Fegurð reynslunnar

Þegar Japanir gera við sprungur í gömlum leirkerum þá fylla þeir þær með gulli eða silfri þar sem þeir álíta sem svo að reynsla kersins geri það mun fallegra en þegar það var nýtt og ónotað og að það eigi skilið að fá eðalmálma setta í sárin sín.

Þetta finnst mér falleg lýsing á því hversu dýrmæt og falleg reynsla okkar er, og hversu mikils virði hún er í raun,  því að við verðum "fallegri" eftir því sem við vöxum að visku og árum.

Hvað á ég við þegar ég segi fallegri?

jú við verðum fallegri eftir því sem við áttum okkur betur á því hversu mikils virði það er að láta af fordómum okkar, blaðri um náungann en taka þess í stað upp virðinguna sem allir eiga skilið að fá sama hvar í þjóðfélagsstiganum þeir standa, skilninginn á aðstæðum og hverfulleika lífsins, þekkinguna á því að saga okkar og tilgangur er ólík og við þekkjum einnig mannlega breiskleika betur og höfum meiri þolinmæði með þeim. 

Í raun færir reynslan okkur auðmýkt og meiri gleði yfir dásemdum lífsins og því smáa sem skiptir svo óendanlega miklu máli. Einnig færir hún okkur skilning á verðmætum á borð við sjálfsögðum en fallegum orðum til náungans, hvernig eitt bros getur dimmu í dagsljós breitt, góðrar og velviljaðrar framkomu sem stundum skiptir sköpum hvað varðar líf og dauða andlega og líkamlega séð, og einnig færir reynslan okkur vitneskjuna um það hversu stutt lífið er og hversu nauðsynlegt það er að dansa hvern einasta dag í gleði eins og hann væri þinn síðasti.  

Sú reynsla sem við öðlumst á lífsleiðinni getur þó oft verið sár og erfið og á köflum finnst okkur kannski eins og lífið hafi úthlutað okkur rýru gleðihlutskipti, en þegar við lítum yfir farinn veg þá voru það einmitt sprungurnar í lífi okkar sem gerðu persónu okkar að því sem við erum í dag og svo sannarlega eru sprungur okkar fylltar eðalmálmum sem við vonandi notum til að auðga og þjóna inn í líf náunga okkar.

En erum við hér á okkar litla yndislega auðuga landi yfirleitt að meta reynslu og visku? 

Nei því miður finnst mér oft vanta upp á það.

Við erum þjóð æskudýrkunar, forgengilegra hluta og hamingjuleitar, og erum svo afskaplega upptekin af því að allir verði að vera svo unglegir og smart, hlaðnir háskólagráðum og með merkjavöruhúsin drekkhlaðin velmegun á allan máta, en gleymum svo oft andlegu verðmætunum sem þar þurfa að finnast og skipta kannski öllu máli þegar öllu er á botninn hvolft.  

Sem dæmi um hversu lítils við metum reynslu umfram gráður ýmiskonar þá vann ég fyrir mörgum árum með nokkrum klárum strákum sem líklega væru ekki hátt skrifaðir menntalega séð en gátu gert við og hannað nánast allt sem snerti flókinn vélabúnað sem þeir unnu við.

Ég man þegar verkfræðingarnir sem voru að hanna ýmiskonar flókinn vélbúnað þurftu oftar en ekki að fá þekkingu og reynslu lánaða frá einum þessara manna, manni sem ég efast um að hafi nokkurntíman lokið grunnskóla en var nú samt það klár að hann skákaði sprenglærðum verkfræðingu í gerð flókins búnaðar.

Þarna var það reynslan sem var að verki, en líklega var þessi maður ekki hálfdrættingur á við verkfræðingana í launum sem sýnir hversu skakka mynd við höfum oft á þekkingu og mati á henni. Háskólagráður eru góðar en það er einnig almenn þekking og reynsla af lífinu og að mínu viti þurfum við aðeins að fara að víkka út sjóndeildarhring okkar hvað þetta varðar og meta fólk eftir verðleikum þess og reynslu en ekki einungis gráðum, og þurfum að sjá að menntun leynist víðar en í okkar æðri menntastofnunum. 

Ég hef unnið með fólki að árangri og betra lífi í langan tíma og ég segi það satt að líf mitt og reynsla hafa verið bestu tækin mín til aðstoðar þar. Vissulega var aðferðafræðin sem ég lærði mikilvæg og góð sem stuðningur, en ég tel að reynslan mín af lífinu og verkefnum þess sé nú samt það sem gerir mig hæfasta til að vinna með þau verkfæri sem lærdómurinn færði mér.

En nóg um þetta.

Það sem mig langar að koma að svona að lokum er að við ættum að virða þá sem ganga um með gullfylltar sprungur lífsins, hlusta á reynslu þeirra og taka visku þeirra inn í hjarta okkar.

Gömlu göturnar eru stundum ekki síðri en þær nýju, og reynsla kynslóðanna oft vel til þess fallin að nýta þegar nýjar slóðir eru troðnar.

xoxo

Ykkar Linda

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

 

 


Orðum fylgir ábyrgð

Ekkert okkar vill láta tala illa um sig, ljúga upp á sig eða hlusta á fúkyrði sögð um sig hvort sem er í litlum eða stórum hópum, hvað þá í fjölmiðlum ekki satt?

 

Ég var stödd á ráðstefnu um daginn þar sem fjallað var um ábyrgð fjölmiðla og fleira gott og þar heyrði ég m.a.setningu sem mér fannst alveg stórmerkileg. Þessi setning fékk mig til að hugsa um hversu mikla ábyrgð við höfum í samskiptum okkar við hvert annað og ekki síst á samskiptamiðlum.

Setningin sem mér fannst svona stórmerkileg og fékk mig til að rita þennan pistil er tekin úr bók eftir jon Ronson og er svona

 " snjókornið finnur ekki fyrir ábyrgð á snjóflóðinu" 

Mjög merkileg setning að mínu mati og segir svo margt um það hversu grunlaus við erum um skaðsemi orða okkar og kjaftagangs um náunga okkar.

Hugsum við nokkuð almennt út í þetta þegar við tölum um persónur á netinu eða annarstaðar? Eða hugsum við út í sálarlíf þeirra sem fyrir orðum okkar verða, eða særindin sem þeir sjálfir, aðstandendur þeirra og vinir verða fyrir?   

Ég held ekki. Eins og umræðan á netinu er því miður oft í dag get ég bara ekki ályktað það vegna þess að ég veit að við flest viljum vera öllum góð.

Í kommentakerfum og víða eru menn oft hreinlega teknir af lífi með ljótum niðurlægjandi orðum og í raun hýddir opinberlega án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér ef almúginn eða fjölmiðlar hafa ákveðið annað. Og allt of oft er það þannig að þeir fá ekki að verja sig fyrir lygunum og dónaskapnum sem þarna viðgengst, skelfilega ljótt hvernig við mennirnir missum okkur oft á tíðum að mínu mati.

Finnst mér þetta sýna oft skort á dómgreind okkar, fallegu hjartalagi og yfirvegaðum hugsanahætti og því miður erum við svo allt of mörg sek um þetta.   

Hér áður fyrr tíðkuðust opinberar hýðingar sem voru lagðar af vegna þess að þær voru taldar afar skaðlegar sálarlífi þess sem undir slíka refsingu gekkst, og ég svo sannarlega trúi því að þeir sem þurfa að lesa niðrandi hatursfull ummæli og eða lygar um sig á samfélagsmiðlunum án þess að hafa til glæpsamlegra saka unnið, gangi um með vantraust gagnvart mannkyninu og sár sem aldrei gróa almennilega. Þeir sem standa nærri þessum aðilum eiga einnig oft erfitt með kvíða og aðra kvilla vegna þessa, en það hugsum við sjaldan út í á okkar litla landi þar sem allir þekkja alla. 

Ein skaðleg rödd sem fær trúnað almennings getur valdið snjóflóði sem erfitt er að moka sig uppúr, svo höfum það í huga áður en við skrifum í kommentakerfi blaðanna, eða næst þegar við ætlum að tala illa um náunga okkar eða ætla honum eitthvað sem engin sönnun er fyrir.

Ég hef sjálf orðið fyrir því að fá ummæli um mig sem hafa bæði sært mig, valdið mér reiði og öðrum tilfinningum sem mér finnst ekki gott að hafa og get því gert mér grein fyrir þvi hversu erfitt er að takast á við þessi málefni. Sem betur fer er það þó þannig að ég hef frekar þykkan skráp og læt þetta ekki mikið á mig fá oftast nær, en það er ég.

Aðrir verða kannski fyrir mun meiri skakkaföllum en ég þekki og ganga í gegnum hreina aftöku á mannorði og persónu sinni opinberlega án þess að hafa unnið til þess með nokkrum hætti og margir þeirra fá aldrei uppreisn æru sinnar. 

Margir þeirra sem fyrir slíku verða draga sig algjörlega í hlé frá félagslífi og einangrast frá öðru fólki. Depurð, kvíði, vantraust og jafnvel þunglyndi sækja á þá ásamt margri annarri andlegri og félagslegri vanlíðan, og þeir verða einnig oft fyrir vinamissi, skilnuðum, glötuðum atvinnutækifærum og fjárhagslegu öryggi svo fátt eitt sé nefnt. 

Gætum okkar á orðum okkar elskurnar (ég veit að við getum flest gert betur þarna) því að líf og dauði er á tungunnar og takkaborðsins valdi, og flest erum við sek um að hafa ekki vandað okkur nægjanlega þegar að þessum málum kemur.

En við getum alltaf gert betur, og í dag er nýr dagur sem vert er að helga því að finna það góða sem hægt er að segja um og við fólk, hvort sem er í einkalífinu eða á opinberum vettvangi og okkur líður bara svo miklu betur þegar við dveljum á þeim stað í orðræðunni okkar.

Höldum í sjálfsvirðingu okkar, fallegu framkomuna og fordómaleysi okkar - ekki síst núna þegar kosningar eru framundan og skoðanaskiptin hækka blóðþrýsting okkar upp úr öllu valdi.

x- þið

Ykkar

Linda 

 

 


Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Okt. 2017
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 9240

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband