Færsluflokkur: Bloggar
9.3.2018 | 12:22
Veldu vini þína vel!
við getum víst ekki ráðið því inn í hvaða fjölskyldu við fæðumst (þó að sumir séu mér ekki sammála þarna), en að við getum hins vegar svo sannarlega valið vini okkar og það er stundum sagt að við séum þversumman af þeim fimm aðilum sem við umgöngumst mest sem er líklega svolítið til í og því borgar það sig að velja þá aðila vel.
Að þessu sögðu get ég þó sagt að vinahópurinn breytist með reglulegu millibili eftir því sem við sjálf breytumst og þroskumst, og ég hef þá trú að allir þeir sem inn í líf okkar koma séu kennarar lífs okkar og eru vinirnir engin undantekning þar á.
Vinir koma og fara eftir því á hvaða stað við erum hverju sinni og hvaða lexíu okkur er ætlað að læra á þeim tíma samkvæmt trú minni, og öllum þessum aðilum getum við þakkað fyrir þátt þeirra í þroska okkar og mótun á hverjum tíma, bæði þeim góðu og eins þeim slæmu.
Og svo eru það þessir yndislegu en fáu vinir sem fylgja okkur frá vöggu til grafar og eru við hlið okkar allt til enda okkur til gleði og blessunar, ég kalla þessa vini verndarenglana okkar.
En hvernig förum við nú að því að velja okkur góða og trausta vini sem gefa lífi okkar framgang og gleði?
Kannski við ættum að byrja á því að finna okkur vini sem eru komnir lengra á þroska og sigurbrautinni en við sjálf erum þar sem það væri okkur hvatning til dáða bæði á andlegum og veraldlegum sviðum- held að það væri góð byrjun.
Svo er afar gott að vinir deili sömu gildum og lífsviðhorfum, það kemur í veg fyrir fjölda rifrilda eða pirrings og gleðistundirnar verða þar af leiðandi fleiri.
Það er einnig mjög gott að styrkleikarnir séu á mismunandi sviðum þannig að við bætum hvert annað upp og sköpum þar með heild sem virkar í öllum aðstæðum.
Að mínu mati er einnig mjög nauðsynlegt að vinir dvelji í jákvæðni, lausnum og byggi hvern annan upp á jákvæðum hvetjandi nótum þó svo að heilbrigð og gagnrýn viðhorf fái svosem að fljóta þar með öðru hvoru.
Það er einnig svo nauðsynlegt að eiga vini sem fagna sigrum lífsins með okkur og gera það fölskvalaust, þeir hinir sömu eru líklega einnig þeir sem gráta af einlægni með okkur þegar lífsins sorgir banka uppá og hvetja okkur oftast einnig til dáða. Fylgjast með framgangi okkar og eru til staðar þegar við hrösum og koma okkur aftur upp á fæturna. Þetta er besta vinategundin að mínu mati!
Hver þekkir það svo ekki að hafa átt svona "vini" sem sjá bara vandkvæðin við allt sem borið er upp og reyna af fremsta megni að draga úr öllum frábæru hugmyndunum sem við fáum? Nú eða þá sem oftast virðast finna eitthvað sem segir að við séum ekki nóg af einhverju eða of mikið af einhverju, a.m.k ekki nægjanleg til að eiga allt gott skilið?
Sumir "vinir" finna líka allt sem bæta þarf hjá okkur en færa það í fallegan skrautbúning og velferðabúning okkur til handa, en þeir gleyma stundum að horfa á það sem laga þarf hjá þeim sjálfum. (þessa skulum við ekki halda fast í)
Þeir sem nenna að hlusta endalaust á okkur og hafa ómælda þolinmæði með tuðinu í okkur eru dásemdir fyrir líf okkar því að það er oft þannig að með því að heyra sjálfan sig tala um það sem skoða þarf býr til ný og betri viðhorf hjá okkur, fátt sem toppar þetta og sparar okkur fleiri fleiri tíma hjá aðilum eins og mér sjálfri .
Svo að lokum eru það gleðipinnarnir sem eru alltaf til í að búa til gleðistundir með okkur, þeir bústa upp öll gleðiefni heilans sama hvaða nafni sem þau nefnast (þau eiga það þó sameiginlegt að halda okkur frá depurð,kvíða og þunglyndi) - Þessa vini þurfum við að hitta mjög svo reglulega, a.m.k. einu sinni til tvisvar í viku ef vel á að vera!
Ætla svo bara að enda þetta á því að minna okkur á að vinskapur gengur alltaf í báðar áttir, við þurfum að gefa og gefa til þess að geta þegið og þegið. What goes around comes around er í fullu gildi þarna!
Svo gefum af kærleika okkar, hlustun,tíma, samstöðu,fallegum orðum, tárum og hlátri til allra vina okkar og hreinlega stráum glimmeri í allar áttir - njótum síðan dvalarinnar hér á hótel Jörðu með öllum þeim sem okkur eru kærir og þeim sem tengjast okkur böndum vináttunnar.
Gangi ykkur vel í vinavalinu og ég sendi ykkur kærleika og vinalegt knús elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2018 | 13:19
Góð fjölskylda er gulli betri
Eftir því sem ég verð eldri og vitrari geri ég mér meiri og betri grein fyrir mikilvægi þess að eiga góða fjölskyldu og sterk fjölskyldubönd og ég hreinlega elska þær stundir þar sem fjölskyldan öll kemur saman í gleði og eins þegar á bjátar.
En þessi góðu og fallegu bönd sem við sækjumst svo mikið eftir að eiga eru langt í frá sjálfsögð og mikið þarf að hafa fyrir þeim ef vel á til að takast.
Þau gildi sem einkum einkenna sterkar samheldnar fjölskyldur að mínu mati eru nokkur og ætla ég að minnast á einhver þeirra hér.
Hvort sem fjölskyldan er blóðtengd eða ekki er hún fyrst og fremst byggð upp með ást og virðingu allra meðlima hennar ásamt því að hver og einn verður dag hvern að velja að vera partur af liðsheildinni og verja hagsmuni hennar ef þarf.
Að starfa að velferð heildarinnar með kærleikann að vopni er aðal innihaldsefnið sem nota þarf að ég tel og svo sannarlega innfelur kærleikurinn svo ótal margt í sér eins og við svo sem vitum ef við skoðum það.
Kærleikurinn veitir stuðning og athygli og er í reglulegu sambandi við þá sem eru innan hans banda. Hann leggur sig einnig fram við að láta öllum líða eins vel og hægt er á hverri stundu, og jafnvel krefst hann fórna eins og að gefa af takmörkuðum tíma okkar, láta af okkar stóra ég-i, breyta fyrirætlunum og fleira, allt þó innan vissra skynsemismarka.
Við byggjum semsagt upp fjölskyldueiningu með því að annast, huga að, hlusta og vera til staðar allan ársins hring, og svo þurfum við kannski að elska mest þegar aðilarnir eiga það minnst skilið (án sjúklegrar meðvirkni þó).
Að gefa öllum frelsi til að byggja upp sitt eigið líf á eigin forsendum er einnig nauðsynlegt að styðja við, og við foreldrar þurfum víst stundum að læra að sleppa tökum á börnum okkar og þeirra ákvörðunum varðandi sitt líf, og þau að sama skapi þurfa stundum að gera slíkt hið sama gagnvart foreldrunum sínum.
Allir þrá að vera samþykktir af sínum nánustu eins og þeir eru og ekkert er eins sárt og að finna andúð frá þeim sem við elskum vegna þeirra skoðana og lífsviðhorfa sem við höfum.
Fjölbreytileikinn innan hópsins í skoðunum,lífsviðhorfum og fl. er einmitt það sem gerir fjölskylduna líflega og skemmtilega og því ber að fagna því að við erum ólík.
Hvergi er hægt að öðlast jafn mikla æfingu í því að sleppa tökum á ýmsu sem við viljum þó svo gjarnan hafa stjórn á en í fjölskyldum. Við lærum semsagt að sýna umburðalyndi og skilyrðislausan kærleika í verki þar, en oft reynist það þó hægara sagt en gert. (þeim var ég verst sem ég unni mest)
Að byggja upp meðlimi fjölskyldunnar með fallegum orðum og athöfnum ætti að vera stór partur af því að móta þessa hamingjusömu einingu og ættu allir meðlimir hennar að vera duglegir að segja hver öðrum það góða og fallega sem þeir sjá í fari hvers annars.
Að sjá styrkleikana og fókusa á þá í stað þess að sjá gallana er einnig hálfgerð skylda þeirra sem innan fjölskyldunnar eru, þó að svo sannarlega þurfi stundum að taka samtalið og benda á það sem gæti orðið til eyðileggingar og leggja til betri leiðir þar. (Sá er vinur er til vamms segir)
Að styðja við fyrirætlanir fjölskyldumeðlima og standa við gefin loforð er einnig nauðsynlegt að gera svo að hægt sé að byggja upp traust innan þessara banda.
Að vera til staðar þegar lífið reynist ekki svo gott hjá einhverjum meðlima fjölskyldunnar er ekki bara nauðsynlegt heldur ætti að vera sjálfsagður partur af mannlegum kærleika og samhug sem við ættum að sýna mun víðar en í fjölskyldutengdum böndum.
Nú svo er það virka hlustunin og allar gleði og gæðastundirnar sem eru svo mikilvægar, öll matarboðin, veislurnar, heimsóknirnar, símtölin og snöppin sem eru svo ómetanleg og gefa meðlimum fjölskyldunnar tilfinninguna um að þeir tilheyri og séu elskaðir sem skiptir bara svo óendanlega miklu máli upp á andlega líðan allra, og hvergi er betra að tilheyra og að vera elskaður en innan sterkra fjölskyldubanda.
Nú svo er það síðasta gildið sem mig langar að nefna að lokum eða rúsínan í pylsuendanum sem er- Fyrirgefningin!
Fyrirgefningin sem við fáum innan fjölskyldu okkar þegar við misstígum okkur og bregðumst er svo óendanlega mikils virði og hvergi líklega jafn mikils virði að mínu mati, og gott er að fá að sleikja sárin sín í kærleiksríku andrúmi fjölskyldunnar sem gefur þér lækningu og líkn með skjóli sínu.
Svo fyrirgefum mikið og elskum mikið er líklega það boðorð sem við ættum hafa í hávegum innan fjölskyldu okkar og þakka svo fyrir hana daglega af einlægni og með opnu kærleiksríku hjarta.
Elskum - Njótum - Hlustum - Virðum
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2018 | 12:38
Ertu sambandsfíkill?
Í tilefni af nýliðnum degi kærleikans Valentínusardeginum sjálfum ætla ég að skrifa nokkrar línur um litróf ástarinnar.
Ég held að allir þrái að eignast góðan maka, að vera ástfangnir og hamingjusamir til æviloka eins og gerist í öllum góðum ævintýrum, og leynt og ljóst leitum við að rétta viðhenginu sem duga skal ævina á enda svona a.m.k í fyrirætlununum. Ég held að ef við værum fullkomin í elskunni værum við líklega að framfylgja því sem fram kemur í kærleiksboðorðinu sem vinsælast er til nota þar sem tveir aðilar ákveða að bindast hvor öðrum og gangast undir heilög heit hjónabandsins.
Það kærleiksboðorð hljóðar svo:
Kærleikurinn er langlyndur,hann er góðviljaður.
Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur,hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Falleg orð þetta og svo sannarlega til eftirbreytni og umhugsunar dag hvern.
En hver skildi svo andstæða þessa fallega kærleika vera?
Fyrir nokkrum árum kom út bók sem ég skrifaði ásamt vini mínum Theodóri Birgissyni fjölskylduráðgjafa þar sem við snerum þessum kafla kærleikans upp í andstæðu sína eða þar sem virðingu, ást og velvild vantar og settum upp með eftirfarandi hætti:
Hann er sjaldan þolinmóður
Hann er sjaldan góðviljaður
Hann öfundar
Hann hreykir sér
Hann er hrokafullur
Hann er dónalegur
Hann hegðar sér ósæmilega
Hann sækist eftir því sem er best fyrir hann sjálfan
Hann reiðist auðveldlega
Hann er langrækinn.
Því miður eru margir sem búa við óheilbrigð sambönd sem þeir ættu að vera komnir út úr fyrir löngu og þekkir sú sem þetta ritar það mjög vel frá fyrri tíð.
Ofbeldi í allri mynd og fíknir eru eitthvað sem við ættum aldrei að búa við undir nokkrum kringumstæðum þar sem það skaðar okkur til anda sálar og líkama.
Ein tegund fíknar sem veldur því að við festumst í slíkum samböndum kallast ástarfíkn og hún er alls ekki eins óalgeng og við stundum viljum halda enda rauðar bókmenntir og bíómyndir duglegar að ýta undir þær tilfinningar sem þar fara af stað, og við erum aldar upp við það (a.m.k stelpur) að svona eigi ástin að vera í allri sinni mynd.
Ef við skoðum til dæmis þá bók sem seld var í mörgum bílförmum fyrir nokkrum árum eða "fifty shades of Gray", þá sjáum við að við konur virðumst helst heillast af mönnum sem hafa lítið sem ekkert að gefa tilfinningalega, misbeita valdi, kaupa okkur með gjöfum en vilja ekki nánd, halda okkur og sleppa og svo fr. og auðvitað komum við þessum mönnum til bjargar og leiðréttum þá og allt verður gott! Þetta finnst mér nú eiga svolítið skylt við þá fíkn sem ég nefndi áðan, eða ástarfíknina.
Ástarfíknin lýsir sér einkum í því að sá sem haldinn er henni er yfirleitt ástfanginn af ástinni og þeim boðefnaruglingi sem þar á sér stað en hugsar minna um hversu æskilegur félagsskapurinn er sem hann er í til lengri tíma og hvort að sá sem á að uppfylla og fullkomna aðilann er þesslegur að hann geti skapað hamingju og öryggi í lífinu og allt of oft lenda þessir aðilar einmitt á þeim aðilum sem ekkert hafa að gefa og auka frekar á vanlíðanina hið innra frekar en hitt.
Dagdraumar og fantasíur eru hluti af daglegu lífi þess sem elskar með þessum hætti og sá sem ástina á að gefa þarf að fylla upp í allan tómleikann og sársaukann sem býr hið innra, en auðvitað geta hvorki heilbrigðir né óheilbrigðir aðilar uppfyllt tómleika þinn eða skort á sjálfsvirði þínu.
Það er einnig mjög algengt að sá sem haldinn er þessari fíkn sé með lélegt sjálfsmat og virði sjálfan sig ekki, jafnvel þurfi að upplifa verðmæti sitt í gegnum annan aðila og sé staddur langt fyrir utan sjálfan sig ekki ósvipað og gerist við aðra fíknisjúkdóma.
Og ég held satt að segja að í öllum tilfellum ef ég leyfi mér að fullyrða sé sjálfsmyndin og sjálfsvirðið hjá þeim sem haldinn er ástarfíkn sköðuð.
Kannski eru það boðefnin sem fara af stað og duga allt að 2 árum sem sótt er í þegar um ástarfíkn er að ræða og skýrir hvers vegna fólk virðist verða viti sínu fjær og detta inn í ástarþráhyggju með fólki sem það ætti alls ekki að koma nálægt, en hvað veit ég svosem um það, en það má velta því fyrir sér :)
Það sem ég veit þó er að við ættum aldrei að bjóða okkur uppá neitt nema það besta þegar að ástinni kemur og vera þar sem við fáum fallega virðingaverða framkomu, og ef ekki - hlaupum þá í burtu og það hratt!
Og ef þú þarft aðstoð við að leysa úr þínum verkefnum í lífinu þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.
Kærleikskveðja til þín sem átt bara það fallegasta og besta skilið - bæði af þér sjálfri/sjálfum og öðrum <3
xoxo
ykkar Linda
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2018 | 11:02
Stendurðu með þér?
Að standa með sér getur falið í sér svo óendanlega margt og mikið og fæst okkar átta sig á því hversu oft við förum út af þeirri braut.
Margir foreldrar hafa þurft að standa með börnum sínum gegn hinu og þessu og við þekkjum líklega mörg vanmáttarkenndina og sorgina sem fylgir því að hafa ekki gert okkar allra besta til að verja og standa með þeim á stundum sem geta haft mótandi áhrif á framtíð þeirra.
Ég veit a.m.k að ég hef brugðist á þessu sviði og sárast finnst mér að hugsa til þess að hafa ekki staðið þéttar við bak dóttur minnar á hennar fyrstu skólaárum þar sem hún var lögð í einelti, ekki bara af skólafélögum sínum heldur kennara sínum einnig. Ég stóð að vísu upp að lokum þegar ég gerði mér grein fyrir því hversu ill meðferð þetta var en líklega of seint þar sem búið var að brjóta sjálfsmynd dótturinnar og henni fannst hún kannski harla lítils virði.
Á þessum tímum var það ekki þannig að börn væru lögð í einelti og enginn talaði um það, börnin þurftu bara að þjást og mæta í skólann - í besta falli voru þau send til skólasálfræðingsins sem leitaði allt hvað hann gat að finna brotalöm hjá heimilinu eða barninu sjálfu en alls ekki skólanum né brotamönnunum þess.
En hin hrædda meðvirka ég stóð þó að lokum upp fyrir dóttur minni þegar við vorum báðar búnar á líkama og sál og var það gert með aðstoð sálfræðings frá Greiningamiðstöðinni sem sendi í kjölfarið skýrslu til skólans sem svo "týndi" skýrslunni og kannaðist ekki við eitt né neitt.
Sem betur fer er stúlkan mín stór og litríkur persónuleiki sem alltaf kemur niður á fæturna og kallar ekki allt ömmu sína, hefur líklega lært sína lexíu af hörðum heimi og hún á fallegt og innihaldsríkt líf í dag sem ég er ákaflega stolt og þakklát fyrir og hún mun vonandi lifa hamingjusöm til æviloka eins og í ævintýrunum.
En núna ætla ég hinsvegar að tala um mig og þig!
Erum við að standa nógu vel með okkur sjálfum? Erum við að setja mörk fyrir líf okkar? Segjum við stopp við þá sem vilja vaða og valta yfir okkur? Leyfum við dónaskap og ljóta framkomu við okkur? Segjum við skoðun okkar? Leyfum við fólki að segja niðrandi setningar um okkur sjálf og förum í hnút vegna þeirra?
Þessar spurningar og fleiri er okkur nauðsynlegar til aðgæslu dags daglega því að ef við ætlum að geta staðið þétt við bak annarra þurfum við einnig að geta staðið við okkar eigið bak.
Erum við í samskiptum við þá sem minnka okkur, geta ekki samglaðst okkur, lyfta okkur ekki upp og byggja okkur ekki upp heldur frekar rífa niður það sem við erum og gerum?
Ef við getum svarað þessum spurningum jákvætt þá er tími til kominn að staldra við og athuga hvort að við eigum ekki betra og fallegra skilið af okkur sjálfum.
Samkvæmt skilgreiningu Evans (1992) þá eru eftirtalin atriði það sem þú átt rétt á í samskiptum sama af hvaða tagi þau eru. (Þó að þarna sé verið að tala um samskipti á milli maka þá gilda sömu lögmál hvar sem er)
- Að eiga rétt á velvilja.
- Að fá tilfinningalegan stuðning.
- Að hlustað sé á þig og brugðist við óskum þínum með kurteisi.
- Að fá að hafa eigin skoðanir
- Að tilfinningar þínar og upplifanir séu samþykktar og virtar.
- Að vera beðin/n afsökunar á móðgandi eða særandi ummælum.
- Að fá hrein og bein svör við spurningum sem varða samskipti ykkar.
- Að vera laus við ásakanir og umvöndun.
- Að vera laus við útásetningar og dóma.
- Að talað sé um störf þín og áhugamál af virðingu.
- Að fá hvatningu.
- Að vera laus við hótanir af öllu tagi, tilfinningalegar og líkamlegar.
- Að vera laus við reiðiköst og bræði.
- Að sleppa við orð sem gera lítið úr þér.
- Að vera beðin/n en ekki skipað fyrir.
Og ef við erum að standa með okkur sjálfum þá stoppum við það sem ekki fellur undir þessa skilgreiningu, setjum semsagt mörk inn í okkar daglega líf bæði í vinnu og einkalífi.
Svo stöndum með okkur, setjum mörk og leyfum engum að meiða okkur á nokkurn hátt og pössum að sama skapi að meiða ekki aðra heldur.
Og ef ykkur vantar aðstoð við að setja mörk þá er ekkert annað en að hafa samband við mig og fá aðstoð mína til þess :)
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2018 | 17:20
Mátturinn felst í huga okkar
Við sköpum með hugsunum okkar
Ég vona að ég drepi ykkur ekki úr leiðindum með þessum pistli mínum en mér finnst bara svo ótrúlega mikilvægt að fá ykkur til að fræðast um hugsanir og mátt þeirra svo að ég bið ykkur um að hafa þolinmæði með mér og hvet ykkur til að lesa allt til enda.
Í raun er nefnilega sama hvar borið er niður, gömul þekking og ný benda í sömu átt, eða í þá átt að maðurinn er hugsandi vera og hugsanir eru hans aðal máttur til sköpunar og breytinga á umhverfi hans og aðstæðum.
Og til þess að við getum skilið betur sköpunarmátt og afl hugsana í okkar daglegu lífi langar mig að nefna hér nokkur atriði.
Samkvæmt tölum frá rannsóknastofu taugamyndunardeildar háskólans í Suður Californiu er talið að allt að 48.6 hugsanir fari um kollinn okkar á hverri mínútu sem þýðir að allt að 70,000 hugsanir fara í gegn um huga okkar daglega og þar af er talið að allt að 98 % þeirra hugsana séu neikvæðar og eða ósjálfráðar. Ekkert smá magn hugsana sem fer um kollinn okkar alla daga!
Heilinn okkar
Heilinn okkar þessi undrasmíði er okkar aðal hjálpartæki í lífinu og hlutverk hans er að verja okkur fyrir öllu því sem talist getur hættulegt lífi okkar og limum með einum eða öðrum hætti og halda okkur á öruggu vellíðanarleiðinni, og því er ekki undarlegt að megnið af okkar hugsunum verði af neikvæðum eða óttablöndnum toga svo að heilinn vinni nú sitt verk af kostgæfni og verji okkur sem best fyrir öllum þessum aðsteðjandi hættum, bæði þeim sem hættulegar eru andlegri heilsu okkar sem og þeirri líkamlegu.
Kvíði og þunglyndi
Þeir sem þjást af kvíða og þunglyndi t.d.gera sér oft ekki grein fyrir því hversu margar neikvæðar hugsanir fara um koll þeirra dag hvern og því síður gera þeir sér grein fyrir því að þeir geta haft áhrif á líðan sína með því að breyta hugsunum sínum með markvissum hætti sem er ekki nema von þar sem sjálfvirkar hugsanir eru líklega fyrirferðamestar hjá okkur dags daglega ásamt óboðnum hugsunum sem valda truflun. Hugsanir eins og ég get ekki, kann ekki, þetta er ekki hægt og ég er ekki nógu góð fyrir þetta, hafa meiri áhrif en við gerum okkur stundum grein fyrir þar sem við trúum yfirleitt hugsunum okkar og lítum á þær sem sannleikann sjálfan í allri sinni mynd. Hugsanir eru hinsvegar hafa afar mismunandi merkingar hjá hverjum og einum og einstaklingar geta upplifað sömu hugsanir og atburði með misjöfnum hætti allt eftir merkingu orða í reynslubanka þeirra, tilfinningalífi og lífssögu.
Eitt það erfiðasta sem við fáumst við er að hætta að hugsa um þær hugsanir sem ekki gera okkur gott. Þar erum við að líklega að fást við að breyta gömlum hugsanamynstrum sem eru okkur ómeðvituð og hafa fengið sinn tíma til að myndast með endurteknum hugsunum jafnvel árum saman. Það er talið að það taki okkur um 21 60 daga að skapa nýja venjubraut í heila okkar og er það gert með því að æfa sig á nýjum hugsunum sem leysa þær gömlu af hólmi og þannig verður til ný sýn og ný viðhorf.
Nasa og undratækið heilinn
Nasa geimvísindastofnun Bandaríkjanna gerði áhugaverða tilraun á geimfaraefnum sínum hér um árið, en sú tilraun fólst í því að geimfaraefnin voru látin ganga með gleraugu sem sneru heiminum á hvolf í heila 30 sólarhringa dag og nótt. En það skemmtilega gerðist að eftir þessa 30 sólarhringa var heilinn búinn að snúa myndinni við og rétta heiminn af hjá þeim ef svo má að orði komast. og ný sýn orðin til hjá þeim.
Þessi tilraun sýnir að heilinn okkar er fær um að breyta sýn okkar og fókusar á að búa til þá mynd sem við viljum sjá. Þetta er gott að hafa í huga þegar við erum að vinna úr gömlum rótgrónum mynstrum sem hamla okkur í lífinu ,- Við getum semsagt vanið okkur af því sem við gátum vanið okkur á En til þess að breyta hugsanamynstrum þurfum við þó markvisst að velja hugsanir okkar, taka þær föstum tökum og stýra þeim í ákveðnar uppbyggjandi og valdeflandi áttir. Þetta er svipað og með líkamsræktina, sömu lögmál sem gilda í báðum tilfellum það er æfingin sem skapar meistarann.
NLP Coaching
Í NLP fræðunum er sagt að til að breyta hugsunum þurfi fyrst af öllu að koma til viðhorfsbreyting sem verður til vegna nýrrar reynslu og skynjunar og síðan tekur við ákveðið lærdómsferli.
Það má líkja þessu lærdómsferli við það að læra að keyra bíl. Í upphafi erum við ómeðvituð um vankunnáttu okkar en höldum samt af stað. Næsta stig verður síðan til þegar við setjumst undir stýri og uppgötvum að við hreinlega kunnum ekkert á útbúnað bílsins. Þriðja stigið er síðan það að við lærum á útbúnaðinn og æfum okkur reglubundið. Fjórða og síðasta stigið er síðan þegar við erum farin að keyra bílinn án þess að þurfa að hugsa nokkuð um hvað við erum að gera, við bara keyrum.
Við ferðumst semsagt frá ómeðvitaðri vankunnáttu yfir í meðvitaða vankunnáttu, og þaðan forum við yfir í meðvitaða þekkingu og að lokum yfir í ómeðvitaða þekkingu.
Úfff er einhver að skilja mig núna? :)
Hugsanir hafa áhrif á vatn
Einn af þeim fyrstu til að hafa óbilandi trú á því að hugsanir og orð sköpuðu veröld okkar var Émile Coué lyfjafræðingur en hann sýndi fram á það í nokkrum rannsóknum að jákvæð hugsun hefði áhrif bæði á andlega og líkamlega heilsu okkar. Ein frægasta setning sem er kennd við hann er Alla daga á allan hátt líður mér betur og betur Þessa setningu lét hann skjólstæðinga sína endurtaka reglubundið dag hvern á heilsuhæli sem hann rak í Frakklandi, og vakti það athygli hversu góðum árangri hann náði við að byggja upp heilsufar þeirra.
Ýmsir aðrir aðilar hafa skoðað mátt hugsana og áhrif þeirra á okkur mennina, þeirra á meðal var Masaro Emoto japanskur vísindamaður og heilari. Emoto virðist hafa sannað í tilraunum sem hann gerði að jákvæðar hugsanir hafa áhrif á uppbyggingu vatnssameinda og hafa þar af leiðandi mikil áhrif á líðan okkar mannanna þar sem líkami okkar er að stórum hluta til vatn. En þar sem jákvæðar hugsanir hafa áhrif á líkama okkar og líðan megum við ekki gleyma að þær neikvæðu hafa einnig mikil áhrif.
Niðurstaðan eða útkoman úr rannsóknum sem Emoto framkvæmdi var sú að hugsanir geta haft áhrif á uppröðun vatnssameindanna. Mjög áhugaverðar niðurstöður að mínu mati fyrir þá sem virkilega hafa þörf á að breyta ástandi hugsana sinna og bæta heilsu sína. Líta má þessar rannsóknir og myndir Emotos af kristöllunum í bókinni um vatnið sem gefin var út hér á landi fyrir nokkrum árum síðan.
Allt það sem ég hef talið upp hér að framan vona ég að sýni okkur öllum fram á að ávinningurinn af því að hafa hugsanir okkar í jákvæðum farvegi geti skilað okkur ánægjulegra, kvíða og þunglyndisminna lífi sem gæfi okkur þess í stað dass af hamingju, breyttu boðefnaflæði og Voila! Nýtt og betra andlegt líf er orðið til.
Í mínum huga er það a.m.k afar ljóst að við sköpum með hugsunum okkar og framkvæmdum tengdum þeim, og því hvet ég okkur öll til að sleppa tökum á neikvæðum og niðurrífandi hugsunum og skipta þeim út fyrir jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir sem gefa okkur gleði.
Uppskrift þeirra sem eru búnir að höndla hamingjuna
Og svona að lokum til að árétta tilganginn með þeim hugsanabreytum ætla ég að telja upp 21 atriði sem samkvæmt skilgreiningu hins umdeilda Dr.Mercola einkenna þá hamingjusömustu og jákvæðustu.
Í fyrsta lagi þá kunna hinir hamingjusömu að fyrirgefa,
Þeir eru vingjarnlegt við alla menn.
þeir líta á vandamálin sem verkefni
Og eru þakklátir fyrir það sem þeir eiga og hafa.
Þá dreymir stóra og mikla drauma.
En eyða ekki orkunni í pirring eða áhyggjur af því sem ekki skiptir máli.
Þeir tala vel um annað fólk.
Forðast afsakanir.
Og lifa í núinu.
þeir vakna á sama tíma alla morgna, eru reglusamir og hugsa vel um heilsu sína og útlit.
Bera sig ekki saman við aðra.
Skeyta ekki um það hvað öðrum finnst.
þeir gefa sér tíma til að hlusta án þess að ætla að bregðast við því sem þeir heyra.
Duglegir að rækta vinskap.
Og þeir stunda andlega iðkun af einhverju tagi.
þeir borða hollan og góðan mat.
Og þeir hreyfa sig.
þeir fækka stressþáttum lífsins með því að einfalda það.
Þeir eru heiðarlegir.
Og sýna sjálfsaga.
Og að lokum þá viðurkenna þeir þá hluti sem þeir fá ekki breytt og sleppa tökum á þeim.
Þannig að ég hvet okkur öll til að verða meðvitaðri um neikvæð hugsanamynstur okkar og breyta þeim okkur í vil því það skiptir bara svo ótrúlega miklu máli þegar litið er til andlegra og veraldlegra lífsgæða okkar. Ég vona að ég hafi ekki alveg gengið frá þér með leiðindum kæri lesandi en
En ef ég get aðstoðað þig á þinni leið til breytinga þá hafðu endilega samband.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2018 | 11:19
Get ég breytt vondum samskiptum í lífi mínu?
Við þörfnumst kærleiksríkra samskipta:
Ég er mikill aðdáandi félagsvísindakonu að nafni Bréne Brown en hún hefur stundað rannsóknir á þörfum okkar hvað samskipti varðar og hefur komist að áhugaverðum niðurstöðum þar. Hún talar um Béin 3 sem á enskunni útleggjast sem to be brave to belong to be loved, eða á íslensku að vera hugrakkur að tilheyra og að vera elskaður en til þess að geta að fullu tilheyrt og að taka við kærleiksríku þeli þurfum við oft að sýna hugrekki og bæta við það dassi af einlægni og opnun á því hver við erum. Þetta eru einnig ein aðal innihaldsefnin góðs samstarfs og góðra samskipta að mínu viti.
Er netið að eyðileggja samskipti okkar?
Í dag er loksins farið að viðurkenna einn af eftirsóknaverðustu eiginleikum sem við getum haft í farteskinu sé kunnátta okkar á góðum og gefandi samskiptum og hugtakið tilfinningagreind er loks að öðlast verðskuldaða viðurkenningu. Engin furða á tímum þar sem bein samskipti hafa minnkað óhugnanlega mikið en tölvusamskipti tekið við að allt of miklu leiti. Orðin sem við segjum gefa aðeins til kynna 7% af innihaldsefni þess sem við segjum en restin er byggð upp á líkamstjáningu og tónfalli orðanna. Svo hvernig í ósköpunum á að vera hægt að skilja að fullu samskipti sem eiga sér stað í skilaboðum á netinu?
Enda er misskilningur algengari en skilningur þar og hægt að lesa úr skilaboðunum með misjöfnum hætti, allt eftir persónuleika og tilfinningalífi hvers og eins. Flestir fræðimenn eru sammála um að í framtíðinni verði mest að gera hjá þeim sem starfa við samskipti og lausnir tengdum samskiptavanda eins og ég reyndar fæst við og get staðfest að samskipti okkar í dag eru flókin og misskilningur algengur í netsamskiptunum.
Tilfinningagreind:
En til að útskýra að einhverju leiti hvað tilfinningagreind er væri líklega auðveldast að segja að hún tengist hæfni fólks til geta tengst öðrum ásamt því að geta lesið úr eigin tilfinningum sem og annarra og hafa þannig áhrif til góðs með því að skilja aðra og hvaðan þeir eru að koma.
Daníel Goleman er líklega sá sem mótaði þetta nýja hugtak og skrifaði í kjölfarið bókina Emotional intelligence: Why it can matter more than IQ).
Goleman talar um að tilfinningagreindin byggist á 5 hæfisþáttum sem eru:
Hæfni til að þekkja og nefna réttilega eigin tilfinningar ásamt skilningi á tengslum hugsana, tilfinninga og hegðunar. Hæfni til að stjórna eigin tilfinningum og að geta sett sig inn í ákveðið tilfinningalegt ástand og aðstoða við lausnir þar. Hæfni til að skynja hvernig öðrum líður og geta tekið tillit til þeirra, ásamt því að hafa góða hæfni í mannlegum samskiptum sem er svo forsenda fyrir því að geta nýtt það sem hér að framan var talið upp.
Öll viljum við góð og gefandi samskipti og samvinnu en kunnum stundum bara ekki á þau sem er engin furða því að hingað til hefur ekki verið lögð nein áhersla á að kenna okkur það fag.
En það eru nokkur skref sem við öll getum tileinkað okkur til að bæta samskipti okkar og auka þar af leiðandi hamingju okkar í daglegu lífi.
Hvað get ég gert til að bæta samskipti mín?
Þau skref sem ég legg til að þú innleiðir inn í líf þitt samskiptalega séð er í fyrsta lagi að hafa áhuga á lífi, skoðunum og lífsgildum þess sem þú umgengst án þess að hafa skoðun á því eða setjir þig í dómarasæti þar, eða með öðrum orðum: Talaðu þannig að áheyrendurnir elski að hlusta á þig og hlustaðu á aðra þannig að þeir elski að tala við þig! Bættu síðan við dassi af jákvæðni og öllu því sem þú sjálfur eða sjálf vilt uppskera inn í þín samskipti og Voila! Lífið verður hamingjuríkara
Samskipti lúta því lögmáli sem við sjáum í flestu öðru en það er lögmál sáningar. Þetta eru þeir svo sem fyrir löngu búnir að uppgötva í Þykkvabænum því að þeim dettur ekki í hug að setja niður gulrótarfræ þegar þeir ætla að uppskera kartöflur.
Ef þú bætir síðan við sáninguna því að leita eftir því sem er jákvætt og gott við manneskjuna ásamt því að finna styrkleika hennar í stað veikleika er ég nokkuð viss um að samskipti þín verði meira gefandi og jákvæð ásamt því að auðveldara verður að opna á samræður um það sem er að valda misskilningi særindum og öðrum vondum tilfinningum.
En gleymum því ekki heldur að við erum í samskiptum við okkur sjálf allan sólarhringinn og þau eru nú ekki alltaf falleg!
Við skömmum okkur fyrir allt og ekkert og tölum við okkur á þann hátt sem við myndum aldrei voga okkur að tala við nokkurn mann. Hættum þessu krakkar og tölum fallega við okkur eins og aðra. Virðingin sem við sýnum okkur sjálfum fer ekki framhjá þeim sem við erum í samskiptum við og smitar útfrá sér til þeirra á góðan hátt því að útfrá þeirri virðingu sem við sýnum okkur sjálfum spretta fram heilbrigð mörk og meðvirkni lætur undan.
Ég vona að þessi upptalning mín verði til þess að samskiptalega séð verði árið þitt glimmer og gleðiríkt og að allur misskilningur og leiðindi verði á bak og burt. En ef þú þarfnast leiðsagnar og aðstoðar við þín samskipti þá er bara að panta tíma hjá mér og leysa úr vandanum á fljótan og skjótan hátt
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2017 | 10:56
Glimmerárið mitt 2017
Þar sem nýtt ár gengur senn í garð og við kveðjum það gamla, ætla ég að hleypa ykkur elskurnar aðeins inn í líf mitt og gera árið mitt upp hér með ykkur.
Ég er afar þakklát fyrir þetta ár sem kenndi mér svo marga nýja hluti um mig sjálfa, lífið og tilveruna í heild sinni og sneri lífi mínu líklega alveg við um 360 gráður ef ég er alveg heiðarleg við sjálfa mig.
En Guð minn góður hvað það var kominn tími á allar þessar breytingar og mikið er ég þakklát og glöð fyrir að vera tekin ssvona líka hressilega út úr þægindahring mínum. Ég fann svo sannarlega hversu nauðsynlegt það er að fara út úr þessum hring reglulega því að stöðnunin sem verður þegar við lokumst inni í honum er í raun ekkert annað en andlegur dauði, og þar getur enginn vöxtur átt sér stað.
Árið byrjaði með því að við Hanna vinkona skutum upp rakettum og í mínu tilfelli a.m.k lét ég fylgja með þeim ákveðnar óskir fyrir þetta nýja ár 2017 og sendi þær til úrlausnar hjá alheiminum og vænti auðvitað fljótrar og góðrar afgreiðslu á þeim þar.
Og viti menn, ekki var langt liðið á þetta nýja ár þegar bænheyrslurnar byrjuðu að banka uppá mér til mikillar furðu og ánægju.
Og þetta ár hefur svo sannarlega verið ár breytinga og uppfylltra óska hingað til í mínu lífi eins og merkilegt nokk öll þau ár sem enda á tölunni sjö.
Strax í febrúarbyrjun urðu stór og mikil kaflaskil í mínu lífi því að þá hitti ég núverandi sambýlismann minn við heldur óvenjulegar aðstæður að okkur finnst báðum svona eftir á og eftir það varð ekki snúið aftur til hins frjálsa og einhleypa lífs.
Við tóku dagar ástar og tilhugalífs. Dagar sem voru fullir af spennu, samtölum, skilaboðum, samveru og aðlögunar að öðrum aðila sem enn stendur yfir þegar þessar línur eru ritaðar. Og þó að ástin sé dásamleg þá kennir hún okkur oft lexíur um okkur sjálf sem ekki alltaf er auðvelt að viðurkenna eða horfast í augu við. Eins kennir hún okkur hversu gott það er að gleðja aðra mannveru með ýmsum hætti (kostar okkur oft að láta af okkar eigingirni) og ég er alla daga að uppgötva hversu heppin ég er með það að örlagadísirnar tóku völdin þennan febrúardag og ég fékk að kynnast þessum yndislega manni.
Þessi dásamlegi maður vill allt fyrir mig og mína gera og kom svo sannarlega með lækningu inn í líf mitt til anda sálar og líkama og svo gerir hann alla daga betri með nærveru sinni og sínu fallega, umhyggjusama góða hjarta. Og ég vona bara svo sannarlega að lífið haldi áfram að leika svona við okkur og færi okkur mörg góð og falleg ár saman.
En breytingar lífsins urðu fleiri en á ástarsviðinu á þessu herrans ári.
Í byrjun sumars urðu önnur kaflaskil þar sem ég ákvað að selja gamla Fordinn minn sem var búinn að kosta mig álíka mikið og gullsleginn Bens (vegna láns sem var náttlega alveg brilliant að taka á sínum tíma í jenum og svissneskum frönkum!) og ég keypti mér þessa líka fínu og flottu Mazda bifreið í hans stað sem þýtur nú með mig glaða og ánægða út um allar trissur.
Og ekki var nú nóg með að ég skipti út tíu ára gömlum Fordinum heldur ákvað ég einnig að selja litla sæta kotið mitt sem haldið hafði svo fallega utan um mig og veitt mér skjól síðasta áratuginn, en nú hugðist ég semsagt leggja undir mig nýtt landsvæði en þakka á sama tíma því gamla fyrir allt það góða sem það geymir og gaf mér.
Þessi sala vafðist þó töluvert fyrir mér og tók mig töluvert út fyrir huggulega þægindaboxið mitt og hristi upp í tilveru minni. Ég fékk þó það verð sem ég vildi fá fyrir þennan gullmola minn og þá var ekkert annað að gera en að fara út úr boxinu eina ferðina enn og halda af stað í íbúðaleit. Nýja parið ákvað á sama tíma að láta bara vaða og rugla saman reitum sínum og héldu af stað í þessa íbúðarleit saman.
Það var skoðað spáð og spekúlerað þar til við fundum það sem við höfðum verið að leita að. Enduðum afar glöð og ánægð á því að kaupa okkur íbúð í Kópavogi, nánar tiltekið í 203 Kópavogi. Þannig að í byrjun Ágústmánaðar var lífið búið að taka mig langt frá þeim stað sem ég var á þegar ég skaut rakettunni góðu upp á áramótunum. Ég var ekki bara búin að hitta manninn í lífi mínu heldur búin að selja og kaupa, bæði bíl og íbúð á nýju landssvæði. Það var heldur betur búið að snúa tilveru minni við á skömmum tíma og þannig finnst mér það oft vera með hringrás lífsins.
Og breytingarnar héldu áfram hverjar á fætur annarri þetta árið, kannski þó heldur fyrirferðaminni en þær sem ég taldi hér upp að framan en engu að síður flestar gleðilegar og góðar. Og mér sýnist að árið 2018 færi fleiri breytingar því að nú í byrjun mars 2018 á ég von á fjórða barnabarninu mínu mér til mikillar ánægju og gleði.
Að ég sé að opinbera líf mitt og segja ykkur frá gangi þess þetta árið í þessum áramótaannáli mínum er kannski helst til komið vegna þess að ég veit að stundum finnst okkur eins og veröldin standi í stað og ekkert gott eða nýtt bíði okkar. Stundum finnst okkur að við séum bara týnd í veröld þar sem allir eiga vinningsmiða nema við.
Og einnig leyfi ég ykkur að vera þátttakendur í mínu lífi til að benda ykkur á hversu auðveldlega við gleymum því þegar við erum á vondum stað að það eru hæðir og lægðir í lífinu, tímar til að gleðjast og tímar þar sem lífið er ekki svo gott. Ég trúi þó að allt hafi þetta tilgang til góðs fyrir okkur með einhverjum hætti sem við þó skiljum ekki endilega alltaf.
Og endilega ef þú þekkir einhverja sem þyrftu að sjá hversu hratt og óvænt lifið getur tekið fallega og góða stefnu þá hvet ég þig til að deila þessum pistli til þeirra með kveðju frá mér.
Við ættum heldur ekki að gleyma því að á erfiðu tímabilunum í lífum okkar eru tækifærin til vaxtar alveg ótrúlega mörg því að í myrkrinu er það sem fræið spírar og fæðist fram, og það er í myrkrinu sem við vöxum að visku og þekkingu. (en ég veit þó hversu mannleg við erum og það er auðveldara að skrifa þetta en að fara eftir því)
Það er á stað vaxtarins og sjálfsþekkingarinnaar sem við verðum oft umburðalyndari og missum þörf okkar til að dæma allt og alla og uppgötvum að það eru litlu andartök gleðinnar sem mynda og vefja kaðal hamingju okkar. Það er einnig í myrkrinu sem við uppgötvum þörf okkar fyrir aðstoð og skilning annarra, kærleika og samstöðu samfélagsins og skiljum hversu mikilvægt það er að við sýnum öðrum slíkt hið sama á þeirra erfiðu og dimmu stundum.
Bölvum því ekki myrku stundunum, fögnum heldur verkefnum lífsins og ljósinu sem smá saman kveikir á öllu því fegursta sem mannlífið inniheldur í sálu okkar. Ljósið mun ávallt sigra myrkrið og skína inn í líf okkar að nýju og andadráttur lífsins mun halda áfram sinni hringrás myrkurs og ljóss, svo þökkum sama hvoru megin á kúrfunni við erum hverju sinni.
Þetta ár var minn tími til að gleðjast og fagna og fyrir það er ég afar þakklát. Þakklát vegna þess að ég kann betur að meta og þakka fyrir það góða sem mér er úthlutað eftir að hafa kynnst því dimma sem lífið hefur einnig uppá að bjóða. Þannig að ég fer með barmafullt hjarta af þakklæti inn í árið 2018 og vona að það ár verði mér og þeim sem ég elska jafn gjöfult og gott og árið 2017 var.
Og ykkur mín kæru, óska ég alls hins besta og fegursta sem þetta líf hefur upp á að bjóða og vona svo innilega í hjarta mínu að árið strjúki ykkur fallega og strái yfir ykkur mörgum glimmerstundum á dag allt árið á enda.
Takk fyrir að vera þið eins og þið eruð - dýrmæt og einstök, og takk fyrir lesturinn ykkar á þessum litlu hugleiðingum mínum á þessu ári.
Guð geymi ykkur
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2017 | 12:07
Uppkrift jólanna
Núna þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð þá finnst mér eðlilegt að velta því aðeins fyrir mér persónuleika og gildum afmælisbarnsins sem höldum þessa hátíð vegna. Uppskrift hans er uppskrift að lífi sem er uppfullt af kærleika og öðrum góðum innihaldsefnum. Uppskrift sem lifað hefur í rúm 2000 ár og trónir á metsölulistum um allan heim ennþá, geri aðrar sjálfshjálparbækur og lífsuppskriftir betur!
En það er vegna þessarar uppskriftar sem við gleðjumst og fögnum þessa hátíðardaga og hér á norðurhjara veraldar fögnum við í leiðinni hækkandi sól. Og svei mér þá ef við ættum ekki flest að geta verið sammála um að þessi uppskrift er bara ótrúlega góð og falleg sama hvar við stöndum trúarlega séð.
Ef við færum bara eftir helmingnum af þessari kennslu afmælisbarnsins þá er ég viss um að líf okkar tæki stórkostlegum breytingum og líklega værum við hamingjusöm með frið í hjörtum okkar alla daga.
En hver er svo þessi kennsla eða uppskrift að góðu lífi?
Afmælisbarnið kenndi okkur að mæta fólki á þeim stað sem það er. Hann mætti öllum sem vildu við hann tala, en á þessum tíma var það bara alls ekki sjálfsagt. Það var ekki til siðs að karlmaður talaði við konur, hvað þá að eiga þær að vinum eins og hann átti, og ekki þótti það viðeigandi að Gyðingur talaði við td Samverja og aðra þjóðflokka. En það að mæta fólki á þeim stað sem það er statt hverju sinni gefur okkur alveg ótrúlega gott tækifæri á því að ná til þeirra samskiptalega séð og aðstoða þar sem aðstoðar er þörf. Að líta upp eða niður á fólk gerir okkur einungis ógagn og setur okkur á stað hroka og yfirlætis eða á stað niðurlægingar sem er síst skárra.
Jesú kenndi okkur að mínu mati að við þurfum að vilja það góða og finnast við eiga það skilið til að fá það. Hann sagði að við þyrftum að vilja sleppa því að vera fórnarlömb lífsins ef við vildum taka við þeirri lækningu sem í boði væri. Hann gekk um og læknaði en spurði þá sem hann læknaði hvort þeir vildu verða heilir.
Merkileg spurning í sjálfu sér en þó svo skiljanleg þegar við vitum í dag að til að breyta lífinu með einhverjum hætti þurfum við alltaf að vilja breytinguna og í raun þrá hana af öllu hjarta. Eins þurfum við að vera tilbúin til að taka þau skref sem nauðsynleg eru til að breytingin (lækningin)geti átt sér stað.
Afmælisbarnið boðaði kvenréttindi og jafnrétti á tímum þar sem það var alveg fráleit hugmynd. Með því að eiga konur að vinum og með því að tala yfir höfuð við konur sýndi hann heiminum að konur væru jafnréttháar körlum á tímum sem litið var á þær sem einskisverðar.
Dæmið ekki voru hans orð og hann sýndi það í verki að hann var ekki kominn til að dæma heiminn heldur til að boða náð og miskunn. Konan sem átti að grýta en sem hann varði gegn þeim sem æðstir voru í samfélaginu lagalega séð segja okkur að dómar í garð náungans eiga ekki að fyrirfinnast hjá okkur þar sem við vitum ekki hvers vegna fólk bregst við eins og það bregst við. Við þekkjum ekki innsta kjarna hvers manns og vitum ekki alla hans sögu sem í raun rænir okkur öllum rétti til dóms. Og svo erum við öll bara svo ófullkomin og breysk að við höfum ekki efni á því að dæma einn eða neinn, ættum heldur að líta í okkar eigin barm.
Jesú var líklega upphafsmaður að þjónandi forustu sem flestir telja bestu stjórnunartækni dagsins í dag og allir keppast við að innleiða í fyrirtæki sín. Hann sagði með þunga að við þyrftum að þjóna hvert öðru í kærleika og setja okkur til jafns við alla hver svo sem við værum, há jafnt sem lág, stjórnendur sem undirmenn. Og ef við skoðum innst í okkar hjarta þá er fátt sem gefur okkur meiri sálarró og gleði en það að aðstoða og hjálpa öðrum og dvelja í samvistum við þá á jafningjagrunni eða aðstoða þá við að ná í drauma sína og fljúga hátt.
Hann kenndi okkur að að vera í einlægni og að verða eins og börnin sem enga stimpla setja á lífið eða samferðamenn sína. Það eru oft skilgreiningar okkar (sem við trúum auðvitað að séu stóri sannleikurinn) sem gera það að við sjáum ekki gimsteinana sem glóa allt um kring bæði í lífinu sjálfu og þeim sem ganga lífsveginn með okkur.
Að hugsa vel um musteri okkar, heilsu og að festast ekki í hroka og eigingirni var einnig hluti af hans kennslu. Eins og ég a.m.k skil hann þegar hann talar um musterið þá finnst mér hann vera að tala um það að við eigum að hugsa vel um líkama okkar og láta ekkert í okkar lífsháttum verða til þess að eyðileggja það. Eins finnst mér hann tala um að við eigum að dvelja í sambandi við okkar andlegu hlið og sinna þeirri hlið af alúð. Sá sem lifir einungis í líkamanum en ekki andanum og sálinni lendir að mínu mati í eigingirnis ástandi sem engum er til heilla og leiðir jafnvel til tjóns á svo margan hátt í lífi viðkomandi.
Það sem var svo töff við Jesú var að hann lét almenningsálitið aldrei trufla sig og ofsóknirnar á hendur honum stöðvuðu hann aldrei í því að gera það sem hann kom til að gera. Það kennir okkur að láta ekki álit annarra trufla tilgang okkar heldur að halda ótrauð áfram í átt að draumum okkar og innsta tilgangi lífs okkar sama hvaða úrtöluraddir hljóma í kringum okkur. Hann sagði einnig að við gætum allt ef við bara gætum trúað því, jafnvel fært heilu fjöllin (og hver kannast ekki við að þurfa að færa heilu fjöllin þó ekki sé nema andlega séð) og þar er ég svo sannarlega sammála honum. Ég hef séð fólk breyta lifi sínu og snúa því um 360 gráður með því einu að breyta trúarkerfum sínum um lífið og sig sjálft ásamt því að ryðja burt hindrunum hugans.
Þegar hann bauð konunni við brunninn lífsins vatn þá sýndi hann fordómaleysi sitt að fullu því að konan var búin að eiga marga menn og var með manni sem var ekki hennar ásamt því að hún var Samverji sem Gyðingar voru nú ekki hrifnir af á þessum tíma. En þarna kenndi hann okkur ekki bara fordómaleysi að mínu mati heldur einnig það að þeir sem standa höllum fæti eða lifa ekki samkvæmt stöðlum samfélagsins eiga samt sem áður fullan rétt á góðu og gefandi lífi, lífi í fullri gnægð.
Jesú grét og komst við í nokkrum frásögnum Nýja testamentisins og sýndi okkur þannig hversu mikilvægt það er að hafa samúð og að sýna samhug með þeim sem bágt eiga og syrgja. Það er einmitt fátt sem gerir mannlífið fallegra en samhugur manna á milli að mínu mati og á þeim stað skín ljós hans og kærleikur skærast frá okkur.
Hann kenndi okkur að fyrirgefa og ekki bara sumt heldur allt. Það síðasta sem hann bað um var að Guð fyrirgæfi þeim sem krossfestu hann. Hin fullkomna fyrirgefning að mínu mati og sýnir að það er hægt að fyrirgefa allt. Mín eigin reynsla hefur kennt mér að ég leysi ekki síst sjálfa mig þegar ég fyrirgef það sem á minn hluta hefur verið gert og eins gefur fyrirgefningin mér nýja og skilningsríkari sýn á það sem hefur verið gert á minn hluta. Fyrirgefningin gefur mér þó alltaf fyrst og fremst frið í mitt eigið hjarta og leysir mig undan reiðinni og biturleikanum sem eitrar í bókstaflegri merkingu lífið.
Jesú kunni að njóta lífsins og gleðjast þann stutta tíma sem líf hans varði. Hann mátti þola það að vera kallaður vínsvelgur og átvagl vegna þess að hann kunni að njóta þess að eiga samfélag við þá sem hann mætti í lífinu og eiga skemmtilegar stundir með þeim. En hann lét álit annarra ekki hafa áhrif á sig þar frekar en fyrri daginn og leyfði þessu umtali bara að hafa sinn gang vitandi að það er tími til að gleðjast og það er tími til að hryggjast á þessu stutta ferðalagi okkar hér. Njótum á meðan við höfum færi á því elskurnar - gleðin er það sem getur haldið í okkur lífinu andlega séð þegar áföll lífsins á okkur dynja og gleðistundir með þeim sem við eigum vináttu og kærleika hjá er það sem gefur lífinu litadýrð sína.
Jesú kenndi okkur svo sannarlega hversu mikilvægt það er að halda í gildi okkar og láta þau ekki af hendi sama hvað í boði er. Hann vissi að freistingar biðu okkar á hverju horni. Freistingar sem gefa oft skammvinna gleði eða deyfingu en bíta okkur þó að lokum. Þegar við göngum gegn gildum okkar og lífssýn hefur það því miður oft alvarlegar afleiðingar fyrir líf okkar og tilveru alla. Svo stöndum á okkar fallegu gildum og látum ekki rödd heimsins ginna okkur til lags við ljóta skemmandi hluti sem minnka okkur eða ræna okkur því góða, fagra og fullkomna.
Afmælisbarnið kenndi okkur að annast þá sem eldri eru og sýna þeim virðingu okkar. Eitt af því síðasta sem hann gerði hér á jörðu var að biðja lærisvein sinn um að annast móður sína og að verða henni sem sonur. Beiðni sem sýndi mikla umhyggju fyrir afkomu hennar og þeirra beggja reyndar. Þannig var Jesú, umhyggjan og kærleikurinn uppmálaður allt til síðustu stundar. Hann var einnig óspar á það að gefa hvort sem það var matur, drykkur, lækningar eða uppbyggjandi viska. Hann lét sig ekki muna um það að fæða nokkur þúsundir manna með nokkrum brauðum og fiski, nú og svo er hann jú líka þekktur fyrir það að breyta vatni í vín til að gleðja gesti í brúðkaupi nokkru (og við vitnum oft í þessa sögu) og vakti það geysilega lukku sem vera bar. Hann sagði okkur einnig að þegar við tækjum á móti og önnuðumst aðra værum við að gleðja guðdóminn sjálfan. Þar höfum við það!
Innihald alls þess sem ég hef skrifað hér að framan er í raun Kærleikurinn sjálfur í allri sinni mynd. Og það er kærleikurinn sem hann sagði að okkur bæri að starfa í til alls og allra.
Ef kærleikur okkar, sem ég trúi að búi innra með okkur öllum fengi að dafna og skína inn í dimma veröldina trúi ég því að við gætum lýst hana upp og gert hana að fallegum stað sem við svo sannarlega þráum öll að þessi heimur sé.
Hugarfar okkar, trú og gildi eru þau öfl sem skapa líf sem gleður okkur og aðra og með því að lifa í kærleika sköpum við ljóstýru sem lýsir inn í myrkan og oft dapran grimman heim.
Við erum einnig andi sál og líkami og þetta þrennt þarf að vera í jafnvægi ef friður jólanna á að setjast að í hjörtum okkar og verða viðvarandi þar.
Og mikið er ég nú viss um að afmælisbarn jólanna yrði nú glatt ef að ljós okkar sjálfra væru fyrirferðameiri en öll þau fallegu ljós sem nú lýsa upp bæi og torg í tilefni afmælis hans.
Skínum skært elskurnar og eigum gleðilega hamingjuríka jólahátíð fulla af friði og kærleika í anda þess sem við nú minnumst.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2017 | 15:11
Aðventustress
Rakst á þennan gamla pistil sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum en á þó fullt erindi til okkar í dag að mínu mati og því ákvað ég að setja hann nánast óbreyttan hér inn með von um að Trölli nái ekki að stela jólunum ykkar. Í hans stað vona ég að hinn sanni kærleiksandi jólanna fylli hjörtu ykkar og þeirra sem þið elskið.
En hér kemur þessi gamli pistill.
Uppskrift að hamingju
2 sléttfullir bollar af gleði
1 hjartafylli af kærleika
2 handfylli af örlæti
dash af dillandi hlátri
1 höfuðfylli af skilningi og samhyggð
Vætið örlátlega með góðvild, látið helling af trú og einlægni og hrærið vel.
Breiðið svo yfir þetta með heilli mannsævi.
Berðu á borð fyrir alla sem ganga með þér í þessari jarðvist.
Á aðventu
Hvernig væri á þessari aðventu að við tækjum þessa uppskrift fram yfir sörurnar og piparkökurnar, og leyfðum okkur að njóta alls þess dýrmæta sem mannlífið og aðventa jólanna hefur uppá að bjóða
Gönguferðir innan um jólaljós, kanil og eplalykt, snjókorn á tungu, gleði, hlátur, faðmlög og upplifun á tærri fallegri ást til þeirra sem skipta okkur máli ættu að vera þeir hlutir sem við hefðum helst á dagskránni á þessum yndislega tíma (og ofkors alla aðra daga) í stað þeirra hluta sem við gjarnan setjum í öndvegi.
Flott en dösuð húsmóðir
Ég var áður fyrr ein af þessum brjálæðislega flottu húsmæðrum sem sá um að ekkert væri óhreint á heimili mínu fyrir jólin silfrið var pússað, gluggar þvegnir, og Guð forðaði mér iðulega frá því að skáparnir, ísskápurinn og ofninn urðu ekki útundan í þessari árlegu hreingerningu
Húsgögnin voru hreinsuð, teppin þvegin, rúmföt og allt annað straujað, jólafötin jafnvel saumuð á börnin, jólagjafir keyptar og eða föndraðar, og auðvitað pælt í þeim öllum útfrá þörf eða löngun þeirra sem áttu að fá pakkana, svo var skrifað á amk 60 jólakort, 20 tegundir af bökuðum smákökum var ofkors algjör nauðsyn , rauðkálið var soðið uppá danskan máta, heimalagaður ís algjört möst, fromange og stríðstertur í bunkum bakaðar
Húsið var skreytt í hólf og gólf á síðustu metrunum og þessi flotta húsmóðir gjörsamlega búin á því úttauguð og grátgjörn á Þorláksmessunni. En börnin voru auðvitað komin þá í tandurhreint rúmið í nýju náttfötunum sínum sæl á koddanum og biðin eftir síðasta jólasveininum Kertasníki hófst hann fékk auðvitað tilheyrandi bréf og kerti í skóinní staðinn fyrir dýrindispakkana sem hann iðulega skildi eftir en þessi dasaða húsmóðir beið bara eftir því að þessari elskuðu og yndislegu hátíð lyki og aumur hversdagsleikinn tæki við.
Ef ég gæti snúið til baka
Börnin mín hlæja mikið af þessum tíma en fengu kannski samt nett ógeð á þessum stressaða jólaundirbúningi þar sem lítið rúm var fyrir æðruleysi, kærleika, ró, gleði, hlátur og samveru og mikið skil ég það vel í dag hvað þetta fór í taugarnar á þeim En jólin þeirra skyldu verða fullkomin og flott hvað sem það kostaði! Ný föt, klipping, náttföt, nærföt og allt til alls var það sem ég vildi fyrir börnin mín ekkert minna dugði fyrir þessa elskuðu einstaklinga En kostnaðurinn var kannski of mikill gleðina og yfirvegaðan kærleikann vantaði
En lítið vissi ég um það hvað allir þessir hlutir sem ég lét í öndvegi skipta litlu máli í undirbúninginum, eða hversu mikið ég í raun eyðilagði gleði og kærleiksþel jólanna með þessari fullkomnunaráráttu minni Og ef ég gæti snúið til baka þá yrðu jól barnanna minna öðruvísi, þvi get ég lofað ykkur
Þau fengju að upplifa kærleika minn og gleðina yfir því að frelsari minn fæddist hér í þennan heim það yrði hlátur í stað prirrings gleði við að skapa jólin í sameiningu hvort sem skítur væri í gluggum eða skápum heimilisins jólaljósin og kertin gera allt fallegt hvort sem er.
Börnin fundu að eitthvað vantaði
En var ekkert gert sem gleði gat gefið í öllum þessum látum? Jú jú, það var farið niður í bæ þegar jólaljósin voru tendruð á Austurvellinum og kakó drukkið á eftir með rjómavöfflum, en lítil ánægja fylgdi því fyrir mig og líklega börnin mín einnig þar sem svo mikið var eftir að gera og enginn tími fyrir svona óþarfa.. auðvitað hafa börnin mín fundið að það var eitthvað sem vantaði mamma var ekkert sérstaklega glöð og kát í undirbúningi þessarar gleðihátíðar .
Það var líka farinn Laugavegs, Blómavalsrúntur og fl , en eins og með annað vantaði alveg æðruleysið og gleðina inn í uppskriftina
Þessi hátíð ljóss og gleði getur orðið að sannkallaðri martröð fyrir alla þegar við ætlum að gera hana svo fullkomna að við gleymum uppskriftinni að hamingjunni og kærleikanum
Sem færir mig aftur að byrjunarreitnum og að ráði mínu til mín og til þín sem þetta lest er:
Njótum samvistanna við þá sem okkur eru kærir, kaupum frekar smákökurnar úti í búð eða fækkum tegundunum og njótum þess að vera bara til
Leikum okkur, skoðum öll undrin sem eru fyrir augum okkar allstaðar, fallegu ljósin, glingrið, finnum matarilminn, gleðina og kærleikann í loftinu, leyfum okkur að upplifa það að opna hjarta okkar fyrir því góða sem í lífinu býr og þökkum fyrir það sem við höfum í kringum okkur elskum og njótum hverrar mínútu.
Við vitum ekki hversu lengi við fáum að njóta samvista við þá sem okkur eru kærir, svo nýtum tímann vel.
Með jólaljósagleðikveðjum til þín og þinnar fjölskyldu, með innilega kærleiksríkri ósk um gleðilega og fallega aðventu.
Þar til næst elskurnar
Ykkar Linda xoxo
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2017 | 12:17
Sjáðu hvað þú lést mig gera
Orðin okkar og hugsanir hafa þann eiginleika að skapa tilveru okkar að miklu leiti og oft er sagt að líf og dauði sé á tungunnar valdi. Ég er um margt sammála þessu og tel að heimspeki og trúarrit hafi flest ef ekki öll kennt okkur þetta.
Þess vegna veit að ég hversu auðvelt það er fyrir átrúnaðargoð barna okkar að koma inn ranghugmyndum og rangri nálgun til lífsins á framfæri við þau í gegnum lagatexta m.a.og langar mig að tala aðeins um það í þessum pistli mínum.
Sem betur fer gera þó flestir textahöfundar sér grein fyrir ábyrgð sinni í þessum efnum en greinilega á máltækið "betur má ef duga skal" við þegar kemur að þessu.
Textar eins og "look what you MADE me do" eða sjáðu hvað þú lést mig gera og "the role you MADE me play" finnast mér td ekki smart skilaboð til barna okkar og unglinga.
Úttöluð orð þar sem þú tekur ekki ábyrgð á sjálfri þér heldur er það einhverjum öðrum að kenna ef þú gerir eitthvað, og svo er það einhver annar sem skaffar þér þitt hlutverk í lífinu.
Eins varð nú femínistinn í mér fyrir áfalli þegar einn textinn fjallaði um hvort að stelpan væri orðin nægjanlega sexý fyrir strákinn.
Ég verð að viðurkenna að ég hefði haldið að kvennabaráttan væri komin á hærra plan, að við værum komnar frá því að hlutverk okkar kvenna væri nánast eingöngu falið í því að vera nógu flottar og sexý fyrir mennina í lífi okkar, heldur hélt ég að gáfur okkar og skynsemi væri orðin meira metin eftir að meirihluti þeirra sem Háskólana sækja eru konur - en nei ég hef greinilega ekki haft rétt fyrir mér þar!
Eins og áður var er í dag allt vaðandi í staðalímyndum sem segja okkur alla daga að við séum ekki nóg af einhverju eða of mikið af einhverju - a.m.k erum við ekki eins og við ættum að vera í fullkominni Hollywood veröld, og við hlustum raunverulega á þetta og reynum að aðlaga okkur að einu í dag og öðru á morgun í stað þess að vera bara við eins og við erum og vera ánægð með það.
Kannski er ég bara hrikalega gamaldags en mér finnst ekki sniðugt að fyrirmyndir barna okkar séu tengdar óraunhæfum staðalímyndum eða textum sem fjalla um það sem hreinlega er ekki til að auka gæði lífsins hjá einum né neinum en er samt látið líta þannig út.
Lagatextar eins og þeir sem fjalla um eiturlyf og vellíðan þeirra en ekki afleiðingar,ábyrgðaleysi þar sem þú ert alltaf viljalaust fórnarlamb,sjálfsvíg sem góða lausn frá þunglyndi,niðrandi orðbragð, vanvirðing og hlutgerðing á konum- þar sem þær gerðar að kynlífsleikföngum er bara eitthvað sem mætti hreinlega setja "blíbb" á eins og gert var við ljótt orðbragð í sjónvarpinu hér áður fyrr og er kannski gert sumstaðar enn.
Ég er amma nokkurra barna á viðkvæmu mótandi aldursstigi og ég fæ hroll við tilhugsunina um að barnabörnin mín í sinni félagslegu mótun fái skilaboð af þessu tagi í gegnum átrúnaðargoð sín, og ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um hversu mötuð þau eru í gegnum ofbeldisfulla tölvuleiki þar sem dráp eru sjálfsögð til stigagjafar og sigurs og hvernig sjálfsmynd þeirra á að vera samkvæmt tískuritunum sem þau fletta sem segja þeim hvernig þau eiga að vera svo að þau séu nú "pro" eins og litli níu ára ömmuguttinn minn skilgreinir það að vera nægjanlega flottur fyrir veröldina .
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og ég trúi því að það sé á ábyrgð okkar allra að gæta að því hvað börnin okkar fái að hlusta á og horfa þar sem það getur valdið þeim verulegum skaða að fá skakka og villandi mynd af raunveruleikanum og því hvernig eðlilegt er að við umgöngumst hvert annað í orðum og gjörðum.
Tökum höndum saman og kennum börnum okkar að taka ábyrgð og segjum þeim að það geti enginn látið þau gera eitthvað - að ég tali nú ekki um til hefndar þó að komið hafi verið illa fram við þau. Segjum þeim að við berum alltaf sjálf ábyrgð á slíkum gjörningum sem og öllu öðru sem við tökum ákvarðanir um í lífinu.
Segjum þeim einnig að það sé einfaldlega ekki málið að deyfa sig fyrir verkefnum og vanlíðan lífsins með notkun efna, það skerði einungis sjálfsvirðingu og sjálfstraust allra með tilheyrandi hnignun á lífsgæðum þeirra og skertum möguleikum til að eiga fallegt og gott líf.
Og við stelpurnar okkar ættum við svo sannarlega að segja að þær þurfi aldrei að gera sig "nægjanlega sexý" fyrir karlmenn né nokkurn annan til að vera samþykktar, því að þær eru bara hrikalega flottar eins og þær eru og þurfa engu við að bæta.
Auðvitað veit ég að við erum að kenna börnunum okkar allt það fallega og góða nú þegar en þegar ég heyri unglingsömmustelpurnar mínar spila uppáhalds tónlistina sína fer bara um mig stundum, og aldrei er góð vísa of oft kveðin held ég.
Stundum þurfum við bara að muna eftir því að standa saman sem heilt þorp þegar framtíðarkynslóðin á í hlut og kenna það sem gæti t.d útrýmt herferðum eins og "me too" herferðinni vegna þess að við værum bara svo svakalega siðmenntuð á öllum sviðum og allir kæmu fallega fram við hvert annað.
Verum bara öll vakandi elskurnar fyrir áhrifavöldunum í lífi kynslóðarinnar sem er að vaxa úr grasi og stöndum saman að því að vernda þau og vísa þeim veginn til lífs og góðrar líðanar.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar