Færsluflokkur: Bloggar
30.11.2014 | 21:58
Hugleiðingar Lindu: Kynferðisglæpir, hin hliðin...
Við heyrum mjög oft sögur af mönnum ( og örfáum konum) sem hafa áreitt börn kynferðislega og eða misnotað þau.
En hvað með þá sem standa næst þessum mönnum og konum ? Hvernig verður td líf konu sem fær ásakanir um slíkt inn á borð til sín varðandi mann sinn? Hvernig líður börnunum, tengdabörnum, barnabörnum, foreldrum og öðrum nánum ættingjum?
Ég veit að það fylgir mjög mikil skömm þeim sem standa að gerandanum. Skömm vegna atburða sem þeir eiga þó enga sök á. Og ofan á skömmina bætist við fyrirlitning samfélagsins og kannski ekki síst þeirra sem ættu að standa þeim næst.
Það vill gleymast að það fólk sem að gerandanum stendur á líka til tilfinningar.
Líf þeirra breytist, skilnaðir verða, fjölskyldan flosnar upp og allir syrgja. Þetta sorgarferli getur tekið langan tíma og oft þarf að vinna varlega úr þessum málum með aðstoð sérfræðinga og jafnvel þeirra sem gengið hafa þessa götu á undan.
En þá komum við að vandamálinu varðandi það... Það eru bara engin samtök til sem styðja við þá sem eru þarna megin borðsins og ég verð að spyrja, afhverju?
Ég veit svosem svarið við þessari spurningu. Þetta er allt of sárt og niðurlægjandi til þess að draga það fram í ljósið, skömmin, niðurlægingin, sársaukinn, brotin á hjartanu, sálinni, lífinu og fleira og fleira verður til að varna því. Þetta er engu að síður fólkið sem oft gleymist í umræðunni. Fólkið sem á sér engan málsvara. Fólkið sem stendur eftir með brotna drauma, fjölskyldan og heimilið farið, stórfjölskyldan hafnar oft þeirra tilfinningum og tilverurétti. Það vill gleymast að makinn, börnin og fjölskyldan öll sem að gerandanum standa eru ekki síðri fórnarlömb þessa glæps.
Ég veit að ég er stödd á sprengjusvæði, því að þeir sem verða fórnarlömb kynferðisglæpa eru ekki alltaf til í að horfa á þessa hlið mála, og ég virði þann rétt, en einhver verður að taka upp hanskann fyrir þau fórnarlömb sem enga umfjöllun fá.
Hvað ætli það séu mörg börn sem líða og gjalda fyrir það að foreldri þess er með stimpil kynferðisglæps? Þau eru jafnvel litin hornauga og búist er við því að þau séu eins og foreldrið. Foreldrar sem eru litnir illu auga fyrir það eitt að hafa alið upp þennan óþverra, makinn sem átti að gæta betur barnanna og var giftur þessum aðila og geldur oft ekki síður ef ekki verr fyrir glæpi gerandans en hann sjálfur.
Það kemur verulega við mitt hjarta að fórnarlömbin (fjölskyldan) fái enga hjálp og engan skilning samfélagsins, það er enginn sem veit hvernig það er að vera í þessum sporum fyrr en hann lendir þar sjálfur, og fáir sem spyrja að því hvernig líðan þeirra er.
Það að þurfa að splundra fjölskyldu sem þú hélst að væri bara í góðum málum þar til þessi skyndilega sprenging verður, börn sem þurfa að mæta skólafélögum sem pískra.
Stundum velja fjölskyldurnar að fara í afneitun vegna þess að þetta er allt of sárt til að taka á því. Skiljanlega... Allir draumar framtíðar brotnir, fjölskyldumynstrið farið og fáir sem vilja þekkja þig þar sem þú tengdist gerandanum og ekki síður því sem hann gerði. Áfallastreitan og sorgin sem fylgir er á við það að lenda í stórslysi eða náttúruhamförum, en fáir virðast hugsa um það. Nafn gerandans og mynd birtist jafnvel í blöðum og á óvönduðum síðum sem enga samhygð hafa með þeim sem standa að baki þessum aðilum. Og enginn virðist átta sig á því að líf svo margra var lagt í rúst, ekki bara þess sem fyrir kynferðisglæpnum varð. Það urðu allir sem tengjast gerandanum fórnarlömb þessa glæps.
Yndislegt þætti mér ef að við gætum tekið umræðuna á þennan stað svona einu sinni, dvalið um stund í samhygð og kærleika til þeirra sem fyrir kynferðisglæpnum varð, og eins hinna sem enga málsvara eiga sér, en líða fyrir gjörðir annarra. Ef við gætum séð þó ekki væri nema örlitla stund hversu sárt það er að missa og sakna lífsvegsins sem aðilar þessir fengu ekki að ganga og njóta vegna brota sem meiddu alla aðila. Dáinna drauma um framtíð og fjölskyldueiningu, brostnar vonir um ást, vináttu og samlíf. Líf sem á einni stundu. varð að martröð, erfiðu ákvarðanirnar sem þurfti að taka í kjölfarið og síðast en ekki síst, kvíðinn og þunglyndið sem oft fylgir því að þurfa að byrja lífið frá nýjum grunni án þess þó að hafa ætlað sér það. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, bæði gagnvart þeim sem fyrir kynferðisglæpnum varð, og eins þeirra sem þurftu að gjalda fyrir glæp sem þau frömdu þó ekki og gátu engu um hann ráðið.
Þar til næst elskurnar,
Xoxo
Ykkar Linda
24.11.2014 | 21:31
Hugleiðingar Lindu: Er hamingjuna að finna í klámi og villtu kynlífi?
Ég sit hér og les blöðin á netinu og það er sama hvert ég lít, allstaðar er verið að tala um klám og kynlíf í einni eða annarri mynd. Swing hér ;), berir kroppar þar, 10 aðferðir til að fullnægja hinu kyninu, fjarkynlífstæki og svo fr.
Erum við hætt að kunna að meta kynlífið í sinni fallegu tæru mynd? Erum við orðin svo spennuleitandi að allt þarf að vera yfirdrifið, og kynlífið þarf á nýjum og nýjum stellingum, tækjum og tólum að halda til að geta fullnægt okkur? Þurfum við að horfa á klám til að geta átt gott samlíf með maka okkar eða bólfélaga? Er ekki nóg að horfa bara á þann sem við erum í rúminu með og nota þau tæki sem við fæddumst með okkur til ánægjuauka?
Æi ég veit ekki, ég er líklega bara gamaldags og leiðinleg...
En fyrir mér er kynlíf afleiðing ástar eða hrifningar á öðrum aðila, og leitun að nánd það sem kveikir kynlöngunina. Nánd þeirri sem aðeins fæst með því að tengjast í gegnum kærleikann fyrst og síðan samfarir og forleik þeirra.
En þetta finnst mér almennt aldrei vera í umræðunni, bara tækin, tólin og hvað allt sé í lagi í þessum efnum. Endaþarmsmök orðin algeng með tilheyrandi slæmri bakteríuflóru segja læknar mér. (smart) Við verðum bara töff ef við eigum sem flesta rekkjunauta og fullan kassa af dóti, erum til í makaskipti, threesome, búningaleiki og svo þurfum við að kunna 69 stellinguna uppá 10!
En ég heyri aldrei umræðu um hversu mikilvæg þessi nánu tengsl geta verið ef tilfinning og kærleikur tengist þeim. Heyri heldur ekki um allar beygðu sjálfsmyndirnar, niðurbrjótandi virðingaleysið sem fylgir oft í kjölfarið á tilfinningalausum kynlífsathöfnum, vonbrigðin og sjálfsfyrirdæminginguna sem líka fylgir hjá mörgum...Þetta heyri ég aldrei um, eða mjög sjaldan amk.
En þar sem ég er komin á nægjanlega virðulegan aldur til að segja hreint út það sem mér finnst um allt og ekkert, og er nokk sama hvað öðrum finnst um það sem ég hef að segja, þá leyfi ég mér einfaldlega að segja að við erum á kolröngum götum í dag. Götum sem geta ekki skapað næringu inn í sálina með nokkrum hætti að mínu mati. Ekkert plasttól eða rafmagns rúmtæki getur byggt upp neitt annað en tímabundna fullnægingu líkamans, og klámáhorf byggir upp kynlöngun sem skilar svo fáu öðru en því að kannski þarf alltaf meira og svæsnara klám til að vekja þá spennu sem leitað var að í upphafinu.
En nánd og kærleikur byggja hinsvegar upp falleg tengsl, vináttu, sameiningu, virðingu, traust og einingakeðju sem fátt fær slitið.
Hverju erum við eiginlega að leita að?
Jú ég held að við séum alltaf með einum eða öðrum hætti að leita hamingjunnar eða að jákvæðri reynslu með einum eða öðrum hætti. En ég get lofað því að hamingjan kemur ekki í formi þess að leita sífellt að nýjum stellingum og nýjum rafmagnsdrifnum plasttækjum, heldur með því að tengjast annarri manneskju sálar og líkamsböndum.
En með þessum siðapostula pistli mínum er ég ekki að segja að það sem tveir aðilar koma sér saman um að sé spennandi og ánægjuaukandi í sambandi þeirra sé ekki í lagi, alls ekki. Svo lengi sem tengingin og kærleikurinn er til staðar má ýmislegt gera til að krydda kynlífið. En alltaf þarf það þó að vera gert með samþykki og löngun beggja aðila. Annað er ofbeldi.
En nú ætla ég að láta þessu rausi mínu ljúka með þessum orðum:
Til að eiga frábært kynlíf leyfið ykkur þá að njóta hvors annars, horfið á hvort annað, leitið að hjarta hvors annars og viðkvæmum ertandi stöðum, gerið það sem þið bæði viljið gera og þráið, en passið að það búi ekki til sár sem aldrei geta gróið almennilega.
Ást og friður
Þar til næst
xoxo
ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.11.2014 | 00:56
Hugleiðingar Lindu: Enginn veit hvað átt hefur...
Fyrr en misst hefur...
Þetta sagði við mig kona af gömlu kynslóðinni fyrir margt löngu, og var þá að vísa í að fólk vissi ekki hvað það væri að gera með því að skilja og leysa upp fjölskyldu sína. Hún bætti reyndar við "þú veist hvað þú hefur, en þú veist ekki hvað þú færð"
Ekki fannst mér nú mikið vit í því sem þessi gamla kona sagði á þessum tíma, enda sjálf að skila því eintaki sem ég hafði búið með um langa hríð, og hélt eins og svo margir aðrir sem slíkt gera að leiðin yrði glimmerstráð eftir það. Rómantíkin yrði allsráðandi. Ég fengi ævintýrið á silfurfati eins og það hefði verið "made in Hollywood eða in heaven just for me"!
Fátt vissi ég um lífið, rómantíkina og hvar hamingjuna væri að finna á þessum tíma eins og svo margir aðrir sem þessa leið hafa farið.
Ævintýrin sem áttu að verða hamingju-uppsprettan hjá flestum þeim sem skilja, líkjast því miður oft frekar gömlu ævintýrunum með eldspúandi drekanum, vondu stjúpunni, úlfinum gráðuga og þeim forynjum öllum hvaða nöfnum sem þau kunna að nefnast. Vandræði á vandræði ofan. Rómantíkin oft fljót að hverfa í skylmingum við þessar forynjur allar.
Þessu hef ég ekki aðeins kynnst af eigin raun, heldur einnig séð það oftar en ég hef kært mig um í starfi mínu. (Enda er margra vikna biðlisti hjá hjónabandsráðgjöfum yfirleitt)
Ég sé mikið af sorgmæddu fólki sem reynir að líma saman fjölskyldbrot hvors annars með ærinni fyrirhöfn. Reynt er að raða púslum beggja aðila saman með mismunandi árangri. Vonsvikin börn fylgja oft með í pakkanum og þau eru ekki alltaf jafn hrifin af nýja makanum og mamman eða pabbinn. Ættingjar og vinir eru líka á hliðarlínunni og vita oft ekki hvoru megin þeir eiga að standa. Vinamissirinn sem verður í sumum tilfellum, fjölskyldumissirinn, vandræði með fermingaveislur, giftingar, skírnir og fl. Erfiðleikar af ýmsu tagi jafnvel við þá sem við elskum mest.
Grasið er nefnilega ekki alltaf grænna hinu megin, og oft væri líklega betra að sinna því að vökva blettinn reglulega sín megin. Þannig væri kannski hægt að bíta iðagrænt gras allan ársins hring í óeiginlegri merkingu :).
En við búum á drive through tímum. Tímum sem kalla á að allt sé svo flott og rómantískt, ástríðurnar allsráðandi, allt á að vera til alls. Ameríski draumurinn í öllu sínu veldi. Hamingjan elt út um allt, en ekki þar sem hana er helst að finna, í þakklátu hjarta.
Þessi á hvíta hestinum (karl eða kona) á að vera gallalaus og á að uppfylla allar kröfur um gæði. Eitthvað annað en eintakið sem áður var til staðar. Einnig á þetta nýja eintak að uppfylla allar kröfur um ástríður, völd, gáfur, líkamsbyggingu, kærleika, samskipti, áhugamál og Guð má vita hvað.
En er þetta þannig hjá þeim sem eru að fara í seinni samböndin sín?
Nei ekki hefur mér fundist það vera þannig amk.
Mér hefur sýnst að þeir sem hafa náð að halda sínum samböndum þrátt fyrir alla gallana í þeim, (ekki misskilja mig, ég er ekki að tala um ofbeldi, trúnaðarbrot eða fíknivanda) vera oft á tíðum hamingjusamari en þeir sem eru að púsla saman þeim seinni.
Ég kann að hafa kolrangt fyrir mér þar.
Það sem ég sé reyndar oft er að fyrrverandi makar eru með alls konar leiðindi og setja oft strik í þetta annars rómantíska ævintýri,fjölskyldumeðlimir fyrrverandi og núverandi makans koma inn i myndina með mismunandi skemmtilegum hætti, oft til að skekkja þessa rómó mynd. Eins geta báðir aðilar misst slatta af vinum og kunningjum. Gleymum svo ekki blessuðum börnunum sem engu fá að ráða um það hvort mamma og pabbi verði áfram saman, og eru kannski eðlilega ekki sátt með þessa tilhögun mála.
Erum við tilbúin til að henda frá okkur annars ágætis samböndum (oft eru þau það í grunninn) fyrir þetta erfiði?
Vera kann að sumum finnist þetta afar einföld mynd sem ég dreg hér upp, og jú líklega er hún einfölduð að einhverju leiti, en því miður er það oft þannig að þar sem brotin voru ekki mikil né stór, og hjón samhent að flestu öðru leiti en því að rómantíkin og kynlöngunin var horfin, að aðilinn sem skilnaðinn vildi í upphafinu "dauðsér" eftir þessu öllu saman innan tveggja ára! (rannsóknir virðast staðfesta þetta)
Og ég skal viðurkenna það...ég er ekki hlynnt skilnuðum sem hægt er að komast hjá...skilnuðum sem hægt hefði verið að stýra í hamingjuátt með örfáum breytingum af beggja hálfu. En það er ég, og ég ætlast ekki til að aðrir deili þeirri skoðun með mér.
En ég hverf þó stundum á vit ævintýranna er ég sit með hjónum sem eru að slíta samvistum og hugsa þá með mér, "hvernig ætli þetta hjónaband hefði orðið eftir 5 eða 10 ár ef því hefði verið gefið tækifæri"?
Það skildi þó aldrei vera að það hefði getað orðið "happily ever after" ævintýri...Hver veit...
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2014 | 23:27
Hugleiðingar Lindu: Ég nenni ekki lengur...
Að þóknast öðrum...
Með aldrinum og þroskanum breytumst við, verðum vonandi vitrari, ef ekki hreinlega bara tindrandi af visku og þekkingu á mannlífinu og eðli þess. Fyrir utan það að líklega gerir viskan það að verkum að okkur verður nokk sama hvað öðrum finnst um lífsgönguna okkar og framkvæmdir .
Las góða yfirlýsingu frá ekki ómerkari manneskju en Meryl Streep um daginn. Þar segist hún vera búin að missa þolinmæðina gagnvart ýmsum hlutum.
Þegar ég las þetta, fann ég að ég var afar sammála henni um margt af því sem hún þuldi þarna uppúr sér. Ég var td afar sammála henni um það að í dag langar mig hreinlega afskaplega lítið til að umgangast fólk sem virðist hafa það eitt að markmiði að særa mig eða láta mér líða illa með einum eða öðrum hætti...í dag hef ég afar lítinn áhuga á því að reyna að þóknast þeim hinum sömu, eða að vera að reyna að vekja áhuga þeirra á persónuleika mínum. Gæti ekki staðið meira á sama um álit þeirra og dóma.
Ég hef líka takmarkaðan áhuga á því að vera sífellt að sýna kærleika minn þeim sem ekkert vilja með hann hafa, eða jafnvel stíga á hann. Það meiðir mig bara.
En þeim sem vilja þiggja velvilja minn, kærleika og vináttu gef ég fúslega allt það sem ég hef uppá að bjóða í þeim efnum.
Í dag nenni ég ekki að vera neitt annað en ég sjálf eins og ég er, reyni hvern dag að lifa af heilindum ( tekst það ekki alltaf, en verð betri og betri með hverjum deginum) Nenni ekki að láta stjórna mér, skoðunum mínum, lífsviðhorfum eða öðru. Á mitt líf sjálf.
Hafi einhver út á það að setja, er það bara þannig, og kemur mér í raun lítið við.
Ég á erfitt með að umbera fordómafullt fólk sem sífellt þarf að hafa skoðun á því hvernig aðrir eigi að haga sér eða vera.
Ég einfaldlega elska lífið í öllum þess regnbogans litum, alla sköpun Guðs míns...Finnst lífið eins og það er bara brill.
Vinir eru nauðsynlegir sálinni, og þeir mega vera í öllum litum og af öllum gerðum, en sérlega hollir eru þeir sem styðja við mann á lífsgöngunni með hvatningu, hrósi, kærleika, víðsýni, dómhörkuleysi og umönnun. Þessir vinir eru bráðhollir fyrir allan peninginn. Og þar er ég heppið stelpuskott, því ég hef slatta af svona vinum í kringum mig.
Allt þetta sem ég hef talið hér upp og hugleiddi með sjálfri mér, finnst mér vera hluti af þeirri visku sem ég hef öðlast með árunum. Og þetta er sú viska sem nýtist mér alla daga afar vel á lífsgöngunni.
Þegar okkur er orðið nokk sama um það hvað náunginn hefur um okkur að segja, þá gerast kraftaverkin. Við förum að láta lífið rætast, og sækjumst eftir því sem okkur hefur alltaf dreymt um.
Og hvað getur verið dásamlegra en að eiga líf fullt af gleði, tilgangi, ástríðu og glimmeri?
Xoxo
Þar til næst elskurnar,
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2014 | 17:34
Hugleiðingar Lindu: Fordómar
Fordómar
Um daginn varð ég fyrir fordómum vegna þess að ég er trúaður einstaklingur. Ég er yfirleitt talin afar umburðalynd trúarlega séð, og hef ekki áður lent í þessari aðstöðu. En einu sinni verður víst allt fyrst.
Ég varð afar sár, fannst ég dæmd að ósekju og fannst fáfræði dómarans afar mikil.
Ég upplifði líklega það sama og aðrir hafa upplifað sem tilheyra minnihlutahópum af ýmsu tagi. Vanmátt minn gagnvart fyrirdæmingu sem byggð var á algjöru þekkingaleysi og fyrirfram mynduðum skoðunum þess sem dæmdi.
Sárt og ljótt að verða fyrir sliku.
En þetta atvik fékk mig til að hugleiða baksvið fordóma okkar svona almennt.
Það er vont að fá dóm fyrir að vera sá sem þú ert, að skoðanir þínar séu ekki taldar jafn réttháar annarra, að vera ekki nóg eða of mikið af einhverju fyrir smekk samferðafólksins.
Það er einfaldlega vont þegar samfélagið setur þig í ruslflokk vegna skoðana þinna og trúarafstöðu.
Þetta á enginn að þurfa að upplifa.
Hvað er það sem fer í gang í huga okkar þegar við teljum okkur hafa leyfi til að dæma skoðanir, trú, litarhátt, kynhneigð eða annað? Hvað fær okkur á þann stað að gera lítið úr öðru fólki og niðurlægja það?
Mín niðurstaða er að í langflestum tilfellum er það vanþekking og hræðsla við það sem við þekkjum ekki sem fær okkur til að bregðast við með fordómum. Ramminn okkar óttast allt sem við þekkjum illa og allt sem er ógnun við það þjóðskipulag það sem við þekkjum. Rannsóknir á þessu sviði sýna fram á að fordóma sé frekar að finna hjá einstaklingum hafa lágt sjálfsmat, eru óöruggir með sjálfan sig og eru bitrir og vonsviknir með lífið.
Ég hef fundið það hjá sjálfri mér í einn eða annan tíma að ég á til fordóma (fyrirfram gerða dóma) í mínum hugarfylgsnum, en sem betur fer verða þeir færri og færri með árunum. Ég held að ég hafi lært það á langri leið að öll erum við hér vegna réttar okkar til verunnar hér, og til þess að fá að vera við sjálf.
Við réðum ekki fæðingastað okkar, litarhætti okkar, hvaða fjölskyldu við tilheyrum og svona má lengi telja.
En það sem stendur uppúr hugsunum mínum um þessi mál er einfaldlega það að öll viljum við láta bera virðingu fyrir okkur og okkar skoðunum og gildum.
Við viljum mjög ógjarnan fá á okkur límdar gyðingastjörnur hér og þar vegna þess eins að við pössum ekki inn í trúarkerfi og skoðanir annarra um það hvernig heimurinn á að vera.
Ég hugsa að heimur okkar væri aðeins betri og fallegri ef við gætum lært að elska og umfaðma hvert annað. Leyfðum öðrum að hafa sínar skoðanir án þess að stimpla þá fyrir þær. Slepptum því að dæma endalaust hluti sem við höfum takmarkaðan skilning og þekkingu á.
Pössum okkur á því að falla ekki í þá gryfju fáfræðinnar að dæma án þess að hafa skilning og þekkingu á því sem við erum að dæma. Kynnum okkur málefnin sjálf og fellum síðan dóma okkar útfrá því ef okkur þykir þörf á því.
Það er gott máltækið sem hljómar eitthvað á þennan veg;
ekki dæma án þess að hafa gengið mílu í skóm þess sem þú ert að dæma
Ekkert okkar þekkir sögu annarra til fulls og við vitum ekki hvaðan þeir koma.
Ég hef kynnst því í starfi mínu sem ráðgjafi að afar margir ganga um með skömm í hjarta sínu og sögur sem þeim finnst ekki gott að tala um eða viðurkenna. Sögur sem draga úr sjálfsmati og sjálfstrausti viðkomandi. Við erum öll breisk. bregðumst öðrum, erum eigingjörn, samhygðarlaus og hugum að hag okkar sjálfra umfram annarra á stundum.
Við höfum ólíkar skoðanir sem myndast hafa í gegnum árin útfrá umhverfi okkar og reynslu. Ekkert okkar hefur sömu sögu að segja, þannig að við höfum ekki forsendur til þess að dæma einn né neinn.
Höfum í huga máltækið sem segir að aðgát skuli hafa í nærveru sálar elskurnar, og gerum okkar besta til að byggja aðra upp, finna það sem prýðir þá. Sleppum því að rífa þá niður,
Mín trú er að þannig byggjum við betri heim, heim sem okkur líður öllum vel í...
Þar til næst
Xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2014 | 19:18
Hugleiðingar Lindu: Þannig týnist tíminn
Þegar ég lít til baka á líf mitt finnst mér ég því miður stundum hafa týnt hluta af þeim dýrmæta tíma sem mér var úthlutað hér á þessari jörðu...
En hvernig í ósköpunum fór ég að því að glopra tímanum svona?
Líklega var ég of upptekin af lífsgæðakapphlaupi, skúringum, þvotti, afþurrkun og því að vera eitthvað annað en ég er..
Það fór hellingur af mínum tíma í það að pæla í því hvað aðrir héldu um mig, og það sem ég væri að gera. Hverja ég væri að umgangast, hvort ég væri að borga skuldirnar mínar, ala börnin mín rétt upp, gæfi þeim það sem þau þörfnuðust og svo framvegis...þvílíkt bull...
Ef ég hefði nú bara vitað þá hversu sjálfhverf við erum í eðli okkar og hversu lítið í raun við erum að hugsa um aðra yfirleitt og þess heldur hvað þeir eru að framkvæma...
Eigum víst nóg með okkur og okkar líf í flestum tilfellum...
Það skemmtilega við þetta er líka það, að þeir sem eru að njóta lífsins eru bara ekkert að pæla í því sem ég er að gera..
En þeir sem eiga við erfiðleika og biturleika að stríða í sínum eigin lífum gera það hins vegar...
Og ég ætti auðvitað bara að senda bæn og blessun til þeirra, og halda síðan áfram að lifa mínu lífi á minn hátt...
En gerði ég þetta þannig?
Nei ég velti mér í mörg ár upp úr því hvað aðrir segðu um mig... en það er breytt í dag...
Mikið óskaplega sé ég samt eftir þeim tíma sem ég týndi á þennan hátt í stað þess að vera að njóta þess að vera hér og nú...að njóta lífsins og allra þeirra gæða sem það býður uppá..
Ég fer eiginlega í rusl við það að hugsa til þess hvernig ég týndi dýrmæta tímanum mínum...
Allt það sem ég hefði getað gert í stað þess að þurrka af dauðum hlutum og skúra parketið, jafnvel mörgum sinnum á dag...
Öll brosin sem ég hefði getað fengið frá börnunum mínum, allir göngutúrarnir og leikirnir sem við hefðum fengið...
Allar stundirnar sem ég hefði getað notað til að horfa upp í himininn, eða sitja í fjörunni og fleyta kellingar. Ég hefði getað eygt að mér ferska íslenska loftið mun oftar.
Skemmtilegu stundirnar sem ég hefði getað átt með vinum í kaffispjalli eða yfir einu rauðvínsstaupi og góðri steik...
Allar bækurnar sem ég hefði getað lesið. og allar rólegu stundirnar þar sem ég hefði getað horfið inn í heim country tónlistarinnar minnar...
Og að hugsa sér allar kærleiksstundirnar sem ég hefði getað átt...úffff...þær eru það dýrmætasta sem tapaðist !
Svona gæti ég haldið endalaust áfram að telja upp hvernig ég týndi tímanum mínum, en þess í stað ætla ég bara að segja TAKK ! Takk fyrir að eiga þó enn tíma sem ég get notað í að búa til gæðastundir og gleði.
Í dag týni ég ekki tímanum mínum, en nýt þess af öllu hjarta að vera hér og hreinlega elska það.
Að vera ég sjálf eins skrýtin og ég get nú verið...Sem er í fínu lagi, ég er nákvæmlega eins og mér var ætlað að vera... :)
Í dag elska ég að eiga gæðastundir með börnunum mínum fullorðnu, og ekki síður barnabörnunum. Borða með góðum vinum, hlæja, skapa eitthvað skemmtilegt, lofa minn Guð og elska hans sköpun. Njóta hennar í botn...Það er lífið og hamingjan fyrir mér.
Ég ætla líka rétt að vona að ég fái margar stundir í viðbót til að njóta veru minnar hér og varðveita þann tíma sem mér er úthlutað. Vona að ég beri gæfu til að týna honum nú ekki í einskisvert hugsanastreð og hlutverkaleiki til að halda öðrum góðum...
Njótið tímans sem þið fáið til úthlutunar elskurnar og passið að týna honum ekki ...
Hann er svo óendanlega dýrmætur, og þar að auki er alls ekki nóg framboð af honum!...
Lifum, njótum og elskum <3
Þar til næst
Xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar