Færsluflokkur: Bloggar

Hvenær er skilnaður skilnaður og hvenær ekki?

Las þessa líka flottu grein á Huffington post um ágæti þess að draga skírar línur þegar kemur að því að skilja við maka sinn og muna þá eftir því að skilnaðurinn er til kominn vegna þess að þið gátuð ekki verið saman en ætlið ykkur að byggja líf með öðrum aðilum og live there happily ever after ekki satt?

Hún Tiffany Beverlin sem grein þessa skrifaði er starfandi ráðgjafi í Bandaríkjunum og hefur víða komið fram í sjónvarpi þar í landi. Þar gefur hún áhorfendum uppskrift að skírum línum og gefur ráð varðandi umgengni við fyrri maka og hvernig þeim ætti að vera háttað eftir skilnað. Hún þykir ákveðin og hörð en ég verð þó að vera sammála henni í flestum aðalatriðum áðurnefndar greinar sem ég las.

Ég ætla að draga fram aðalatriði þessarar greinar hér en læt fylgja með link á greinina í heild sinni hér fyrir neðan.

Það sem hún Tiffany segir er að það þurfi að setja afar sterk mörk á milli aðilanna sem skilja þar sem það séu oft léleg mörk sem valda skilnaðinum (eins og lygar, framhjáhöld og margt fleira) Skír mörk mörk mörk!

Við viljum mörg að okkar fyrrum makar og okkar nýju makar geti orðið rosalega góðir vinir og að við gætum öll hist saman á Sunnudögum í grill með börnunum okkar (þar sem ung börn eru) En við erum fæst bara innréttuð á þann hátt. Flest erum við þannig að við viljum eignast lífið að sem mestu leiti með okkar núverandi maka án þess að fyrrum kærastar og kærustur (makar) séu þar að þvælast fyrir. Það þýðir þó ekki að það sé ekki hægt að bera virðingu fyrir fyrri mökum og umgangast þá við tilhlýðileg tilefni með virðingu og vinsemd sem ætti auðvitað alltaf að vera markmiðið þó ekki sé nema vegna barna ef þau eru til staðar.

Það sem hún Tiffany ráðleggur skilnaðaraðilum að gera til að hægt sé að koma til móts við þetta er að það séu sett afar sterk mörk strax eftir skilnað um umgengni og standa síðan við þau mörk og leyfa ekki að stigið sé yfir þá línu sem strikuð er í sandinn sama hvað. 

Kannski er þetta svolítið hörð nálgun að einhverra mati en eins og Tiffany segir þá verður að muna að þessir aðilar kusu að skilja og það hefur örugglega kostað skildinginn, ásamt því að skrifað var undir pappíra sem sögðu að aðilarnir væru skildir að skiptum og vildu þar með ekki vera partur af lífi hvors annars.

En stundum er það þannig að aðilarnir vilja halda í það sem var gott að hafa í hjónabandinu og halda fast í það, og umgengnin verður nánast eins og hún var fyrir skilnaðinn sem er ekki gott mál þegar búa á til nýtt líf og finna hamingju á nýjum stað.

Oft eru það peningar sem haldið er áfram að sækja í, en það býður uppá að samskiptin verða nánari en þau ættu að vera hjá fólki sem er skilið og eins býður það oft uppá stjórnun og kúgun frá fyrri maka. Það er ástæða fyrir því að barnameðlög eru ákveðin með lögum og eins segja lögin skírt hvaða skyldum foreldrar sem ekki búa með börnum sínum gegna í sambandi við fjárútlát. Það er allra hagur að halda sig sem mest við lagarammann og því fyrr sem aðilarnir verða fjárhagslega sjálfstæðir því betra.

Kynlíf segir Tiffany að sé algjörlega bannað eftir skilnað og telur hún að það sé notað sem kúgunaraðferð og geri það erfiðara fyrir aðilana að halda áfram lífinu og rækta sér nýtt land. Mörk innihalda virðingu og það að þið eruð skilin þýðir að þið hafið ekki rétt á hvort öðru á þennan hátt. 

Að mynda rými eða gefa space. Þetta er stórt og mikið mál á milli þeirra sem eru nýskildir og sérstaklega þegar annar aðilinn býr enn á gamla staðnum. En þó að búið sé á gamla staðnum gefur það hinum aðilanum engan rétt til að droppa við eða koma án fyrirvara eða fara inn án þess að vera boðið þangað sérstaklega. Það er partur af heilbrigðum skilnaði að það sé það gott rými á milli aðilanna að þeim líði eins og þeir séu einstaklingar á ný. Og það er í raun að sögn Tiffany afar sérstakt að fyrrum makinn hafi yfir höfuð áhuga á því að fara á gamla staðinn eftir skilnaðinn. Það sýnir að aðilinn hefur afar léleg mörk og ber ekki virðingu fyrir persónulegu rými einstaklingsins (fyrri maka). Þetta er reyndar afar algengt hjá þeim sem ekki er tilbúinn til að skilja og getur ekki sleppt tökunum eða er reiður, bitur og finnst hann ekki hafa stjórn á þessum atburði og reynir því að stjórna inni í aðstæðunum eins og hægt er. 

Ganga þarf frá öllum eigum sem fyrst og skilnaðarsáttmálinn gerir ágætis grein fyrir því hver á hvað. Þegar þessi sáttmáli er frágenginn er það klárt að hvorugur aðilinn á rétt á neinu frá hvort öðru, þú þarft bara að kaupa þér nýja kaffikönnu og þvottavél ef þú þarft hana.

En hvað með samskiptin?

Jú það þarf að virða allar persónulegar upplýsingar aðilanna og það er afar óheilbrigt að fara í gegnum gögn á netinu eða skoða e-mailin eða yfir höfuð að brjótast inn í aðgang þeirra á netinu eða fylgjast með þeim með einhverjum hætti. Þinn fyrrverandi maki er ekki lengur þinn og þú hefur ekki leyfi til að fylgjast með þeim og þú hefur heldur ekki leyfi til þess að fá hjálp við allt og ekkert.

Ef bíllinn bilar þá ferðu með hann á verkstæði eða ef buxurnar rifna þá ferðu með þær á saumastofu. Þinn fyrrverandi er að reyna að byggja upp nýtt líf og þarf ekkert á símtali að halda frá þér til að kippa þeim á gamla staðinn sinn(inn í hjónabandsmynstrið)

Þínir fyrrverandi makar geta skapað uppþot í þínu nýja lífi og ég tala nú ekki um í nýjum samböndum sem þú ert að rembast við að mynda og gera það stundum ómögulegt að hægt sé að styrkja þau og að gera þau góð. Það er mjög nauðsynlegt að setja sterk mörk á persónulegt rými og samskipti strax svo hægt sé að fara að byggja upp nýtt og gott líf eins og áður hefur verið lögð áhersla á.

Fyrrum maki á að gefa frið inn í uppbyggingu nýja lífinu án aðkomu og stjórnunar með nokkrum hætti. Að setja fyrrum maka föst mörk hvað þetta varðar með kurteisum hætti er nauðsynlegt og svo þarf að standa á þeim mörkum ef á þarf að halda. Ef engar fallegar aðferðir duga þá þarf einfaldlega að hætta öllum samskiptum við fyrrum makann þar til að þeir skilja þessi mörk.

Eftir því sem samskiptin við fyrrum maka eru á nánari nótum og viðhaldast lengur, lengist einungis í bataferli skilnaðarins og eins og áður sagði gerir það nánast ómögulegt fyrir ný sambönd aðilanna að dafna og vaxa.

Allir skilnaðir hafa það að markmiði að aðilarnir vilji finna hamingjuna í framtíðinni á öðrum stað án síns fyrrverandi og því þarf að huga að þessum atriðum sem nefnd hafa verið. Báðir aðilar þurfa að muna að skilnaðurinn er endanlegur hjá aðilum sem náðu ekki að finna og viðhalda hamingjunni hjá hvort öðru og því borgar sig að draga  ákveðna línu í sandinn og halda lífinu áfram í sitt hvoru lagi.

Ég geri mér grein fyrir því að það eru til undantekningar á þessu eins og öllu öðru en ef ekki er samkomulag um umgengni við fyrri maka í nýju sambandi ætti það alltaf að vera nýi makinn sem jú verið er að mynda samband með sem ætti að vera í fyrirrúmi og tillit tekið til hans óska um umgengni við fyrrum makann (samband við börn og vegna barna falla ekki undir þetta ákvæði) svo framarlega sem þær óskir eru innan skynsemismarka og án óvildar í garð fyrrum maka án góðra ástæðna.

Svo enn og aftur er ég að skrifa um mörk í samskiptum og ekki vanþörf á. Línur dagsins í dag hvað þessi málefni varðar eru afar óskýrar fyrir mörgum og allir vilja jú að öll dýrin í skóginum geti verið vinir en það gengur ekki alltaf upp og sérstaklega ekki þegar nýjum aðila líður eins og það séu of margir að stjórna í sambandinu. 

Og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á finna hvaða línur þú vilt setja inn í þitt líf og hvar vantar mörk í þín samskipti.

xoxo

Ykkar Linda 

 

https://www.huffingtonpost.com/entry/setting-boundaries-for-exes-after-divorce_us_58e0664de4b0ca889ba1a6c1


Lækning fyrir líf okkar?

Ég hef verið að hlusta á mann nokkurn að nafni Joe Dispensa

 sem er vísindamaður, kennari, fyrirlesari og rithöfundur og er einn af meðframleiðendum myndarinnar What the BLEEP do we know.  

Dispensa hefur skrifað margar metsölubækur um áhugaverðar leiðir til sjálfshjálpar og þekkingar á starfsemi heila okkar og langar mig að fjalla um nokkrar af þeim upplýsingum sem er að finna í verkum hans.

Það sem mér þótti tildæmis afar áhugavert var að heyra hvað þeir sem næðu bata frá erfiðum sjúkdómum ættu margir sameiginlegt en að hans sögn eru það aðallega fjórir þættir sem virðast vera þar að verki, en þeir eru:

Í fyrsta lagi trúa þeir því að það búi máttur innra með þeim sem vinni með þeim. Að vísu segir Dispenza að það búi innra með okkur öllum æðra kerfi sem stjórnist að öllu leiti án okkar aðkomu og það kerfi haldi okkur á lífi dag hvern. Þetta kerfi sér t.d um að hjarta okkar slái 100 þúsund sinnum á dag og slái líklega u.þ.b 3 billjón sinnum yfir eina mannsævi. Eins sér þetta kerfi um að brjóta niður fæðu okkar, vinna sigur á utanaðkomandi bakteríum og fleira og fleira. Þetta kerfi sér einnig um að framleiða 10 milljónir frumna á hverri mínútu í stað þeirra sem deyja á sama tíma. Ekkert af þessu innra starfi verðum við vör við en getum þó illa neitað tilvist þess. En þetta var semsagt það sem þessir einstaklingar áttu flestir sameiginlegt, að trúa á æðri mátt sem sæi um lækninguna.

Í öðru lagi var það augljóst að hugsanir voru mikilvægt tæki í bataferlinu, því það er þannig að hugsanir hafa afar mikil áhrif á tilfinningar okkar og það eru tilfinningar sem fá heilann til að bregðast við með ákveðnu boðefnaflæði sem viðhalda tilfinningunni sem hugsunin kveikir á. Jákvæðar hugsanir framleiða góð boðefni eða svona happy go lucky boðefni á meðan neikvæðar hugsanir framleiða boðefni sem draga úr gleði okkar og gera okkur þung og kvíðin.

Með tímanum samlagast líkamlega líðan okkar (sem verður til úr hugsunum) og verður heildræn, eða verður okkar daglega líðan og heilinn fer að búa til sínar venjubrautir sem verða síðan að okkar ómeðvitaða hugsana og hegðunarmynstri.

Í mínum huga er þetta svipað og nútíma app, við erum að forrita okkur og stundum þurfum við að henda út gömlum öppum og setja inn ný öpp sem þjóna okkur betur (breyta hugsun).

En semsagt þeir sem veikir voru og fengu bata að sögn Dispenza tóku að hugsa með þeim hætti að fyrst þeir töldu sig hafa skapað þetta ástand með hugsununum einum saman þá gætu þeir líklega breytt hugsunum sínum til hins betra og náð heilsunni þannig til baka.

Það þriðja sem þessir sjúklingar áttu sameiginlegt var að þeir uppgötvuðu að þeir þurftu að breyta sjálfum sér og verða þeir einstaklingar sem þeir fundu í hjarta sér að þeir vildu raunverulega vera. 

Ég tel reyndar að við vitum þetta öll en skortir oft kjark og þor til að vera við sjálf og eins hræðumst við stundum tilfinninguna að líða vel.

En til þess að auðvelda sér þessa breytingu sem þessir tilteknu sjúklingar voru að fást við þurftu þeir að spyrja sig spurninga á við,

Hvernig liði mér ef ég væri hamingjusöm manneskja?

Hvern þekki ég sem er hamingjusamur? Hvernig veit ég að hann er hamingjusamur?

Hverju þarf ég að breyta í persónuleika mínum til að ná því að verða hamingjusamur?

Hvern þekki ég sem hefur yfir þeim heilindum og persónueiginleikum að búa sem ég þrái að öðlast og get lært af? 

Við það að innleiða nýjar hugsanir og breyta sjálfum sér á ýmsan hátt fór heilinn að taka breytingum og gerði það auðveldara fyrir sjúklingana að breyta hugarfari sínu og þeir fóru að skoða aðra möguleika og tækifæri á því að verða að þeim manneskjum sem þeim langaði til að vera og gera. Semsagt það varð til ný opnun á tækifærum og lausnum.

Það fjórða sem sjúklingarnir áttu sameiginlegt var að þau vörðu löngum tíma í hugleiðslu þar sem þau einbeittu sér að því að hugsa um orð eins og þakklæti – fegurð – kærleiki og öðrum jákvæðum setningum og þeir beittu hugrænni sýn á bata sinn.

Fyrir mér er þetta uppskrift að lækningu fyrir öll svið lífs okkar og ég held að við höfum öll gott af því að skoða okkur sjálf stundum og skoða hverju við mættum breyta þar.

Erum við að eiga við tilfinningar eins og óöryggi, öfund, pirring, reiði, hatur eða aðrar tilfinningar sem eru að vinna okkur ógagn og gera okkur óhamingjusöm? Kunnum við að taka á móti því góða og umfaðma það eða er það okkur erfitt?

Ef svo er þá skulum við skoða spurningarnar hér að ofan og sjá hverju við þurfum að breyta og hver við viljum vera og bara fara þangað. Og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þig vantar aðstoð við að finna þetta út.

xoxo 

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is


Að setja mörk fyrir líf sitt

Ég hef lesið hinar ýmsu greinar sem fjalla um mikilvægi þess að setja mörk eða ákveðnar línur í samskiptum til að tryggja virðingu þína og annarra í leiðinni fyrir þér og því hver þú ert. 

Sumum reynist afar auðvelt að setja sjálfum sér og öðrum mörk en svo eru það hinir sem vilja halda friðinn við allt og alla en ganga á sjálfa sig þess í stað og líðan þeirra er oft slæm og þeir búa allt of oft við kvíðaröskun og vanlíðan vegna meðvirkniviðbragða sinna.

Og svona rétt til að minna aðeins á algengar birtingamyndir meðvirkninnar þá eru þær t.d. að það má ekki tala um vandamálin nema þú viljir hætta á það að vera partýpuberinn í fjölskyldunni eða vinahópnum, og þú átt á hættu að fá reiði eða hunsun frá þeim sem staðið getur yfir í mislangan tíma. Eins er ekki smart að tala um tilfinningar sínar, þær á að loka á og ekki sýna né tala opinskátt um. Samskipti eiga að vera óbein og gjarnan að fara fram í gegnum þriðja aðila. Best er að vera óaðfinnanlegur út í frá og hafa alltaf rétt fyrir sér, því að allt annað ber vott um veikleika. Ekki vera heldur of upptekinn af þér, sjálfselska er nefnilega leiðinleg og því hrósum við helst ekki, og við viljum ekki heldur að aðrir tali um kosti sína og afrek. Eins er afar algengt að það eigi að gera eins og ég segi, en alls ekki eins og ég geri, og við ruggum ekki bátnum undir neinum kringumstæðum því að allt þarf að lúkka svo vel út í frá.

En aftur að þeim mörkum sem við setjum fyrir líf okkar og hver eðlileg mörk samskipta eru samkvæmt skilgreiningu Johnson State Collage í Vermount. Samkvæmt þeirra skilgreiningu eru mörk tilfinningalegt og líkamlegt bil á milli þess hvar þú sem persóna endar og annar byrjar og öfugt. Þetta er lína sem við setjum og leyfum engum að fara yfir vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem gætu myndast við að stigið sé yfir hana. Við þurfum nefnilega að fá að vera við sjálf.

Mörk eru semsagt óskrifaðar reglur sem þeir sem eru í samskiptum við okkur þurfa að bera virðingu fyrir, og þeir þurfa að gefa okkur það tilfinningalega og líkamlega bil sem við þurfum án þess að verða fyrir pressu um sveigju frá þeim reglum af þeirra hálfu. Tilfinningalegt, munnlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi eru atriði sem eru skilyrðislaus brot á mörkum einstaklinga og ætti alltaf að taka föstum tökum. 

Heilbrigt tilfinningalegt og líkamlegt bil þarf að vera á milli aðila til að forðast að aðilarnir verði of tengd og háð. Heilbrigð tilfinningaleg og líkamleg nánd er þó nauðsynleg til að mynda sterk tengsl í góðum vina og ástarsamböndum en jafnvægi í samskiptum þarf að ríkja á milli aðilanna.

Skýr heilbrigð mörk gefa okkur frelsi til að vera við sjálf án þess að hömlur séu lagðar á okkur varðandi hugsanir okkar, tilfinningar, framkvæmdir og fleira. Heilbrigð mörk eru það sem gefa okkur og öðrum öryggi og vitneskju um hver við erum og eins skylda þau okkur til að hugsa vel um okkur og vernda.

Mörk gefa okkur leyfi til að vera meira af því sem við viljum vera en minna af því sem við viljum ekki vera.

Ef mörkin eiga að virka þá þurfa þau að vera sönn og rétt fyrir okkur fyrst og fremst og við þurfum að standa á þeim.

Það sem við græðum á því að setja mörk er fyrst og fremst að við stuðlum að eigin heilbrigði og þeirra sem í kringum okkur eru. Frelsi frá vondri hegðun annarra, ótta og sársauka.

Eins ber fólk virðingu fyrir þeim sem setja mörk fyrir líf sitt og okkar eigið virði eykst þegar við stöndum með okkur og þeim mörkum sem við setjum.

Þar sem mörk eru hinsvegar ekki virt má gjarnan sjá að allir verða að vera eins, enginn má skera sig úr og allir gera allt á sama hátt. Ekkert rými er fyrir sjálfstæðar hugsanir og tilfinningar og þær gjarnan litnar hornauga.

Þær aðstæður sem algengar eru að setja þurfi sterk mörk við eru þar sem reiðiviðbrögð eru algeng nálgun í stað umræðna, eða þar sem óviðeigandi orð eru notuð og þar sem gagnrýni á okkur sem persónur eða lítillækkun á annan hátt er notuð. þar sem það er talið sjálfsagt að ekki sé sagt nei í hinum ýmsu aðstæðum þarf að læra að segja nei - og standa síðan við það. Eins þarf stundum að setja mörk í sambandi við peningamál eða umönnun af ýmsu tagi og það eiga þeir sem meðvirkir eru oft afar erfitt með.  

Og ef við erum ekki alveg með þetta allt á hreinu og þurfum að læra að setja okkur sjálfum eða öðrum mörk þá skulum við lofa okkur því að standa við þau mörk sem við lærum að setja hversu erfitt það þó stundum reynist, en munum þegar freistingin til að slaka á þeim er mikil að þessi mörk voru sett til að vernda okkur með einhverjum hætti og aðra stundum í leiðinni. 

Að endingu elskurnar skulum við muna að það sem lítillækkar okkur, lætur okkur líða illa, þar sem við þurfum að læðast og passa okkur á því að halda öðrum en okkur góðum eru ekki góð samskipti, og undir öllum kringumstæðum þurfum við að setja mörk inn í þær aðstæður til að okkur geti liðið vel í eigin skinni.

Og ef þið þurfið aðstoð við að setja mörk inn í aðstæður lífs ykkar þá er ég eins og ætíð aðeins einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is

 


Næring

Um daginn tók ég ákvörðun um að lifa lífinu lifandi alla daga allt til enda minnar veru hér og gera nákvæmlega allt sem hugur minn og hjarta benda mér á að sé skemmtilegt, hollt, kærleiksríkt, gleðilegt og sérstaklega nærandi til anda sálar og líkamlega í jöfnum mæli svo að styrkur minn og jafnvægi næri mig jafnt á gleði sem og sorgartímum.

Það sem varð til þess að ég tók þessa ákvörðun var að ég stóð á nýjum stað í mínu lífi og ég uppgötvaði að ég er með gjörsamlega óskrifaðar blaðsíður í minni lífsins bók sem ég get skrifað hvað sem ég vil á, og þar leynast ókönnuð dýrmæti. Það er nefnilega á þessum nýja stað sem við höfum svo litlu að tapa en allt að vinna, og sköpunargleði okkar getur fundið sér nýjar og ókannaðar brautir og við ruðst fram og sigrað. 

Í raun finnst mér ég bera mikla ábyrgð á því að þessar blaðsíður sem eftir eru í bókinni minni séu skrifaðar í æðruleysi með kærleikann til sjálfrar mín, afkomenda og lífsins alls að vopni, og merkilegt nokk finn ég mig virkilega fullvissa um að með þolinmæðinni og jafnvæginu verði ég leidd veginn til gæfu og að ónotuðu blaðsíðurnar mínar verði fullar af öllu því besta sem finna má í þessum heimi.

Stundum eigum við svolítið erfitt með að skilja lífið og þau verkefni sem það færir okkur, en samþykki okkar á stöðunni hverju sinni er samt eina svarið við því skilningleysi og er það svar sem færir okkur nýjar opnanir.

Ef við samþykkjum ekki lífið eins og það er hverju sinni finnum við eingöngu fyrir togstreitu sem þreytir okkur og dregur úr okkur máttinn, þannig að það að sleppa bara tökunum og leyfa lífinu að hafa sinn gang er það besta sem við getum boðið okkur uppá og við getum treyst því að það verði vel fyrir okkur séð eins og gert hefur verið hingað til (við erum hér vegna þess að það var séð fyrir okkur á leiðinni).

Það er yndislegt að upplifa þetta traust til lífsins sem segir mér að allt muni samverka mér til góðs að lokum, og tilfinning hjarta míns segir mér einnig að lífið sé fyrst og fremst til að njóta þess á allan hátt og með því fólki sem skiptir mig máli.

Og það að eiga stuðningsnet sem umfaðmar með kærleika sínum, tíma, næringu og styrk er líklega dýrmætasta gjöfin sem lífið gefur hverjum manni svo pössum okkur að halda vel utan um það net.

Við erum svo oft að leita að hamingjunni sem fylgir fullkomnuninni og þess vegna er svo erfitt að upplifa hana því að hamingjan er fólgin í því smáa og hversdagslega sem við erum allt of sjaldan að taka eftir.

Ég var þó það heppin að eiga ömmu sem kenndi mér að sjá það smáa í sköpunarverkinu og taka eftir því og með því gaf hún mér ómetanlega gjöf. Myndir í skýjunum gátu orðið að heilu ævintýri og plöntur í náttúrunni urðu að mögulegri lækningu á sjúkdómum mannkynsins og svo framvegis.

Ég bý enn að þessari kennslu ömmu minnar og nýti mér hana óspart. Sat til dæmis um daginn með dóttur minni sem er á fertugsaldri í heita pottinum þar sem við skoðuðum myndir í skýjunum í langan tíma og sáum bjarta og fagra framtíð fyrir okkur út úr þeim táknmyndum sem þar birtust. 

Þessi undur og stórmerki lífsins ættu að fylla okkur hrifningu og spennu alla þá daga sem við fáum hér á jörðu og við ættum að veita þeim verðskuldaða athygli lífi okkar til auðgunar en gleymum því svo oft því miður. 

Við upplifum öll erfiðar stundir, sorg, kvíða, depurð, höfnun og margs konar aðrar óþægilegar tilfinningar á einum eða öðrum tímapunktum í lífinu, en getum þó alltaf valið að njóta gleðinnar sem lífið hefur uppá að bjóða þrátt fyrir þessar aðstæður og við getum valið að dvelja við það sem við höfum frekar en það sem okkur skortir og það gerir okkur svo gott að halda okkur á þeim stað, svo veljum það sem oftast.

Þetta eru þau atriði sem ég vil skrifa á mínar óskrifuðu blaðsíður og líklega á ég eftir að bæta við þau eftir því sem tíminn líður. Og líklega verður minn bucketlisti ótæmandi og á efsta degi á ég örugglega eftir að merkja við eitthvað sem ég hef ekki náð að láta rætast.

Ég vona þó svo sannarlega að það verði ekki atriði á við að huga að þeim sem ég elska mest né að virða ekki og elska þá jörð sem nærir mig og sér mér fyrir heimili á meðan ég dvel hér.

Elskum lífið elskurnar og vöndum okkur vel við að fylla blaðsíður lífsbókar okkar með fallegum, gleðilegum og virðingaverðum atriðum sem skila okkur næringu inn í allar aðstæður lífsins.

Og ef þig vantar aðstoð við að finna hvað þú vilt setja á þær þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

xoxo 

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is

 

 

 


Að njóta þess að vera til

Ég rakst á einn gamlan og góðan pistil sem ég skrifaði og ákvað að það væri bara tími til að draga hann fram því að aldrei er góð vísa of oft kveðin og sérstaklega núna þar sem margar leiðindafréttir hafa komið til mín sem benda mér á að lífið er fallvalt og hverfult. 

Og það er þannig að við höfum öll 24 tíma í sólarhringnum og það væri ósköp gott ef við gæfum okkur sem flestar af þeim stundum til að njóta þess að líða vel. En semsagt, ég hef verið að pæla í því í þó nokkurn tíma hvað gerir mig hamingjusama og hvað þarf til að líf mitt sé fullkomið og fullt af hamingju og mig grunar að við flest séum að spyrja okkur þessarar spurningar með reglulegu millibili.

Skortir mig eitthvað í dag sem gæti gert mig hamingjusamari á morgun, eða þarf ég að gera eitthvað til að verða fullkomlega sátt og ligeglad með lífið?

Svona pælingar held ég að við göngum flest í gegnum, og það er nú svo skrýtið með okkur mannfólkið að það er alveg sama hvað við fáum upp í hendurnar, við þurfum alltaf eitthvað meira og meira til að verða fullkomlega ánægð -sem við verðum svo auðvitað aldrei!

Því hvað er það sem mögulega gæti gert mig hamingjusama? Eru það meiri peningar, velgengni, hjónaband, fleiri vinir, ferðalög, skemmtanir, leikhúsferðir, sjónvarpsþættir eða hvað það er nú sem við erum að keppa eftir að ná í skottið á?

Nei, ég er búin að komast að því að það sem gerir mig hamingjusama er að vera þakklát fyrir það sem ég hef nú þegar, og einbeita mér svo að því að njóta þess í botn! Ég er til dæmis svo blessuð að eiga yndisleg börn sem standa með mér og annast mig þegar á þarf að halda og ég finn að það sem ég hafði nú mestar áhyggjurnar af hér í denn hafa ekki ræst, semsagt þær áhyggjur að mér tækist ekki að gera börnin mín að nýtum góðum þegnum landsins.Í dag er ég afar þakklát fyrir að sjá að mér tókst vel til og að sjá að öll hafa þau fallegt hjartalag og ég nýt þess svo sannarlega að dvelja við þakklæti yfir þessum eðal gullmolum.

En fyrst að ég er nú svo klár að vera búin að opna augu mín fyrir þakklætinu, núinu og mætti þess,hvers vegna í ósköpunum get ég þá ekki dvalið þar öllum stundum?

Er mér alveg nauðsynlegt að detta niður í óhamingjusemi og vanþakklæti á reglulegum basis? Líður mér svona gasalega vel þar?

Aftur verður svarið að vera „nei“ Alls ekki…mér líður ekkert vel með að vera óhamingjusöm og leið yfir öllu því sem mér finnst skorta inn í líf mitt eða það sem mér finnst að ég þurfi að fá svo að ég geti loksins orðið hamingjusöm!

Og ég veit alveg hérna innst inni við hjartaræturnar á meðan ég leyfi mér að dvelja í óhamingjunni, að það er ekkert sem er fyrir utan sjálfa mig sem getur gert mig hamingjusama.

Því þegar öllu er á botninn hvolft þá er það bara ég sem vel allar þessar tilfinningar, hugsanir og viðhorf og þá er sama hvort ég er að tala um þakklætið yfir því sem ég hef, vanþakklætið yfir því sem ég hef ekki, óhamingjuna í allri sinni mynd og hamingjuna í allri sinni mynd.

Kannski er þetta eins með hamingjutilfinninguna eins og með allt annað, kannski við þurfum að hitta vondu tilfinningarnar svona annað slagið á förnum vegi svo að við séum fær um að geta notið þeirra góðu þegar þær ná yfirhöndinni. Hver veit?

Ég veit bara að ég ætla að dvelja eins oft í núinu og mér frekast er unnt, þakka Guði mínum fyrir allt það fallega sem hann færir mér, fólkið sem gefur mér gleði og tilgang, velgengni mína og heilsu og vona svo sannarlega að þú verðir með mér þarna í núinu því þar er best að dvelja.

Þar til næst elskurnar
Xoxo Ykkar Linda


Linda Baldvinsdóttir, Samskipta- og lífsþjálfi sem elskar að hjálpa fólki að ná árangri í lífi og starfi, hjálpa þeim að finna sinn innri styrk og að komast yfir hindranir í lífi sínu. Hægt er að hafa samband upp á tímapantanir og aðra þjónustu á linda@manngildi.is eða í síma 847-8150.


Feimni

Hvernig yfirstígur maður feimni er spurning sem ég hef oft þurft að svara en á kannski fá svör við önnur en þau sem ég sjálf hef þurft að finna fyrir mig og langar að deila með ykkur hér.

Ég er ekki týpan sem virðist vera feimin, hef alltaf haldið þessum fronti sem segir að ég sé það ekki - en trúið mér, ég er og hef alltaf verið feimin, hef einungis lært að yfirstíga feimnina með ýmsum hætti sérstaklega á síðasta áratug eða svo. Ég nýti mér þann styrk sem ég hef öðlast á leið minni til sjálfsþekkingar í hinum ýmsu aðstæðum í dag.

Ég er hinsvegar afar félagslynd og hef alltaf verið og hreinlega elska að vera í góðum hópi eða að kynnast nýju fólki og á auðvelt með það í dag.

Hér áður fyrr var ég svo feimin að ef ég lenti í að vera innan um ókunna aðila átti ég til að blaðra án afláts og út í eitt þar sem þögnin var svo hrikalega erfið að mér fannst, svo skammaðist ég mín fyrir blaðrið og fannst ég hafa orðið sjálfri mér til minnkunar. Kannski á ég enn til þessa flóttaleið í aðstæðum en ég get þó sagt að það er bara brotabrot af því sem áður var.embarassed

Ef ég var á námskeiðum eða einhverju slíku þar sem ég þurfti að kynna mig með nafni og ég tala nú ekki um ef ég þurfti að segja frá sjálfri mér að einhverju leiti þá fann ég fyrir bankandi hjarta og kvíðatengdri vanlíðan löngu áður en það kom að mér að tala og fann svo fyrir ótrúlegum létti þegar það var over and done with.

Ég átti einnig mjög erfitt með að tjá mig um skoðanir mínar á opinberum vettvangi eins og  t.d. á foreldrafundum í sal skólans sem börnin mín sóttu og alveg var sama hversu mikið mig langaði að tjá mig um hin ýmsu málefni þá steinhélt ég mér saman en skammaði mig svo reglulega fyrir aumingjadóminn eftir á.

Að tala fyrir framan hóp af fólki var bara algjörlega ógerlegt fyrir mig og ég man eftir fyrsta verkefninu mínu þar sem ég þurfti að tala yfir ca 20 manna hópi. Ég skalf á beinunum, fékk svimatilfinningu og það hefði líklega liðið yfir mig ef ég hefði ekki haft standandi tússtöflu fyrir framan mig til að styðja mig við! 

En þegar þarna var komið sá ég að þessa feimni yrði ég að yfirvinna til að ég gæti náð þangað sem ég vildi fara og ég tók ákvörðun.

Ákvörðun mín fólst helst í því að ég ætlaði að taka að mér hvert einasta verkefni sem byði uppá það að ég þyrfti að tala innan um fólk og hópa, því ég skildi sigrast á ótta mínum og eins vann ég vel með mína meðvirkni sem var töluverð á þeim tíma!

Ég byrjaði svo sem smátt að yfirvinna feimni mína, byrjaði kannski með því að ég þakkaði fyrir mig í matarboðum og hrósaði gestgjöfunum með því að standa upp og horfast í augu við þá sem við borðið voru, og einnig fór ég markvisst að þegja þegar ég fann þörf mína til að rjúfa þagnir þar sem minni hópar eða einstaklingar áttu í hlut.

Ég fór síðan að vera með námskeið fyrir 10-15 manns og fann að ég gat vel gert það, og fann oft fyrir sigurtilfinningunni sem fylgdi í kjölfarið. Þannig hélt ég áfram að æfa mig á hinum ýmsu námskeiðum sem urðu síðan að fyrirlestrum og fleiru. Ég hef meira að segja staðið fyrir framan nokkur hundruð manns sem veislustjóri og sungið með Ragga Bjarna og hafði rosalega gaman af og í raun ákaflega stolt af því augnabliki :)

Smátt og smátt á þessu æfingatímabili mínu fór ég að sjá sigrana mína og mér fór að líða betur með það að standa upp og tala fyrir framan hópa og í dag held ég að ég sé orðin alveg ágæt þó að streitan segi alltaf til sín fyrstu mínúturnar, en þar held ég að margir séu :)

Ég held semsagt þegar öllu er á botninn hvolft að til þess að sigrast á feimni dugi fátt annað en æfingar og það að stíga inn í óttann sem heldur okkur í feimnisböndunum, því hvað væri það versta svo sem sem gæti gerst í aðstæðunum?

Síðan er að æfa sig með ýmsum hætti (fake it until you become it) og vera meðvitaður um að það eru litlu sigrarnir sem byggja okkur upp í stærri sigra og áður en við vitum af er nánast öll feimni farin af okkur, sjálfsmynd okkar orðin sterkari og við tilbúin að sigra heiminn.

Og ef þú þarft aðstoð mína við að yfirstíga þína feimni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is

 


Við ráðum uppskerunni

Veistu, stundum held ég að við gleymum hversu miklu við stjórnum í lífi okkar með ómerkilegasta vali okkar, en setjum okkur svo miklu heldur í þá stöðu að vera fórnarlömb kringumstæðnanna þar sem við ráðum svo litlu og dveljum í vanmætti okkar.

Við getum ekki ráðið hvaða verkefni koma inn í líf okkar en við getum svo sannarlega ákveðið hvernig við ætlum að taka á þeim og vinna með þau.

Við höfum vald til að breyta svo mörgu í okkar lífi, við þurfum bara að verða meðvituð um það og taka skrefin sem færa okkur inn í aðstæður þær sem við kjósum frekar en þær sem nú eru.

Við getum td ákveðið skoðanir okkar og viðhorf og við getum breytt þeim þegar okkur sýnist svo.

Við getum stjórnað miklu hvað varðar heilsu okkar og lífsstíl ef við bara nennum að taka það í gegn.

Við getum breytt hugsunum okkar og valið að vera í möguleikunum en ekki í afsökununum, verið í jákvæðni en ekki neikvæðni, valið að tala fallega um og inn í líf annarra, að byggja okkur sjálf og aðra upp frekar en að tala um veikleika og ómöguleika allra.

Við getum valið að sjá lífið sem fallegt og gott, að landið okkar sé frábær staður og allir séu okkur velviljaðir, nú eða við getum séð allt ómögulegt við þetta allt saman. Það er hugsunin okkar um það sem við erum að sjá og fást við hverju sinni sem öllu ræður þegar allt kemur til alls!

Við getum valið félagsskap okkar og starfsvettvang þó að ekki getum við valið okkur fjölskyldu, en við hinsvegar berum ekki skyldu til að umgangast þá sem hafa vond áhrif á okkur hvort sem er inni í fjölskyldunni eða annarstaðar.

Við getum valið að gefast aldrei upp og standa upp aftur og aftur og verða nær takmarki okkar í hvert eitt sinn sem við gerum það þó að stundum þurfum við að taka tvö skref aftur á bak og eitt fram, þá skiptir það ekki öllu máli - heldur það að við stóðum upp sem að lokum mun skila sér til okkar í formi góðrar uppskeru.

Við getum valið að vera kurteis, velviljuð, kærleiksrík og góðhjörtuð eða ekki, verst hvað margir velja að vera það ekki.

Við getum valið að setja fókusinn okkar á allt annan stað en hann er í dag og látið hugsanir okkar, tifinningar og heilann hjálpa okkur við að ná þangað.

Við getum valið að standa með okkur sjálfum á virðingaverðan hátt og setja framkomu annarra mörk.

Við getum valið að eiga góð samskipti og að koma tilfinningum okkar og viðhorfum á framfæri án æsings og pirrings.

Við getum valið að fyrirgefa þó ekki sé nema fyrir okkur sjálf.

Og að lokum getum við ákveðið að vera þakklát sama hvað, þar liggur eitthvert lögmál, því að þeir sem þakka fá yfirleitt enn meira til að þakka fyrir. 

Ég hlustaði ræðu sem vinkonu mín í ræðu hélt um daginn þar sem hún talaði um það hvernig líf okkar kaflaskiptist og hvernig þeir kaflar sem við göngum í gegnum væru eins og þegar við göngum í gegnum hlið, eða frá einum stað til annars.

Í Biblíunni (sem hún vitnaði í) og í fleiri góðum bókmenntum er gjarnan talað um að við þurfum að ganga í gegnum perluhliðin og er þá átt við að við förum í gegnum hlið til að ná frá einum stað á annan í lífinu, og það sem er svo merkilegt við þessa frásögn er að þessi hlið eru skreytt dýrindis perlum.  

Mér þótti þetta merkilegt vegna þess að ég veit hvernig perlur verða til, en þær verða til við að það fer sandkorn inn í skelina sem veldur ostrunni miklum óþægindum og núningi, en engu að síður verður til dýrmæt perla mitt í óþægindunum, og þannig finnst mér það einnig oft vera í okkar lífi.  Við göngum í gegnum erfið verkefni og öðlumst á leiðinni dýrmæta reynslu sem nýtist vel á leið okkar inn í næsta kafla lífs okkar.

Munum bara að reynslan sem við fáum í öllum núningi lífsins verður okkur alltaf dýrmæt og gjöful með einhverjum hætti að lokum þó að erfið geti hún oft verið.

En elsku við - gleymum aldrei að það erum við sjálf sem sitjum við stjórnvölinn með vali okkar hverju sinni, í smáu sem stóru og við ráðum alltaf framkomu okkar, hegðun og flestu öðru sem inn í daglegu lífi okkar er, og það er gott að hafa í huga að lögmál sáningar og uppskeru er að störfum í okkar lífi öllum stundum.

Við  ráðum nefnilega svolítið miklu um það hvort uppskeran okkar verður góð eða slæm, það fer allt eftir því sem sáð er, og síðan umhugsuninni, kærleikanum og alúðinni sem við veitum því sæði síðan á vaxtatímanum.

Og ef þú þarft hjálp við að leysa úr þínum lífsins verkefnum þá er ég eins og alltaf bara einni tímapöntun í burtu :)

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is


Átt þú skilið að eiga gott líf?

Það er í raun ómögulegt fyrir manneskjuna að finna sjálfa sig á þessum tímum árangurs, gerviútlits, raunveruleikaþátta og fyrirmynda sem snúast helst og nánast eingöngu um hvernig má ná veraldlegum árangri og betra útliti að mínu mati.

Sem aldrei fyrr eru unglingar mataðir alla daga á því hvernig þeir "eigi að vera" í stað þess að vera mataðir á eigin styrkleikum og verðleikum og svo skiljum við ekkert í því hvers vegna börnin okkar eru kvíðin og óhamingjusöm sem aldrei fyrr þó að ekkert skorti. 

Fræðsluna um lífið og gjafir þess skortir að mínu mati og viska þeirra sem eldri eru og lífsreyndari kemst allt of sjaldan til skila til þeirra sem á þurfa að halda vegna þess að samverustundir fjölskyldunnar verða alltaf færri og færri og gæði þeirra fara því miður einnig oft minnkandi því að dagskráin er svo þétt.

Að hlusta á visku fyrri tíma er ekki í tísku á þessari tölvuöld og það hryggir mig að við skulum vera tilbúin til þess að láta heiminn fara svona með okkur.

Ég sjálf þarf að skoða mig í þessu samhengi og gera betur, en ég er þó meðvitaðri um mig og hvað það er sem gefur raunverulega hamingju í dag en ég var hér áður fyrr.

Við þekkjum örugglega flest einhvern sem hefur lent í "burnout" ástandi sem því miður er allt of algengt í dag og skrifast nánast eingöngu á það að ekki er hægt að sinna öllum kröfum nútímans og okkar sjálfra svo að vel sé.

Ég þekki a.m.k. vel til þessa málaflokks og veit hversu mikilvægt það er að finna jafnvægi inn í þessar aðstæður svo að hægt sé að njóta lífsins með ró í hjarta. Jafnvægi þarf að myndast á milli starfa, fræðslu og hvíldar, að sinna sjálfum sér og sinna öðrum með ró en ekki í ójafnvægi.

Margir leita í hugleiðslu, núvitund og aðra þætti sem eiga að núllstilla lífið, en finna þó ekki frið og hugarró. Hversvegna ætli svo sé?

Að mínu mati (sem þarf þó ekki að endurspegla skoðun fjöldans) er það vegna þess að við erum í sífelldu kapphlaupi við að uppfylla standarda heimsins og þeir eru einfaldlega að bera okkur ofurliði!

Einfalt...

Og ef við leyfum okkur að skoða þetta hlutlaust þá hljótum við að sjá að við sjálf og börnin okkar eru án eðlilegs frítíma og gæðastunda.

Börnin okkar eru í flestum tilfellum komin í hendurnar á ókunnu fólki á fyrsta aldursárinu og þar byrjar það sem ég kýs að kalla þrælahaldið. Full vinna frá heimilinu og að vinnudegi loknum (sama hvort að við erum að tala um dagmömmur, leikskóla, skóla) taka við íþróttir eða aðrar tómstundir því að allir þurfa að skara framúr á einhverjum sviðum. Og að loknum vinnudegi hjá foreldrunum tekur við búðarferð, matartiltekt, þrif, heimalærdómur barnanna og uppeldið sjálft, og í sumum tilfellum bíður bara meiri vinna eftir þeim sem ekki var hægt að klára deginum til. 

Hvenær var það sem við hættum að meta hlutverkið foreldri? Hvers vegna í ósköpunum finnst okkur það minna virði en önnur störf þjóðfélagsins? Hvenær ætlum við að sjá að komandi kynslóð og kennslan til hennar er það sem ætti að leggja alla áherslu á? Hvenær ætlum við að fara að launa foreldrum fyrir þetta starf og hvetja þá til þess að sinna því á fullum launum og bónusum?  

Ég veit að sumum finnst ég hörð og óvægin þarna og það má vel vera að svo sé, en ég sé hversu mikil vöntun er á athygli, umönnun og gæðastundum hjá börnunum okkar í dag og ég held að við hreinlega verðum að fara að snúa þessari öfugþróun við og leita að gömlu góðu götunum í þessu sambandi. Að fara að finna jafnvægið á milli vinnu, eignamyndunar og barnanna sem eru þegar allt kemur til alls einu raunverulegu fjársjóðirnir okkar. 

Hamingjuna er ekki að finna í útbólgnum bankabókum eða virðingaverðum starfstitlum, verðlaunagripum né öðru veraldardóti, það hljótum við að vera búin að uppgötva fyrir löngu síðan. Og þó að gaman sé þegar þetta allt er einnig til staðar eru verðmætin okkar falin í öðru og mikilvægara.

Að vernda hjarta okkar líkama og sál og að gefa okkur rými fyrir þá hluta tilverunnar sem skapar okkur vellíðan og jafnvel þekkingu á okkur sjálfum og því hver við raunverulega erum, persónuleika okkar, gildum og því hvernig við lifum samkvæmt okkar gildum er það sem ég tel að heimurinn þarfnist nú meir en nokkru sinni fyrr. 

Tökum þetta í gegn hjá okkur og hættum að lifa samkvæmt stöðlum raunveruleikaþátta nútímans, verum VIÐ eins og við erum og stoppum þessa vitleysu. Hættum að gera gæðastundirnar sem við þó gefum okkur árangurstengdar með því að ganga 10 þúsund skref í göngutúrnum, eða að keppast við kílómetratalninguna og kaloríumælinguna á hlaupabrettinu í ræktinni.

Njótum þess heldur að fara með okkar nánustu í göngur sem sýna okkur fegurðina, viskuna og kraftinn sem í náttúrunni býr, og upplifum þau undur sem eru allt um kring ef við bara gefum okkur tíma til að líta upp úr tímaskipulaginu okkar.

Förum kannski aðeins aftur á bak og finnum okkur sjónvarpslaus kvöld, kertaljós, spil og spjall, gönguferðir þar sem samvista við náttúruna er notið, sækjum okkur kraft í hana og þökkum fyrir það að fá að vera hér og njóta - og drögum svo bara andann í ró inn og út.

Og ef þig vantar aðstoð við að fá jafnvægi á þitt líf er ég bara einni tímapöntun í burtu :)  

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

 


Samvera er gulli betri

Kannski var ég að búa til nýjan málshátt en ef svo er þá vantaði hann inn í flóru málsháttanna hvort sem er :) (samvera er gulli betri)

Þessir síðustu dagar hafa einkennst af samveru með vinum og fjölskyldu og ekkert kvöld helgarinnar hefur liðið þar sem við skötuhjúin höfum setið ein til borðs. Mikið verð ég að viðurkenna hversu dásamlegt mér finnst að finna fyrir þessum erli inni á heimilinu.

Í mörg ár bjó ég ein og ég fann að bæði börnin mín og vinir voru ekki neitt sérlega spennt fyrir því að koma í heimsókn án þess að vera sérstaklega boðin í mat eða kaffi þar sem líklega var ekki mikill fjölskyldubragur á þessu heimili hjá mér.

Ekkert var til í ísskápnum svona á venjulegum degi hjá mömmunni og ekki oft til aukapeningur til að vera með matarboð og slíkt þannig að kannski kann ég betur að meta að eiga heimili aftur en þeir sem hafa ekki þurft að sakna þess. Að eiga heimili þar sem fólk er velkomið og þar sem ísskápurinn er fullur af ýmsu góðgæti og allir velkomnir að athuga hvað til sé þar er hreinlega ómetanlegt að  mínu mati.

Merkilegt hvað það getur verið mikill munur á því að búa einn eða að búa með öðrum aðila sem aðstoðar við að skapa þessa dýrmætu fjölskyldustemningu!

Í dag fór ég með mömmu upp í kirkjugarð að setja blóm á leiðið hjá pabba sem er svosem ekki í frásögur færandi en minnti mig þó óneitanlega á hversu brothætt og óútreiknanlegt lífið getur verið og hversu mikilvægt það er að sinna sínum á meðan enn er tími til þess. Mamma kíkti svo í heimsókn til okkar eftir leiðisheimsóknina og ekki leið á löngu þar til yngsta dóttir mín og hennar maður ásamt báðum ömmustrákunum mínum birtust ömmunni til mikillar ánægju, krónprinsinn sjálfur 9 ára  og hinn prinsinn eins og hálfs mánaða gamall sáu mér fyrir því sem fylgir því að gefa og þiggja og öllum þeim fallegu tilfinningum sem því fylgir.

Þegar ég leit yfir þetta fjölskyldu svið fann ég fyrir svo miklu þakklæti í hjarta mér. Að fá að hugga, faðma, knúsa og spjalla við þá sem standa hjarta mínu næst er eitthvað sem gefur mér þessa líðan um tilgang og fyllir mig kærleika.

Ég held að stundum séum við að tapa dýrmætum samskiptum eins og þeim sem ég hef notið núna um helgina vegna þess að aðrir hlutir eins og sjónvarp, tölvur, vinna og fleira ganga fyrir hjá okkur en þar sem við leggjum ekki rækt við vini, fjölskyldu eða maka deyja samskiptin út að lokum og verða að engu. Guð forði okkur öllum frá því hlutskipti!

Bara það að eiga gæðastund með búðarrápi og pizzumáltíð með þeim sem skipta máli eins og við skötuhjúin gerðum um helgina er eitthvað sem lifir með okkur og gefur meiri tilgang en spjall á messenger eða öðrum spjallrásum að mínu mati amk og eykur gæði lífs okkar eins og ég minntist á hér fyrr.

En aftur að ánægju minni með síðustu daga og erilinn sem fylgdi þeim.

Vinkona mín sem kom í mat til okkar ásamt sínum manni og börnum sagði einmitt eftir að við höfðum átt yndislega kvöldstund, að ef eitthvað væri kirkja (sem þýðir samfélag) væri það svona samverustund og er ég henni innilega sammála um það. Að vera í návist hvers annars þó ekki sé til annars en þess að fá speglun á okkur, persónuleika okkar og virði frá þeim sem við erum í umgengni við er gleðin sem glæðir allt annað gott og fagurt.

Hugsum aðeins út í þetta elskurnar og ræktum þá sem eru okkur mikils virði, finnum það góða sem í hverjum manni býr og gleðjumst saman. Ræktum garðinn okkar vel og mætum hvert öðru þar sem þarfir okkar liggja, en munum þó alltaf eftir því að dass af samveru og samskiptum er æskilegt innihald í hverri og einni uppskrift.

þar til næst elskurnar

xoxo Ykkar Linda

Og ef þú þarft aðstoð með þín málefni þá er ég bara einni tímapöntun í burtu :)

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

 


Þegar lífið brotnar

Þó að í dag eigi ég gott og gjöfult líf þá hef ég oft staðið frammi fyrir áskorunum lífsins og á alveg örugglega eftir að þurfa að gera það aftur ef ég þekki þetta líf rétt :) Það sem þær áskoranir hafa kennt mér er margt og mikið eins og t.d. að taka lífinu með hæfilegu kæruleysi, vera í núinu, sleppa tökum á fortíðinni og standa svo upp aftur þegar ég hef safnað nægum krafti og gleði til þess að sækja fram.

Þegar við stöndum á þeim stað að allar áætlanir og allt það sem við ætluðum okkur að yrði svo gott hjá okkur hrynja eða brotna þá stöndum við frammi fyrir vali. Við höfum val um að standa brotsjóinn af okkur eða  brotna, og ég hvet okkur öll til að velja það að standa upp og muna að ALLT samverkar okkur til góðs að lokum þó að við sjáum það ekki alveg þegar við erum inni í miðju stormsins. Þar eigum svo erfitt með að ímynda okkur og sjá að góðir dagar muni heimsækja okkur á ný, en þeir munu gera það engu að síður - lofa :)

Á þessum tímabilum er gott að hafa í huga að við þurfum að virða allar okkar tilfinningar og eins ættum við að muna að engin þeirra er óleyfileg. Hinsvegar er gott að hafa í huga að þær tilfinningar sem tengjast gleði og jákvæðni ættum við að leita sem oftast að í brjósti okkar og dvelja í þeim eins mikið og hægt er en leyfa hinum erfiðu að staldra styttra við. 

Að búa til gleðistundir með þeim sem okkur þykir vænt um er það sem gefur okkur orkuna og kraftinn til að standa upp að nýju svo sköpum þær í ríkum mæli.

Leitum til fjölskyldu okkar og vina því að þeir munu vera til staðar fyrir okkur og aðstoða okkur við að sjá ljósið sem skín þrátt fyrir allt í gegnum brotin okkar og munum að þetta sama ljós mun skína skærar frá okkur eftir því sem brotin okkar verða fleiri, því að það er nú svo merkilegt að þeir sem hafa mest að gefa eru oftast þeir sem lífið hefur farið ómjúkum höndum um.

Munum að við erum alltaf nægjanlega góð þó að líf okkar sé í brotum og munum að við eigum skilið allt það besta sem það hefur að gefa sama hvað. Á morgun kemur nýr dagur með nýjum loforðum og nýrri byrjun fyrir okkur öll og ég hvet okkur til að nýta okkur þessa gjöf til hins ýtrasta.

Lífið er eins og hjartalínurit, það eru hæðir og lægðir og allt þar á milli sem er hinn náttúrulegi taktur lífsins og það er svo gott að geta hugsað þannig að allt líði hjá, allir topparnir og lægðirnar og einnig það sem er í gangi hjá okkur sjálfum hverju sinni.

Skoðum ávallt hvað það er sem við getum lært nýtt og gagnlegt af lífinu í öllum aðstæðum þess, og ekki síst þegar aðstæðurnar eru ekki góðar og vondir tímar hafa tekið völdin. Við munum í flestum tilfellum uppgötva að sá lærdómur sem við tókum með okkur út úr aðstæðunum er ómetanlegur og gerir okkur að betri og vitrari manneskjum ef við leyfum okkur að njóta lærdómsins en sleppum biturleikanum og eftirsjánni sem sumir velja að taka frekar með sér og nýta sér og öðrum til ógagns.

Munum og setjum fókus okkar á að allt það besta bíði okkar allra, hugsum þannig og tölum það út og treystum svo því að þegar einar dyr lokist opnist alltaf aðrar betri eða meira spennandi.

Finnum aftur tilganginn sem leynist í hjörtum okkar og förum af stað aftur með von í brjósti, kærleikann sem yljar, sköpunarkraftinn að vopni og sigrum svo bara heiminn á ný! 

Gefumst aldrei upp því að eins og ég sagði, á morgun er nýr dagur sem við getum gert að betri degi og ef þig vantar aðstoð mína þá er ég bara einu emaili og tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband