmtilegra...

 

Viska er orð sem er í algjöru uppáhaldi hjá mér og fátt veit ég skemmtilegra en að leita hennar hvar sem hana er að finna.

Viskan í sinni fegurstu mynd gerir lífið betra, fordómalausara, kærleiksríkara, fyrirgefandi, uppbyggjandi og samhygðarfullt.

Og í raun má segja að allar þær dyggðir sem taldar voru upp hjá Lúther rúmist innan viskuhugtaksins.

Án hófstillingar, hugrekkis, réttlætis, vonar, trúar og kærleika er engin viska.

Þegar viskan er við völd í okkur sjálfum og heiminum erum við nægjusöm og þurfum ekki alla þá hluti sem við höldum stundum í einfeldni okkar að geti fyllt tómarúm hjartna okkar.

Við verðum einnig hugrökk í því að vernda okkur sjálf, lífið og aðra. Viljum heilbrigð samskipti (það krefst oft hugrekkis) og viljum aðeins það besta sem lífið hefur uppá að bjóða í heilbrigði og heiðarleika.

Við verðum einnig jafnréttissinnuð og sjáum alla sem jafningja okkar. Viljum sjá aðra njóta sannmælis, velgengni og gleðjumst með öðrum.

Við verðum full af von til lífsins og trúar á það góða í heiminum, og trúum því að ljósið sigri að lokum myrkrið sem umlykur veröldina. 

Og með því að halda í alla þá visku sem við getum aflað, getum við smá saman sigrað lesti okkar. Getum þannig lifað jákvæðu og sigrandi lífi, okkur sjálfum og öðrum til gagns. Þannig gerum við heiminn að örlítið betri íverustað fyrir okkur öll. 

Ég hvet okkur öll til að finna hvaða lesti við þurfum að takast á við í lífi okkar og vinna að því að losa okkur við þá að miklu eða öllu leiti .

Einnig vil ég hvetja okkur til að efla þá kosti sem við eigum til í hjarta okkar og afla okkur síðan visku varðandi gönguna á vegi lífsins.

Og ég lofa því að við munum uppskera betra og gjöfulla líf ef við gerum þetta.

Stefnum öll á að eiga líf sem sýnir bestu útgáfuna af okkur sjálfum, og blómstrum sem aldrei fyrr! 

 

Þar til næst elskurnar

Xoxo

Ykkar Linda

 

---


Hugleiðingar Lindu: Eitruð samskipti

Lífið er allt of dýrmætt til að við bjóðum okkur uppá það að vera í félagsskap við neikvætt og eyðileggjandi fólk. Ég fann á netinu lýsingu á þessum týpum sem við ættum að takmarka eins mikið og við getum umgengni við, og studdist við þá lýsingu að litlu leiti (crosswalk.com).

Það er nauðsynlegt að halda sig frá eftirfarandi einkennum í fari fólks ef við viljum halda geðheilsu okkar í lagi, ég tala nú ekki um í þessari veðráttu sem búin er að vera hér í vetur! :)pistill mynd

Kannski erum við líka pínulítið að sjá okkur sjálf í þessari upptalningu sem ég ætla að setja hér fyrir neðan, og ef svo er...tjaa...er þá ekki kominn tíl að sniðla sig til og líta á björtu hliðar lífsins once again?

En hér koma lýsingar á nokkrum týpum sem við ættum að halda okkur frá ef við mögulega getum það. 

Sá stjórnsami - :Þessi er snillingur í því að stjórna og stýra með takkaýtingum og poti. Hann vill stjórna öllum í kringum sig. Þessi fylgist með þér eins og hrægammur og bíður eftir því að finna hjá þér mistök eða galla. Það fer allt í gegnum smásjá hjá honum, allt niður í smæstu atriði. Hann á erfitt með að sleppa tökunum, þannig að hann þarf að setja þig í sínar helgreipar og neitar að sleppa. Líklega muntu kafna fyrir rest ef þú kemur þér ekki í burtu, því að þessi mun aldrei láta af stjórnun sinni.

Árásarmaðurinn- Þessi er mjög þurfandi karakter og hann tekur það út á þér og veröldinni í kringum sig. Í gegnum eigin reynslu og innra samtal varðandi sársauka fortíðarinnar, hefur hann orðið reiður, grimmur og andstyggilegur við þá sem hann segjist elska mest. Þessi þarf á hjálp að halda frá sérfræðingum. Farðu í burtu úr svona aðstæðum í öllum tilfellum- við eigum ekki að vera í kringum fólk sem meiðir okkur.  

Hinn uppstökki – Þú ert alltaf á nálum í kringum þennan aðila. Þú veist aldrei við hverju er að búast af honum. Þessi brestur í bræði og reiðiköst án fyrirvara og hann er oft mjög pirraður á allt og öllum í kringum sig. Yfirleitt eru falin sálræn vandamál sem takast þarf á við hjá þessum. Hann er gjarn á að kasta hlutum, sparka í hluti eða garga og kalla fólk ljótum nöfnum. Bræðiköst hans geta hrætt aðra, og hann lætur oft eins og tveggja ára börn láta. Algjörlega óásættanleg framkoma.


Sá meinfýsni - Þessi getur verið afar móðgandi og meiðandi í hegðun sinni. Markmið hans er að ná yfirhöndinni,að sigra. Tilgangur hans er alltaf að láta sjálfan sig líta vel út en fórnarlambið líta illa út. Hann hefur líka ákveðin einkenni hins stjórnsama. Hann notar særandi orð, hótar barsmíðum, hann lýgur og notar óttann sem sitt stjórntæki eða vopn. En aðalatriði hans er að ná öðrum undir sig til að upphefja sjálfan sig, og mun gera það sem gera þarf til að ná því takmarki sínu.

Fíkillinn– Þessi er háður fíkniefnum eða neikvæðum lífsmynstrum sem hafa mikil eyðileggjandi áhrif á hann sjálfan og alla þá sem í kringum hann eru. Hann þarfnast hjálpar frá fagaðilum! Hann þarf á fólki að halda inn í líf sitt sem talar sannleikann við hann, og hann þarf aðila sem næra ekki fíkn hans með nokkrum hætti.Mynstur hans er ekki með nokkrum hætti á ábyrgð þinni, eða að þú með einhverjum hætti hafir getað valdið ástandinu. Ef þú ert í samskiptum við einhvern í þessum sporum, hvettu hann þá til að leita sér hjálpar strax!


Sá neikvæði – Þessi hefur sjaldan eitthvað jákvætt að segja um lífið og tilveruna. Hann lítur á allt í gegnum neikvæðnisgleraugun, og er sko ekki í vandræðum með að segja þér afhverju það er þannig. Sólin gæti verið of heit, eða rigningin of mikil. Ríkisstjórnin ómöguleg, og ekki lifandi á þessu landi. Hann sér sjaldan það góða sem hann hefur í lífinu, og þakkar fyrir fátt. Þetta er ávani sem hann hefur vanið sig á, og kvart og kvein, ásamt áhyggjum yfir allt og öllu, er hans samskiptamunstur. Hann gerir sér ekki einu sinni grein fyrir því hvernig hann er að eitra umhverfi sitt með neikvæðninni, og því síður gerir hann sér grein fyrir afleiðingunum á hans eigið líf. Þetta er orkusuguan sem ber að forðast. Því að lífið er þannig að við getum alltaf valið að sjá það góða frekar en það illa, ef við bara leitum eftir því. 


Ásakandinn – Þessi kennir öllum um nema sjálfum sér. Það er allt þér að kenna eða þeim sem eru í umgengni við hann. Ef að dagurinn hans er eyðilagður er það þér að kenna, amk alls ekki honum sjálfum. Ef hann stendur ekki sína plikt, þá er það öðrum að kenna en honum sjálfum. Ef hann mætir of seint, týnir einhverju, fellur á prófi, eða hvað það nú er, þá er það allt öðrum að kenna. Það getur enginn lifað sigrandi lífi í kringum þennan aðila. Hans markmið er að setja þig á lágan stall í sínum eilífa ásökunarleik.


Slúðrarinn – Þessi er alltaf talandi, og venjulega er það um einhvern annan en hann sjálfan. Hann hefur mikla þörf fyrir að vita alla skapaða hluti, og að segja næsta manni frá því sem hann heyrir með krydduðu ívafi. Hann getur verið meiðandi í orðum, og mjög grimmur í hjarta sínu gagnvart tilfinningum annarra. Hann nærist á lygum, ýkjum, og hálfum sannleika. Honum líður best ef hann getur horft á galla náungans, því að með því móti þarf hann ekki að líta á sitt eigið líf og eigin tilfinningaflækjur. 


Sá hrokafulli – Þessi aðili er mjög stoltur, sjálfmiðaður og alltaf - alltaf hefur hann rétt fyrir sér! Hann vill ekki fá á sig stimpil heimskunnar, en er fljótur að setja þann stimpil á aðra. Hann sækir í þá sem eru veikari til að geta litið betur út við hliðina á þeim. Hann er mjög fljótur til að dæma aðra og bjóða uppá skoðun sína á mönnum og málefnum, og er oft ruddalegur við þá sem eru í lægri stöðum en hann sjálfur er í. Hans hlutverk í lífinu er að vera yfir allt og alla hafinn á allan hátt.


Fórnarlambið – Ekki ruglast á aðila sem virkilega hefur orðið fórnarlamb glæps eða erfiðrar lifsreynslu, og þess sem hefur það að lífsstíl að vera fórnarlömb allra aðstæðna. Hann hefur lært hjálparleysi að takmarki lífs síns. Þessum aðila finnst fólk vera að notfæra sér hann, hann er mjög þurfandi, sífellt að kvarta yfir því að aðrir séu ekki nógu góðir við hann, eða að öllum sé sama um hann. Hann sér sig sem fórnarlamb og ef þú hlustar á hann og sýnir samhygð, gætir þú orðið næsta manneskja sem kom ekki nógu vel fram við hann. Hann finnur alltaf eitthvað eða einhvern til að viðhalda fórnarlambshlutverki sínu. 

En hvað er til ráða?

 

Finndu eitrið í samskiptunum og ef að það er í þér sjálfum, leitaðu þér þá hjálpar við að laga það. Ef það er í öðrum, bentu þá á vandamálið og á möguleikann að kannski þurfi að leita aðstoðar við að leysa það.

En sýndu sjálfum þér og öðrum kærleika í úrvinnslunni. En kærleikurinn getur svo sannarlega stundum ,verið fólginn í því  að fara út úr skaðlegum aðstæðum eða að setja ákveðin mörk í samskiptum.

Og ef þú ert í aðstæðum sem eru skaðlegar, komdu þér alltaf í burtu frá þeim, ekki bíða eftir líkamlega ofbeldinu, því að það gæti orðið þér dýrkeypt!

Munum bara að kærleikurinn á ekki að meiða okkur, og að sterkasti áttaviti okkar í samskiptum er sá að vita, að hjarta okkar segir okkur alltaf satt.

Sársauki er aldrei eðlilegt ástand! 

 

 

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

 


Hugleiðingar Lindu: Eymd

Afríka

Ég heyrði um daginn frásögn og skoðaði myndir af þeirri eymd sem vinir mínir á ferð sinni um Afríku upplifðu. A þessum myndum sá ég fjölskyldur sem voru við hungurmörk, og eins og við vitum eru margir sem deyja úr hungri eða eyðni í þessari heimsálfu dag hvern. Þar þykir það ekki sjálfsagt að eiga heimili og því síður postulínsslegið salerni. Skólpræsin liggja opin, uppfull af bakteríum og allskonar viðbjóði. Munaðarlaus börnin ganga um stelandi, búa á öskuhaugum þorpanna sniffandi lím og bensín til að deyfa vanlíðan sína. Þetta er ekki fögur mynd og afar átakanleg að mínu mati. Sorglegt að við sem eitt mannkyn skulum ekki sjá sóma okkar í því að sjá öllum íbúum jarðarinnar fyrir lágmarksþörfum og aðbúnaði.

Ein myndin vakti þó athygli mína, en hún var tekin var í yfirfullum skóla, en á þeirri mynd sá ég afar glöð börn sem voru uppfull af þakklæti fyrir menntunina sem þau fá þarna, og möguleikana sem menntunin getur fært þeim. (ekki held ég að íslensku börnin sjái skólagöngu sína með sama hætti) Mér þótti afar vænt um að sjá að gleðin finnst enn þarna, þrátt fyrir aðstæðurnar. 

Mér varð nú hálf illt í hjarta mínu eftir að hafa hlustað á þessa Afríkufrásögn. Hugsaði með mér að við mættum skammast okkar rækilega fyrir vanþakklæti okkar hér á Íslandi. Við erum dekruð í drasl af Guði okkar, erum greinilega litlu dekurrófurnar hans með öll þau lífsgæði sem við búum við.

Hér höfum við allt til alls. Hituð húsnæði, skolphreinsistöðvar, mat sem við höfum oft áhyggjur af að losna við af bústnum líkömum okkar frekar en hitt. Hér höfum við fatnað, skóla, spítala, og ekki má gleyma himneska íslenska vatninu sem við höfum ofgnótt af, og svona má lengi telja upp af gæðum landsins okkar. 

En þökkum við fyrir það?

Ekki finnst mér svo vera þegar ég les blöð eða kíki á netmiðla. Þar er sífellt kvartað og kveinað yfir því hvað við höfum það skítt, og öllu fundið eitthvað til foráttu. Ókurteis erum við með ólíkindum, og höldum að við getum sagt hvað sem er í commentakerfum vefsíðna.

En þrátt fyrir öll þessi gæði sem við búum við og allt það frelsi sem við höfum, finnst mér ég merkilegt nokk, sjá sama vonleysis og eymdar augnaráðið skína úr augum okkar dekurrófanna eins og þeirra sem ekkert hafa.

Ég held líka að það sé nú einfaldlega þannig að það eru ekki þessi lífsgæði sem við keppumst alla daga við að kvarta yfir og heimta bót á, sem skipta öllu máli þegar allt kemur til alls.

Það sem skiptir okkur flest máli, hvort sem er í svörtustu Afríku eða á Íslandinu kalda, er að fá að finna fyrir nánd, vináttu, kærleika,nærveru og samþykki hvers annars. Að tengjast og skapa einingu, að lífa í gleði. 

Ef skortur er á þessu eins og allt of algengt er í dag að ég sjái, leiðumst við oft út í það að deyfa okkur með einhverjum hætti til að finna ekki sársaukann, alveg eins og þessi ungi munaðarlausi límsniffandi drengur á myndinni hér fyrir ofan. Þessi mynd sem tekin var af vini mínum á ferð hans í Afríku í fyrra, er ein af mörgum sem sýnir þá eymd sem við honum blasti hvarvetna.

En afhverju er þessi eymd hjá okkur sem höfum allt til alls? afhverju erum við ekki hoppandi glöð alla daga yfir þeim gnægtum sem við höfum umfram marga aðra hér í heimi?

Mín einlæga skoðun er sú að við lifum að mörgu leiti við fyrringu neyslusamfélags sem setti gömul og góð gildi til hliðar fyrir hluti sem eru samt svo miklu minna virði en við héldum. (en þetta eru bara mínar skoðanir og þú mátt alveg vera ósammála þeim, ég ber fulla virðingu fyrir því ;) )

Við hentum í burtu góðum gildum og siðum að mínu mati, siðum eins og þeim að klæða sig upp á sunnudögum. þá kom fjölskyldan í kaffi og bakkelsi og talaði saman, í stað þess að hanga í sitthvoru horninu með síma og tölvur eins og algengt er í dag að sé. Fólk fór líka í heimsóknir án þess að senda þyrfti boðskort, einfaldlega vegna þess að þeim langaði til að hitta vini og fjölskyldu til að spjalla við um allt og ekkert. Við hentum líka gildum eins og þeim að standa saman sem eining í hjónabandi og láta fátt eða ekkert verða til að slíta þá einingu. Núna virðist mér það oft vera þannig að samböndum sé bara ætlað að standa þar til eitthvað betra verður á vegi okkar, og þá má bara henda hinu sem fyrir var.( Ekki heyra það sem ég er ekki að segja, þar sem neysla, ofbeldi eða framhjáhöld er til staðar, er allt annað í gangi en það sem ég er að tala um hér) Við hentum í burtu gildum eins og þeim að ala sjálf upp börnin okkar þegar við fórum fram á menntun og starfsframa fyrir okkur konur, en gleymdum að biðja um að störf okkar sem mæðra væri líka metið að verðleikum og jafnvel til launa. Við hættum að vinna heima og vera stuðningur við börnin okkar að loknum skóladegi þeirra og létum skólakerfið þess í stað sjá um uppeldið. Við gleymdum gildum eins og þeim að virða þá sem eldri eru og leyfa visku þeirra að byggja upp ungviðið. Þar gáfum við efir fjársjóð sem yngri kynslóðirnar þurfa nú að vera án. þessar kynslóðir eru aðskildar í dag að miklu leiti, og þeir eldri koma sífellt minna að uppfræðslu til afkomenda sinna. Ömmur og afar dagsins í dag eru oft of upptekin við að halda lookinu sínu í lagi og hamast í líkamsrækt eftir vinnu í stað þess að taka göngutúra með barnabörnunum. Þetta þurfa þeir eldri líklega að gera svo að þeir séu gjaldgengir í samfélagi æskudýrkunarinnar.

Virðing og kærleikur fyrir samferðamönnum okkar er líka á hröðu undanhaldi, og finnum við konur mjög mikið fyrir því í dag að karlmenn í auknum mæli líta á okkur sem söluvarning en ekki manneskjur með tilfinningar og sál svo eitthvað sé nefnt (og kannski erum við konur ekkert betri). Einelti á vinnustöðum og í skólum er bara vaxandi vandamál þrátt fyrir að reynt sé að sporna við með öllum tiltækum ráðum. Árásir í commentakerfum eða á netinu orðnar mjög svæsnar og meiðandi, og svona get ég haldið áfram að telja til.

Mér sýnist við vera einmanna sem aldrei fyrr, en búum þó í stærra húsnæði en nokkru sinni áður. Við erum frjáls og óháð, en samt svo nándarlaus og einnota. Við erum fjárhagslega sjálfstæð og getum flakkað um heiminn, en höfum oft fáa til að deila með upplifunum okkar, Við náum árangri í viðskiptum, námi eða á öðrum árangurssviðum, en við náum ekki árangri með andlega lífið okkar, fjölskyldur og hjónabönd. Við höfum verðfellt tryggð, einingu fjölskyldunnar, gæðatíma og nándar fyrir gjafir mammons. Fjölskyldumynstrið í dag er orðið of flókið fyrir flesta, og tilfinningalegt öryggi líklega sjaldan verið minna, en stressið, kvíðinn og þunglyndið sjaldnast verið meira.

Þannig að eftir að hafa skoðað muninn á Afríku og Íslandi finnst mér við vera lítið betur sett hér andlega séð en þau í Afríku, Við höfum bara annarskonar vandamál til að glíma við. Við eigum jú mat,vatn og húsaskjól umfram þau, en ekkert endilega neitt meira eða verðmætara í hjarta okkar og tilveru. Gleði okkar er oft minni í öllum auðæfunum og dekrinu en hjá þeim sem litla ástæðu ættu að hafa til að gleðjast yfir lífi sínu og aðstæðum. 

Mikið væri nú gott ef við litum inn á við, skoðuðum hvort við þyrftum ekki að byrja að laga betur til í nærumhverfi okkar. Skoðuðum líka hvort eða hvaða gömlu gildi við ættum að taka upp aftur, þökkuðum svo fyrir lífið og allsnægtirnar sem við höfum hér, og teldum blessanir þær sem við fáum dag hvern. 

Brosum og þökkum :)

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda 

 

 

 

 

 


Hugleiðingar Lindu: 10 ráð sem virka lítið ef þú ætlar bara að lesa þau!

Ég les allstaðar þessa dagana geinar um 7-10 leiðir sem bókstaflega eiga að færa allt og öllum allt sem þeim langar í. Hluti eins og hamingjuna sjálfa í öllu sínu veldi. Velsæld, peninga, ást og bara nefndu það. Og allt eiga þetta að vera svona drive-through lausnir sem taka ekki nokkurn tíma að breyta öllu lífi þínu. Eitthvað sem þú bara pantar eins og hamborgara á Metro...Mjög smart, en því miður virkar bara ekki alveg svona og í raun ekki nema að mikil vinna og hugarbreyting eigi sér stað áður. 

Ég ætla eins og allir hinir að byrja nýja árið á því að skrifa pistil og gefa ykkur nokkur góð ráð, en ég get því miður ekki lofað því að þau virki eins og í ajax auglýsingu þar sem stormsveipur æðir yfir og allt verður stjörnum prýtt og fínt á örskotsstundu, en ég get lofað því hinsvegar að ef þú leggur hart að þér og færð jafnvel hjálp til þess að fara í gegnum þessi atriði og miklu fleiri til, þá veit ég að þú nærð afar góðum árangri og finnur jafnvel stað hamingjunnar innra með þér. Getur einnig látið drauma þá sem þig hefur dreymt um rætast ef þú kemst á þann stað að finnast þú eiga það skilið. Náir kannski líka að fylla tómarúmið sem hefur náð að stækka og stækka með ári hverju og ekkert virðist ná að fylla það. Og hver veit, kannski nærðu einnig með tímanum að komast til fulls að því hver þú ert í raun og veru, og þá ertu orðinn fullkominn. :)

Og hér koma fyrstu 10 ráðin sem ég mæli með að þú byrjir að ástunda.

No 1. Byrjaðu á að breyta hugsun þinni í átt til velgengni og jákvæðni og eyddu öllum öppum sem segja að þú eigir ekki allt gott skilið.

No 2. Farðu að tala eins og það sé nú þegar orðið að veruleika allt það sem þú vilt sjá.

No 3. Neitaðu þér um að skamma þig og tala illa um þig þó að þú gerir "mistök", lærðu af þeim og stattu upp sterkari en nokkru sinni áður.

No 4. Finndu það jákvæða og fallega í fólki í kringum þig.

No 5. Finndu það fallega í lífi þínu, persónu og umhverfi og þakkaðu fyrir það.

No 6. Taktu þér dag öðru hvoru til að þakka fyrir allt sem verður á vegi þínum og þú hefur í lífi þínu nú þegar. Byrjaðu á rúminu, sænginni, koddanum, hlýja húsinu, kalda vatninu og svo framvegis.

No 7. Sæstu við sjálfan þig, líka við líkama þinn!  þakkaðu líffærunum og öllum kerfum hans fyrir starfsemi þá sem heldur þér á lífi. Hjartað sem slær, meltinguna, blóðrásina og svo framvegis.

No 8. Gerðu góðverk á hverjum degi, faðmaðu, brostu, hrósaðu og segðu falleg orð við fólk í kringum þig.

No 9. Hugsaðu vel um heilsuna, fæðið, hreyfinguna, kyrrð hugans og afstressaðu þig.

No 10. Elskaðu sjálfan þig með öllum kostum og göllum þínum og ef eitthvað pirrar þig   sérstaklega, upphugsaðu þá leiðir til að breyta því sem pirrar. Og í Guðsbænum lifðu   samkvæmt þínum eigin gildum og skoðunum en ekki annarra!

Það hefur enginn í heimi hér sama fingrafar og þú hefur, þannig að þú ert einstök sköpun og átt bara hreinlega að vera þú og enginn annar. Þín saga er ekki eins og saga nokkurs annars, er það ekki frábært? Sjö milljarðar sagna og engin þeirra eins. Mér finnst það stórkostlegt.

Ég gæti komið með önnur 100 ráð sem gætu gagnast þér á leið þinni og leit að hamingjunni, en ætla að stoppa hér. Og þetta er eins og með önnur æfingaprógrömm, virkar ekki nema farið sé eftir þeim. Ég hvet þig sem þetta lest svo sannarlega til að æfa þetta af fullri alvöru dag hvern og bæta þannig þitt líf og annarra sem í kringum þig eru, því að saman bætum við heiminn.

Eigið hamingjuríkt glimmer og gleðiár elskurnar,

Þar til næst,

Xoxo

Ykkar Linda


Hugleiðingar Lindu: Kærleikurinn

Á þessum tíma ársins finnst mér afar tilheyrandi að skrifa pistil um kærleikann.

Mín trú er sú að kærleikurinn sé það meðal sem læknað geti flest ef ekki allt mannanna böl og alltaf megi auka skammtinn ef sá sem gefinn er virkar ekki. 

En það er ég og mín trú. Trú sem er tilkomin vegna þess að ég hef á minni tiltölulega löngu ævi séð að allt niðurtal virkar þveröfugt á þann sem fyrir verður á meðan að kærleikurinn byggir upp. 

Við erum flest þannig að við vitum vel hverju við þurfum að breyta í okkar eigin lífi og fari, og þurfum sjaldnast einhvern sem segir okkur það. En hinsvegar þurfum við oft á bræðrum okkar og systrum að halda til að komast frá þeim stöðum. 

Og hvað er betra fallið til þess að hjálpa öðrum á fætur og til uppbyggingar en kærleikurinn? Að benda blíðlega á betri leiðir, finna það fallega við persónuna, sjá hjarta hennar og langanir til betra lífs er leiðin að mínu mati. 

Við höfum því miður allt of marga sem tilbúnir eru að sparka í aðra til að hefja sjálfa sig upp á stall, en það segir mér að sú persóna er kannski ekki á svo góðum stað sjálf. Eins og Kristur orðaði það svo flott hér um árið...Hví sérð þú flísina í augum bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu" Erum við ekki oft sek þarna?

Eftir að ég fékk það fallega hlutverk að verða amma, hef ég séð að það er kærleikurinn sem fær barnabörnin mín til að sýna mér virðingu, ást og umhyggju, en ekki umvöndunin og það að segja þeim að þau séu of mikið af einhverju eða ekki nóg á einhvern hátt. Ég bara gef þeim skilyrðislausan kærleika og umhyggju. Þau eru bara æðisleg nákvæmlega eins og þau eru, dýrmæt og einstök.

Mér þætti gaman að vita hvað gæti breyst í heimi okkar ef við gætum séð aðra með þessum augum og notuðum þessa aðferð gagnvart þeim sem við erum samferða hér á jörðu. Hver veit nema það yrði til þess að við kæmumst aftur á stað paradísarinnar sem við afsöluðum okkur hér áður fyrr! 

Mér hefur virst það vera helst þannig að fáfræði okkar og ótti varðandi ýmsa hluti geri það að verkum að við eigum erfitt með að sýna miskunn og kærleika öðrum mönnum. Fáfræði gagnvart því sem við ekki þekkjum og dæmum þar af leiðandi sem illt eða ógnandi við heimsmynd okkar. Sem aftur veldur því að við erum tilbúin til að setja fólk niður og gefum því þar með ekki tækifæri.

Ég þrái að sjá þann dag þar sem við látum þetta allt lönd og leið og gerum okkur bara grein fyrir því að við erum öll hérna saman. Berum öll ábyrgð á því að gera þennan heim að því sem við viljum að hann sé. Og hvað er betra en að slaka aðeins á eigin egói og bara hreinlega elska meðbræður sína og þjóna þeim í kærlieka? slepptum því svona til tilbreytingar að setja merkimiða og skilgreiningar á það hver er nógu góður og eða nægilega fullkominn til að fá kærleika og virðingu okkar. Elskum fólk nákvæmlega eins og það er með öllum sínum göllum og ófullkomleika. Því að við erum öll svo dýrmæt og einstök og falleg innst inni.

Förum nú inn í árið 2015 elskurnar með það að markmiði að bæta heiminn og hreinlega stráum kærleika yfir allt og alla sem verða á vegi okkar, leggjum okkar eigin skilgreiningar á öðrum á hilluna og leggjum þannig okkar af mörkum til að gera þennan heim að þeim stað sem okkur líður öllum vel á...

Langar að enda þennan kærleikspistil minn á hinum yndislegu orðum Postulans um kærleikann.

"Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.

En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum. Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn. Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur."

Þar til næst elskurnar

Kærleikskveðja,

Ykkar

Linda



 


Hugleiðingar Lindu: Blá jól...

Þegar jólin nálgast og gleðistraumur fer um okkur flest, þegar jólaljósin skína sem skærast, greni og epla ilmur liggur í loftinu, tónlistin ómar um stræti og torg. Á aðventunni þegar við söfnumst saman sem fjölskylda, steikjum laufabrauð, bökum smákökur, pökkum inn gjöfum og borðum skötu, þá eru því miður margir einstaklingar sem kvíða þessum árstíma skelfilega mikið

Svo mikið að þeim langar helst til að leggjast í dvala og gleyma því að þessir helgidagar séu framundan. Því að það er nú svo skrýtið að einmitt á þessum gleðiríka tíma finna þeir sem einir eru og þeir sem lítið hafa á milli handanna meira fyrir einmannaleika sínum og fátækt en á öðrum tímum ársins.

Það eitt að horfa á eftirvæntingafulla og glaða einstaklinga í önnum fyrir jólin fyllir hjarta þeirra hryggð. Þetta skilja fáir sem ekki hafa reynt þetta á eigin skinni.

Það er ekki þannig að þeir kunni ekki að gleðjast með þeim sem hafa húsin sín full af gleði og hlátri þessa daga, langt því frá. En það minnir þá óneitanlega á skortinn sem þeir sjálfir búa við...Skort á kærleika eða félagsskap, skort á peningum, og skort á félagsskap.

Einmannaleikinn sem þeir finna fyrir sker þá og grætir. Að vakna einn á aðfangadegi jóla og drekka kaffið sitt einn er fyrir suma afar erfitt. Þeir hugsa til löngu liðinna tíma og  fyllast söknuði eftir þeim tíma þegar hús þeirra voru full af gleði jólanna, tími sem kannski aldrei kemur aftur.

Aðrir sakna maka og eða barna sem farin eru til ríki himinsins.

Einnig eru þeir til sem enga eiga að, sem finna sig eina sem aldrei fyrr á þessum gleðitíma. Og svo eru það þeir sem hafa svo lítið á milli handanna að þeir fyllast ótta og kvíða vegna útgjaldanna sem jólin kalla á. Þeir sjá ekki fram á að geta gefið gjafir, ekki einu sinni börnum sínum, sjá ekki fram á að geta keypt jólafötin á þau eða gert vel við sig í mat og drykk.

Sorglegt að það finnist fólk í þannig stöðu í okkar velferðarríki, en þannig er það þó samt sem áður. 

En hvað er til ráða? 

Hvað geta þessir einstaklingar gert til að gera þessa daga gleðilega þrátt fyrir allt það sem ég taldi upp hér að framan? 

Ég vildi að ég hefði eitthvað kraftaverka svar sem dugað gæti, en það hef ég þó ekki. Mitt helsta ráð er þó að hver og einn leiti í hjarta sér að þeim friði sem þar finnst þrátt fyrir allar aðstæður, geri síðan eitthvað sem gleður það sama hjarta, gefi af sér kærleika í miklu magni, hann kostar ekki neitt en gleður þó marga.Finni síðan það jákvæða sem í lífinu er þrátt fyrir aðstæður, því að alltaf má finna eitthvað pínulítið til að þakka fyrir. Halda síðan fast í vonina um að næstu jól verði betri og full af hamingju og allsnægtum, treysta almættinu síðan fyrir því að gefa styrk og kjark í dalnum. Og að lokum, að sleppa tökum á eymdinni og hleypa frekar gleðinni að yfir því að eiga þó líf sem mörgum er neitað um að eiga, og syngja lífinu glaður lof vegna þess með kórsöngvum á þorláksmessurúnti, hlusta á jólakveðjurnar á Rás 1, klappa sér á öxlina hughreystandi og segja...þetta er bjútífúl líf sem mér var gefið og ég ætla að gleðjast þrátt fyrir að það sé ekki fullkomið, en ekki vegna þess að allt sé eins og best verður á kosið.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband